Breskri konu hafa verið dæmdar rúmlega 5,4 milljónir í bætur eftir að hún var kölluð Darth Vader fyrir framan samstarfsfélaga sína. Darth Vader, eða Svarthöfði, er illmennið í Stjörnustríðs-kvikmyndunum.
Úrskurðarnefnd í atvinnumálum í Croydon, í suðurhluta London, tók málið fyrir. Þar kom fram að í ágúst árið 2021 hafi vinnustaður konunnar, Lorna Rooke, verið með hópefli þar sem starfsmenn tóku Stjörnustríðs-persónuleikapróf. Rooke missti af prófinu því hún hafði brugðið sér út til að taka við símtali. Þegar hún sneri aftur hafði kollegi hennar fyllt út prófið fyrir hennar hönd og tilkynnt öllum á staðnum að Rooke væri með persónuleika Darth Vader.
Persónuleikaprófinu var ætlað að vera létt og skemmtilegt. Þeir sem fengu Darth Vader áttu að vera ákveðnir einstaklingar sem eiga auðvelt með að þjappa saman teymi. Rooke tók þessu þó ekki vel, enda Darth Vader illmennið í kvikmyndunum og gjarnan kallaður tilfinningalaus geimfasisti.
„Darth Vader er fræga illmennið Stjörnustríðsmyndanna og það er móðgandi að vera tengdur við slíka persónu,“ sagði dómarinn í úrskurðarnefndinni og bætti við að það hafi svo bætt gráu ofan á svart að öllum á vinnustaðnum var tilkynnt um þessa niðurstöðu. Það sé því engin furða að Rooke hafi komist í uppnám. Rooke greindi frá því fyrir nefndinni að eftir atvikið hafi hún upplifað sig óvinsæla á vinnustaðnum sem hafi valdið henni aukinni streitu og kvíða. Hún hafi svo sagt starfi sínu lausu mánuðum eftir hópeflið.
Dómarinn tók eins fram að þar sem Rooke hafi ekki tekið prófið sjálf, heldur kollegi svarað því fyrir hennar hönd, þá endurspeglaði niðurstaðan hvaða augum samstarfsfélagarnir litu hana. Rooke starfaði í blóðbanka en blóðbankinn hefur nú gefið út yfirlýsingu vegna málsins og segist sætta sig við þessa niðurstöðu og framvegis verði lögð áhersla á gott vinnuumhverfi fyrir alla.