fbpx
Föstudagur 26.júlí 2024
Pressan

Virtur jógaskóli eða sértrúarsöfnuður sem gerir út vændi? – Ásakanir um heilaþvott, peningaþvætti og þjónustu við áhrifamikla einstaklinga

Pressan
Mánudaginn 10. júní 2024 21:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Juan Percowicz var endurskoðandi sem átti sér óvenjulegt áhugamál. Þegar hann var ekki í dagvinnunni ferðaðist hann um Buenos Aires og hélt sjálfshjálparnámskeið sem byggðu á nýaldar spíritisma og fornaldar heimspeki. Hann sló í gegn á tíunda áratugum og eins og slíkum vinsældum fylgir gjarnan, þá voru aðdáendur hans tilbúnir að draga fram veskin og styrkja starf hans. Með framlögum sem hann fékk byggði hann upp samtök sem hann kallaði Jógaskólann í Buenos Aires, eða BAYS. Skólinn er í dag sakaður um að vera í raun sértrúarsöfnuður sem byggir á kynlífi og afli sér tekna með því að þvinga meðlimi út í vændi. 

New York Times greinir frá því að rúmlega tugur meðlima BAYS hefur nú verið ákærður fyrir glæpastarfsemi. Ákæruvaldið heldur því fram að skólinn hafi hreint ekki snúist um jóga heldu hafi hér beinlínis verið um kynlífs sértrúarsöfnuð að ræða. Konur sem gengu í skólann hafi verið þvingaðar út í vændi og ávinningurinn falinn með peningaþvætti í gegnum fasteignabrask. Ákæruvaldið segir að þessi sértrúarsöfnuður hafi misnotað konur og jafnvel gengið svo langt að láta konurnar taka inn lyf svo það væri auðveldara að stjórna þeim. Starfsemin hafi farið fram bæði í Argentínu og í Bandaríkjunum og skilað hundruð milljóna í sjóði BAYS.

„Sértrúarsöfnuðir þrífast hér, en við höfum aldrei séð neitt á borð við þetta áður,“ sagði Ricardo Juri, rannsóknarlögreglumaðurinn sem fór fyrir aðgerðum gegn BAYS árið 2022.

Segja konurnar heilaþvegnar

Málið hefur vakið mikinn óhug í Argentínu sérstaklega þar sem fyrst var varað við BAYS á tíunda áratug síðustu aldar. Þá steig fjölskylda fram og sakaði samtökin um að hafa heilaþvegið dóttur þeirra. Lögregla tók málið til rannsóknar og ræddi við fyrrum meðlimi sem sögðust hafa verið þvingaðir í þrælavinnu og að þessi meinti skóli væri hlynntur vændi. Málið dagaði þó uppi hjá dómstólum. Ekki var búið að setja lög gegn vændi eða peningaþvætti og voru hendur dómstóla því bundnar.

En nú er staðan önnur svo árið 2022 var gert áhlaup á höfuðstöðvar BAYS þar sem lögregla lagði hald á um 140 milljónir í seðlum, gullstangir, gífurlegt magn af klámi, ávísanahefti frá bandarískum bönkum og fullt af skjölum sem varða auðuga og valdamikla einstaklinga, þar með talið auðmenn í Bandaríkjunum.

Ákæruvaldið nefnir sjö konur sem þolendur í málinu. Þeir eru sagðar eiga það sameiginlegt að foreldrar þeirra allra hafi komið þeim inn í starf BAYS. Konurnar voru ýmist ólögráða á þeim tíma eða rétt orðnar sjálfráða og allar voru þær þvingaðar út í vændi. Það hefur þó gengið illa að fá konurnar til að aðstoða við rannsóknina þar sem þær neita allar að hafa stundað kynlíf í skiptum fyrir endurgjald og segja að ekki hafi verið brotið á þeim.

Percowicz og núverandi meðlimir BAYS neita allir sök og halda því fram að enginn hafi verið neyddur í nokkuð.

„Hér er um að ræða mansalsmál án þolenda mansals,“ sagði lögmaður Percowicz og fimm annarra meðlima BAYS. „Engin kynferðisleg misnotkun hefur verið sönnuð.“

Vændi er í raun ekki ólöglegt í Argentínu en það er þó ólöglegt að auglýsa vændi eða að notfæra sér vændi með blekkingum, misneytingu eða ógnunum. Ákæruvaldið segist ætla að sanna að þolendur BAYS sjái sig ekki sem þolendur þar sem þær hafa verið heilaþvegnar árum saman.

