fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Lovísa Lára er kvikmyndaleikstjóri

„Kvikmyndabransinn er ansi mikið eftir á þegar kemur að jafnrétti kynjanna“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 4. september 2016 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér datt aldrei í hug að ég gæti orðið kvikmyndaleikstjóri. Þeir voru allir eldri karlar með grátt hár,“ segir Lovísa Lára Halldórsdóttir. Það vill samt svo til að þegar hún var komin áleiðis í námi í Kvikmyndaskóla Íslands áttaði sig hún á því að hún gæti svo sannarlega orðið kvikmyndaleikstjóri, þrátt fyrir skort á fyrirmyndum.

„Ég hafði alltaf áhuga á skrifum og kvikmyndum og fór í Kvikmyndaskólann til að verða handritahöfundur. Þar rann upp fyrir mér ljós – að sjálfsögðu gat ég orðið kvikmyndaleikstjóri. Ég hafði áður unnið við stjórnunarstörf og leikstjórn snýst einmitt um það – að hafa yfirsýn, sjá til þess að allir séu að gera sitt, og fá það besta fram hjá fólki. Þetta er frábær vinna fyrir skapandi unga konu, en kvikmyndabransinn er ansi mikið eftir á þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Það fer þó vonandi að breytast,“ segir Lovísa Lára í samtali við blaðakonu DV.

Stilla úr stuttmyndinni *Það er margt sem myrkrið veit* sem var eitt verkefna Lovísu  í Kvikmyndaskólanum. Myndin vann fyrstu verðlaun á Gullmolanum, stuttmyndahátíð Kópavogs, í fyrra.
Hrollvekjandi myrkur Stilla úr stuttmyndinni *Það er margt sem myrkrið veit* sem var eitt verkefna Lovísu í Kvikmyndaskólanum. Myndin vann fyrstu verðlaun á Gullmolanum, stuttmyndahátíð Kópavogs, í fyrra.

Verðlaun á hátíðum

Lovísa útskrifaðist af handrita- og leikstjórnarbraut Kvikmyndaskólans árið 2014 en lokaverkefni hennar var stuttmyndin Smástirni. Hana má nálgast á Youtube, og sömuleiðis hrollvekjuna Hrellir, sem frumsýnd var í maí í fyrra. „Mig langaði að prófa að gera hrollvekju og við tókum myndina upp á tveimur dögum. Hún hefur núna verið send um allan heim á hátíðir og vann til dæmis verðlaun á International open film festival og var tilnefnd sem besta hrollvekjan á Winter film festival.“

Ágústa Eva Erlendsdóttir lék aðalhlutverkið. Myndina má nálgast á Youtube.
Úr Hrelli Ágústa Eva Erlendsdóttir lék aðalhlutverkið. Myndina má nálgast á Youtube.

Lovísa segist vera mjög gagnrýnin á eigin verk og að það sé eiginlega ekki fyrr en myndirnar koma fyrir augu áhorfenda að hún geri sér almennilega grein fyrir útkomunni. „Ég hef unnið allar mínar myndir með sömu kvikmyndatökukonunni og hún klippir þær líka með mér. Ég fékk verðlaun fyrir útskriftarmyndina mína, en var alls ekki viss þegar Hrellir fór frá mér en það kom í ljós að fólk kunni að meta hana. Ég er svo gagnrýnin á allt sem ég geri og á það til að einblína á gallana og finnast allt afskaplegalega hallærislegt. Það er kannski ekki fyrr en ári eftir frumsýningu að ég verð ánægð og fer virkilega að sjá kostina. Baklandið í Kvikmyndaskólanum er gott og ég nota mér óspart að fá yfirlestur og áhorf hjá góðu fólki þar.

Fyrst ætlaði Lovísa að verða handritahöfundur – svo áttaði hún sig á að hún gæti orðið leikstjóri líka.
Handrit Fyrst ætlaði Lovísa að verða handritahöfundur – svo áttaði hún sig á að hún gæti orðið leikstjóri líka.

