Hann játaði að hafa ráðist á samnemendur sína og kennarann en bar því við að hann hafi gengið í svefni þegar þetta gerðist og hafi því ekki haft neina stjórn á því sem gerðist.
Metro segir að þegar þetta gerðist í júní á síðasta ári hafi pilturinn verið vopnaður þremur hömrum og hafi beðið eftir að hinir piltarnir sofnuðu. Þegar þeir voru sofnaðir réðst hann á þá en þá var klukkan um klukkan eitt að nóttu.
Kennari, sem svaf ekki fjarri vistarverum piltanna, vaknaði við lætin og fór til að kanna málið. Þegar hann kom inn í svefnherbergið sá hann skuggaveru standa þar. Sú sneri sér strax að honum lamdi hann í höfuðið með hamri.
Þriðji nemandinn heyrði kennarann öskra og hringdi í neyðarlínuna.
Komið var að piltunum stórslösuðum í rúmum sínum nokkrum mínútum síðar. Þeir voru höfuðkúpubrotnir, rifbeinsbrotnir, með gat á lunga og innvortis blæðingar.
Fyrir dómi kom fram að þeir glími við langtíma afleiðingar af árásinni og muni ekkert eftir henni.
Kennarinn var laminn sex sinnum í höfuðið með hamri.
Fyrir dómi kom fram að pilturinn hafi verið heltekinn af hömrum sem vopnum og morðum.
Árásarmaðurinn bar því við að hann hefði gengið í svefni og væri því ekki sekur um morðtilraunir því hann hafi verið geðveikur þegar hann réðst á samnemendur sína og kennarann.
Kviðdómur keypti þessa skýringu hans ekki og sakfelldi hann fyrir þrjár morðtilraunir. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi.