Í dag hefur þess verið minnst að 80 ár eru liðin frá innrás bandamanna í Normandí á norðurströnd Frakklands, sem þá var hernumið af Þýskalandi, 6. júní 1944. Fjölmiðlar víða um heim hafa rifjað innrásina upp og þeirra sem tóku þátt í henni hefur verið minnst. Enn eru menn á lífi sem tóku þátt og hafa sumir þeirra verið viðstaddir minningarathafnir sem fram fóru í Normandí í dag. Innrásin í Normandí hefur skipað stóran sess í sögunni. Sumir áhugamenn um sögu hafa talið innrásina hafa átt einna mestan þátt í því að Þýskaland nasismans beið á endanum ósigur í síðari heimsstyrjöldinni. Þó eru einhverjir sem andmæla þessu en meðal þeirra er Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og sósíalistaleiðtogi, sem segir mikilvægi innrásarinnar ofmetið.
Gunnar Smári skrifar á Facebook síðu sinni:
„Af hverju er verið að halda því fram að innrásin í Normandí hafi verið fyrsta skrefið í sigri bandamanna á Þýskalandi nasismans? Fyrstu mörg hundruð skrefin í þeim sigri voru stigin af sovéska hernum. Í raun var Rauði herinn svo til búinn að sigra þýska herinn þegar innrás Vesturveldanna hófst. Ég veit að Rússar eru ekki vinsælir í dag, en það er takmörk fyrir hverju má ljúga að sjálfum sér.“
Illugi Jökulsson, sem mikið hefur skrifað um söguleg efni í bækur og blöð ásamt því að fjalla um slík efni í útvarpsþáttum, tekur undir með Gunnari Smára í athugasemd við færsluna. Illugi leggur þó áherslu á að samt sem áður verði innrásin í Normandí að teljast stór atburður í sögunni:
„Er nokkur að halda því fram? Það gerir að minnsta kosti enginn sem hefur raunverulega þekkingu á sögu heimsstyrjaldarinnar. Þjóðverjar töpuðu í raun stríðinu 22. júní 1941. Innrásin í Normandý er jafn sögulegur atburður fyrir því.“
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur tekur einnig til máls í athugasemd og minnir Gunnar Smára á að Sovétríkin hafi fengið talsverða aðstoð frá Bandaríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni:
„Á árunum 1941 til 1945 sendu Bandaríkjamenn vopn og aðrar vistir til Sovétríkjanna að andvirði 11,3 milljarða dollara sem samsvarar yfir 180 milljörðum dollara ef það er reiknað til gengis í dag. Þetta var auðvitað ómetanleg aðstoð í baráttu Sovétmanna gegn innrásarher Hitlers. En líklega er þessarar aðstoðar lítið getið ef nokkuð í sögutúlkun Rússa á stríðinu.“
Fleiri taka undir með Gunnari Smára í athugasemdum og segja meðal annars sýn Íslendinga á innrásina litaða um of bandarískri söguskoðun.
Þórhallur Heimisson prestur ræddi um innrásina í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann stendur fyrir hópferð á söguslóðirnar í Normandí síðar á þessu ári. Hann rifjaði upp í samtalinu bók sína Ragnarök, sem kom út fyrir áratug, þar sem hann tók fyrir þær tíu orrustur sem hann telur skipa stærstan sess í sögunni og segir þær allar hafa breytt sögu heimsins. Ein af þessum er innrásin í Normandí.
Ekki verður skorið endanlega úr um mikilvægi innrásarinnar í Normandí hér en hún er enn eitt dæmið um að sagan er endalaus uppspretta líflegra og áhugaverðra umræðna.