Þá var ég að vondu norninni

New York Times ræddu við fyrrum meðlim BAYS. Caterina Sanfelice var hársnyrtir á fimmtugsaldri þegar vinkona hennar bauð henni á fyrirlestur hjá samtökunum árið 1993.

„Þetta var eins og fara á fínt kaffihús með reyndum ræðumanni,“ sagði hún. Hún sagði að Percowicz hafi talað um að finna innri styrk. Hann hafi svo lokkað fólk til að mæta á næsta fyrirlestur með því að ljúka máli sínu á að hann myndi þá gefa fólki svörin sem það leitaði að. Caterina segir að Percowicz hafi talið sjálfan sig í guðatölu. Dyggustu fylgjendur hans hafi kallað hann meistara eða engil.

Hún mætti með eiginmann sinn í partý á vegum BAYS og þar hafi tvær konur reynt að fá mann hennar til lags við sig á meðan aðrir gestir afklæddust til að undirbúa sig fyrir hópkynlíf. Caterina fékk þá nóg og hljóp út. Maður hennar var þó ekki tilbúinn að segja skilið við BAYS. Hann sagði samtökin sjá það sem Caterina sá ekki – hversu frábær hann væri. Samtökin hafi blásið upp sjálfstraust hans og hann farinn að líta stórt á sig.

„Og ég varð þá að vondu norninni“

Maður hennar fór frá henni og hélt áfram að fylgja BAYS. Caterina reyndi að vekja athygli á því að pottur væri brotinn há þessum meinta jógaskóla en enginn hlustaði.

Martín Sommariva segir systur sína, Maria Valeria Llamas, hafa sogast inn í samtökin eftir að hún mætti á fyrirlestur árið 1990. Hún var á þeim tíma að ganga í gegnum erfiðleika, var atvinnulaus og blönk. Fyrst hafi fjölskyldan litið á það sem jákvætt að Maria væri búin að finna sér áhugamál og eitthvað sem hún brann fyrir. En næstu árin fóru áhyggjur að vakna. Maria hætti með kærastanum sínum, hætti að tala við vini sína og hætti að hitta fjölskyldu.

Fjölskyldan reyndi að ná til hennar eftir að þau fréttu að hún hefði verið send í ólöglegt þungungarrof á vegum BAYS. Maria lét sér ekki segjast. Hún sagði Percowicz vera ódauðlegan engil og sá hún ekki sólina fyrir honum. Tveimur dögum eftir þetta samtal mættu tveir fulltrúar BAYS heim til fjölskyldunnar ásamt lögreglu  og sögðust ætla að kæra þau fyrir frelsissviptingu.

„Lífi okkar var snúið á haus,“ sagði móðir Mariu. Þau vissu ekki sitt rjúkandi ráð og ekki nóg með það heldur hafði Maria líka ranglega sakað stjúpföður sinn um kynferðisbrot.

Frægur óperusöngvari heyrðist kaupa vændi

Eins og áður segir þá dagaði málið uppi á þessum tíma en dómarinn sem fékk málið á borð til sín gafst upp eftir þrýsting og hótanir frá mannréttindasamtökum, hæstarétti og jafnvel þinginu í Argentínu sjálfu. Hann upplifði stöðugt áreiti bæði í starfi og í einkalífinu og að lokum fékk hann nóg.

Það var svo árið 2021 sem deild lögreglu sem rannsakar mansal fékk heimild til að hlera síma Percowicz. Sú vinna hafi sýnt skýrt að hann væri að reka vændisstarfsemi. Segir í gögnum máls að meðal þeirra sem ræddu við Percowicz hafi verið óperusöngvarinn frægi, Plácido Domingo, sem ítrekaður hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni. Hann hafi í símtali rætt við BAYS um að hann vildi fá konu senda á hótelið til sín í laumi.

Ákæruvaldið telur sig hafa sterkt máli í höndunum þó svo að meintir þolendur kannist ekki við að á þeim hafi verið brotið. Málið er sem stendur rekið fyrir dómstólum í Argentínu en meintir vændiskaupendur hafa sem stendur ekki verið sóttir til saka. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur neitað að tjá sig við fjölmiðla um tengsl bandarískra þingmanna og borgara við málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 1 viku

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart

Átti erfitt með þvaglát – Ástæðan kom læknum gríðarlega á óvart
Pressan
Fyrir 1 viku

Ung stjarna var ekki öll þar sem hún var séð

Ung stjarna var ekki öll þar sem hún var séð