Oliver gekk á milli lækna þar sem hann ýmislegt benti til þess að hann væri ekki alveg heill heilsu. Allt byrjaði þetta með óútskýrðu suði í eyrunum, svo bættist við of hár blóðþrýstingur, mikil þreyta og svo vöðvakrampar.
Þrátt fyrir ítrekaðar læknisheimsóknir fékk hann fá sem engin svör og töldu einhverjir læknar að einkennin sem hann lýsti kæmu heim og saman við einkenni kvíða.
Það var ekki fyrr en Oliver skrifaði öll einkennin inn í gervigreindarlíkan sem hjólin fóru að snúast. „Hún gaf mér svarið sem læknar höfðu ekki fundið,“ segir hann en í ljós kom að hann þjáðist af Lyme-sjúkdómnum.
Tekið skal skýrt fram að læknasamtök vara sterklega við því að nota gervigreind í þeim tilgangi að greina sjúkdóma. Oliver segir aftur á móti að hann hafi upplifað það þannig að hann hefði engu að tapa.
Oliver starfar hjá Microsoft og notar gervigreindina daglega í vinnu sinni. Hann sló öll einkennin inn og bað líkanið aðeins um að skoða viðurkenndar læknaupplýsingar. „Ég sagði henni ekki að mig grunaði Lyme-sjúkdóminn. Hún sagði mér það sjálf,“ segir hann.
Eftir að hafa fengið niðurstöðuna úr gervigreindarlíkaninu pantaði hann sér tíma hjá einkalækni þar sem hann var sendur í blóðprufu. Niðurstaðan úr henni sýndi að hann var með Lyme.
Hann hefur nú hafið meðferð og segir hann að nokkur af einkennum sjúkdómsins hafi dofnað, þar á meðal eyrnasuðið.
Oliver segist vera vonsvikinn með heilbrigðiskerfið að læknum hafi ekki tekist að bera kennsl á sjúkdóminn. Heilbrigðisyfirvöld segjast harma það að Oliver hafi ekki fengið fullnægjandi þjónustu og segja að Lyme sé flókinn sjúkdómur. Engu að síður eigi læknar að hafa fengið þjálfun í að bera kennsl á hann.
Oliver telur að kötturinn hans hafi borið með sér skógarmítil úr skóginum nálægt heimili hans í Whiteley á Englandi. Mítillinn beit hann og í kjölfarið byrjuðu einkennin að gera vart við sig.
Lyme-sjúkdómur (e. lyme disease) er smitsjúkdómur í mönnum af völdum bakteríunnar Borrelia burgdorferi. Bakterían berst í menn eftir bit sýkts skógarmítils þegar hann nærist á blóði. Því fyrr sem sjúkdómur greinist því auðveldara er að meðhöndla hann. Á vef Heilsuveru kemur fram að útbreidd sýking verði þegar bakterían dreifir sér um líkamann og sest að í húð, miðtaugakerfi, hjarta eða liðum.