Sumir helst til hjálpsamir

En hvernig skyldi bransinn hafa tekið henni – ungri konu í kvikmyndaleikstjórn? „Flestir eru mjög jákvæðir og eru kannski að vanda sig alveg sérstaklega og detta mögulega í einhvern óþarfa stuðning. Ég hef líka tekið eftir því að stundum þegar ég er að leikstýra á setti eiga sumir til að skipta sér af hlutum sem þeir halda að ég ráði ekki við vegna kyns míns og aldurs.“

Reynsla Lovísu af stjórnunarstörfum kemur sér vel í hlutverki leikstjórans.
Tökur á Hrelli Reynsla Lovísu af stjórnunarstörfum kemur sér vel í hlutverki leikstjórans.

Nýlega sendi Lovísa tvær stuttmyndir frá sér á hátíðarúnt um heiminn, og á dögunum lauk hún tökum á fyrstu mynd sinni í fullri lengd. Myndin heitir Týndu stelpurnar og byggist að hluta til á sönnum atburðum. „Ég var búin að vinna að handritinu í þrjú ár, en fyrst um sinn datt mér ekki í hug að leikstýra henni sjálf. Bróðir minn var líka í Kvikmyndaskólanum og þegar hann kom til mín með svipaða hugmynd varð þetta allt skýrara í kollinum á mér og ég fékk kjark til að fara alla leið með ákveðin þemu sem ég hafði verið að gæla við.“

Unglingsstelpur rannsaka morð

Myndin segir frá tveimur 14 ára stelpum, sem eiga ólíkan bakgrunn og búa við ólíkar aðstæður, en eiga það sameiginlegt að vilja sleppa frá heimilum sínum. „Handritið byggist að hluta á persónulegri reynslu og reynslu vinkvenna minna. Stelpurnar eru dálítið ímyndunarveikar og halda að þær verði vitni að morði. Þær byrja að rannsaka það upp á eigin spýtur og flækjast þar með inn í atburðarás sem þær ráða engan veginn við.“

Aðalleikkonurnar í fyrstu bíómynd Lovísu í fullri lengd. Kvikmyndin *Týndu stelpurnar* verður frumsýnd á næsta ári. Kolfinna og Sonja Rut eru ekki bara bestu vinkonur í myndinni, heldur líka í lífinu.
Vinkonur sem vinkonur Aðalleikkonurnar í fyrstu bíómynd Lovísu í fullri lengd. Kvikmyndin *Týndu stelpurnar* verður frumsýnd á næsta ári. Kolfinna og Sonja Rut eru ekki bara bestu vinkonur í myndinni, heldur líka í lífinu.
Stelpurnar lenda í ýmsum ævintýrum í myndinni.
Á setti Stelpurnar lenda í ýmsum ævintýrum í myndinni.
Stilla úr myndinni.
Týndu stelpurnar Stilla úr myndinni.

Myndin var að mestu leyti fjármögnuð af Lovísu. „Það er mjög erfitt að fá styrki frá Kvikmyndasjóði ef maður hefur ekki helling af verkum á ferilskránni. Mig langaði að drífa í því að gera þessa mynd og umsóknarferli hefði tafið það óskaplega og líklega ekki skilað neinu. Þess vegna var lendingin sú að leggjast í miklar reddingar og fjármagna myndina sjálf ásamt því að þiggja styrki frá nokkrum fyrirtækjum. Við fengum til dæmis fría notkun á öllum tækjabúnaði og frían mat á setti fyrir þá sem unnu að myndinni.“ Með þessu móti náðu Lovísa og samstarfsfólk hennar að ljúka tökum á myndinni fyrir lítinn pening.

Aðalleikkonurnar í myndinni hafa ekki sést á hvíta tjaldinu áður. „Ég tók mér góðan tíma í að leita að þeim og eitt af því sem ég gerði var að fylgja alls konar stelpum sem auglýstu Snapchat-aðganginn sinn í Beauty tips-hópnum á Facebook. Það reyndist gjöfult því að ég fann aðra þeirra þar. Hina fann ég svo eftir öðrum leiðum. Það fyndna var að stelpurnar tvær, Kolfinna og Sonja Rut, reyndust bestu vinkonur í alvöru og fengu svo að leika bestu vinkonur í myndinni um týndu stelpurnar.“

Lovísa tók sér tíma til að leita að réttu leikkonunum.
Ungar og efnilegar Lovísa tók sér tíma til að leita að réttu leikkonunum.

Klippingar á Týndu stelpunum standa yfir en Lovísa vonast til að hún verði frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum snemma á næsta ári. „Jafnvel fyrr ef okkur gengur vel!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“