Maðurinn sem er ákærður í málinu heitir Dominique P. og er hann á eftirlaunaaldri eins og eiginkona hans, fórnarlambið í málinu.
Samkvæmt ákæru var konunni nauðgað 92 sinnum af 72 karlmönnum á árunum 2011 til 2020, en lögreglu hefur aðeins tekist að bera kennsl á 51 þeirra. Allir eru þeir ákærðir í málinu ásamt Dominique.
Lögmaður konunnar, Antoine Camus, segir að réttarhöldin muni taka verulega á tilfinningalíf hennar, ekki síst í ljósi þess að hún mun sjálf bera vitni.
Tekið er fram í fréttum breskra fjölmiðla að konan hefði getað farið fram á það að réttarhöldin færu fram á bak við luktar dyr. Hún hafi hins vegar ekki gert það því þá væri hún að gera gerendunum greiða. Réttarhöldin fara fram í borginni Avignon í suðausturhluta Frakklands.
Dominique er sagður hafa komist í kynni við mennina í spjallhópi á netinu. Var hann sagður hafa boðið mönnunum heim til sín í Mazan, skammt frá Avignon, þar sem þeir nauðguðu konunni hans og tóku það upp á myndband. Mennirnir sem tóku þátt í ódæðunum voru á aldrinum 25 til 72 ára þegar brotin voru framin.
Dominque er sagður hafa laumað lyfi sem innihélt virka efnið Lórazepam í kvöldmatinn hennar með þeim afleiðingum að hún sofnaði djúpum svefni. Um er að ræða efni sem hefur róandi og svæfandi áhrif sé það tekið í miklu magni.
Lögregla komst á snoðir um málið árið 2020 þegar Dominique var gómaður af öryggisverði þar sem hann virtist vera að taka myndir undir pils kvenna í verslunarmiðstöð. Lögregla var kölluð til og fundust í fórum hans myndir og myndbönd af hinum svívirðilegu brotum.