fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Matur

Mætti með steikarpottinn í Hagkaup til að máta jólakalkúninn: „Jólamáltíðin má ekki klúðrast.“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 21. desember 2018 11:30

Freyr og kalkúnninn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta má ekki klúðrast. Jólamáltíðin má ekki klúðrast. Maður getur alltaf reddað sér í matarboðum með því að panta pítsu en maður gerir það ekki á aðfangadag. Maður vill ekki heyra gestina segja við matarboðið: Þetta var bara fínt. Það eru ekki ummæli sem maður vill heyra,“ segir Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður á RÚV.

Freyr segist geta orðið frekar stressaður um jólin og til að vera alveg viss um að hátíðarmáltíðin yrði fullkomin sendi hann konu sína, Júlíu Margréti Alexandersdóttur, blaðakonu á Morgunblaðinu, með steikarpottinn í Hagkaup til að máta kalkúninn.

Hann passar!

„Ég komst ekki vegna vinnu. Góðvinur minn, Tryggvi Tryggvason, er sérfræðingur í að elda kalkún. Hann var búinn að segja mér að alveg sama hvað ég gerði að þá yrði kalkúnninn sjaldan þurr ef hann væri eldaður í steikarpotti með lokið ofan á. Þá kom yfir mig ein minning úr æsku þar sem gæsin passaði ekki inn í ofninn. Þá lá í augum uppi að það þyrfti að fara og athuga hvort að kalkúnninn passaði ofan í steikarpottinn. Ég var búinn að máta steikarpottinn inn í ofninn og hann passar. Ég sá þá ábendingu í myndbandi á YouTube og mjög mikilvægt að fólk kveiki á því að máta pottinn við ofninn,“ segir Freyr. Aðspurður hvort verslunargestir hafi ekki rekið upp stór augu þegar að Júlía konan hans hóf mátunina segir hann svo ekki vera.

„Nei, ég hef ekki heyrt af því,“ segir hann og bætir við: „Ég elda, hún mátar,“ og hlær.

Vakir og sefur yfir kalkúninum

Síðustu jól hafa Freyr og Júlía verið með andabringur á aðfangadagskvöld en ákváðu í ár að prófa að elda kalkún. Þá blossaði jólastressið upp í Frey.

„Ég viðurkenni að það kom upp ákveðinn kvíði,“ segir hann og brosir. Hann lét ekki kvíðann ná yfirhöndinni heldur var staðráðinn í að undirbúa sig vel fyrir þessa stærstu máltíð ársins. „Ég er búinn að horfa á eiginlega öll YouTube-myndbönd um hvernig eigi að matreiða kalkún. Ég hætti meira að segja að horfa á jólaþátt Nigellu á RÚV því hún ætlaði ekki að elda kalkún. Ég sem var búinn að bíða spenntur eftir þættinum þannig að þetta voru viss vonbrigði,“ segir Freyr, sem lumar þar af leiðandi á ýmsum góðum ráðum, auk pottaráðsins frá vini sínum Tryggva.

„Jamie Oliver segir að það sé lykilatriði að láta kalkúninn hvíla í tvo klukkutíma eftir eldun og Gordon Ramsay hefur látið kalkúninn hvíla í þrjá klukkutíma. Þá er hægt að nýta tímann í að gera sósu og setja meðlætið inn í ofn. Maður á alls ekkert að stressa sig á því þar sem kalkúnninn getur vel beðið,“ segir Freyr. Hann er hins vegar ekki alveg búinn að ákveða hvernig fyllingu hann ætlar að gera og getur ekki ákveðið sig hvort hann troði smjöri undir skinn fuglsins eður ei.

„Ég skaut þessu að Júlíu, hvort við ættum ekki að hafa kalkún um jólinn. Henni leist vel á það en þá áttaði ég mig á því að ég hefði aldrei eldað kalkún. Júlía er með mikið langlundargeð, sem er gott, því nú er það fyrsta sem ég spyr á morgnana hvernig fyllingu við eigum að hafa og það síðasta sem ég spyr um áður en ég fer að sofa hvort ég eigi að setja smjör undir skinnið.“

Brenndi hreindýrið og missti salatið í gólfið

Ástæða jólastress fréttamannsins er einföld.

Júlía og Freyr á góðri stundu.

„Ég vill hafa allt fullkomið á jólunum,“ segir hann og brosir. „En svo er svolítið merkilegt að það kemur kvíði fyrir jólin en þegar kemur að Þorláksmessu og aðfangadag færist einhver kyrrð yfir mig. Þá er ég búinn að versla jólagjafir, skreyta jólatréð og kaupa það sem þarf. Þá er ekkert eftir nema að taka því sem að höndum ber. Þá reyni ég að vera svolítið slakur því stressað foreldri á jólum er afskaplega leiðinlegt foreldri en þetta á að vera skemmtilegt. Jólin eru skemmtileg.“

En hefur Freyr einhvern tímann klúðrað jólamatnum?

„Já, ég hef klúðrað. Ég hef skaðbrennt hreindýrahrygg þannig að við urðum að búa til hreindýrakássu. Það var alveg hræðilegt. Ég missti líka Waldorf-salatið í gólfið. Ég held að ég hafi ekki eldað næstu jól eftir það,“ segir hann og hlær, tilbúinn að bjóða jólin velkomin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa