Dýr úr þessum tígrisdýrastofni, hinum svokallaða Jövu-stofni, hafa ekki sést síðan á níunda áratug liðinnar aldar og var stofninn úrskurðaður útdauður árið 2008.
Á undanförnum árum hefur verið orðrómur um að sést hafi til dýranna á Jövu, sem er fjölmennasta eyja heims, og hefur fólk gefið sig fram sem telur sig hafa séð til dýranna.
Þetta virðist vera á rökum reist því íbúar í þorpi á vesturhluta Jövu náðu hári úr einu dýri þegar það stökk yfir girðingu árið 2019. Hárið var sent í DNA-rannsókn og borið saman við hár úr Jövu-tígrisdýri frá fjórða áratug liðinnar aldar.
Í nýrri vísindagrein sem birtist í Cambridge University Press kemur fram að hárið frá 2019 sé úr skepnu sem er að minnsta kosti mjög nátengd Jövu-tígrinum sem veiddur var á síðustu öld. Er það mat vísindamanna að erfðafræðilegur munur skepnanna tveggja sé aðeins 0,3%.
Þykir þetta gefa til kynna að stofninn sé enn á lífi en enn í mikilli útrýmingarhættu.