fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Hallarbylting Áslaugar Örnu mistókst – Guðlaugur Þór styrkir stöðu sína

Eyjan
Þriðjudaginn 7. maí 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sem kunnugt er hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, haft tögl og hagldir í flokkskerfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um árabil. Hann er talinn búa yfir öflugustu kosningavél flokksins, og þótt víðar væri leitað, og þrátt fyrir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafi notið eindregins stuðnings forystu flokksins hefur hún ítrekað mátt lúta í lægra haldi fyrir Guðlaugi í prófkjörum sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Orðið á götunni er að nú virðist vera farinn að grípa um sig skjálfti í herbúðum Áslaugar Örnu sem ítrekað hefur reynt án árangurs að leggja undir sig hin ýmsu Reykjavíkurfélög Sjálfstæðisflokksins til þess að styrkja stöðu sína. Það gerir hún í því skyni að tryggja sér sem flest landsfundarsæti, en félögin eiga hvert um sig tiltekinn fjölda sæta á landsfundi og er heildarfjöldi landsfundarsæta í Reykjavík um fimm hundruð. Eftir miklu er því að slægjast fyrir þá sem líta hýru auga til formannssætisins, sem margir búast við að geti losnað fyrr en varir.

Orðið á götunni er að í gær hafi Áslaug Arna og helstu stuðningsmenn hennar reynt að gera hallarbyltingu á aðalfundi Félags sjálfstæðismanna í Árbænum. Fór það öðruvísi en lagt var upp með og fór Áslaug Arna sneypuför á þessar æskuslóðir sínar, en hennar kandídatar hlutu aðeins 23 prósent atkvæða á meðan sitjandi stjórn, sem talin er handgengin Guðlaugi Þór, styrkti sig í sessi með yfir 76 prósent atkvæða.

Orðið á götunni er að öllu hafi þó verið til tjaldað af hálfu Áslaugar og flokksforystunnar. Á fundinn mættu bæði Sirrý Hallgrímsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar í menntamálaráðuneytinu, og Friðjón R. Friðjónsson, kosningasmali Katrínar Jakobsdóttur. Hvorugt þeirra er búsett í Árbænum og erindi því vart annað enn að hafa sjálfskipað eftirlit með fundinum. Athygli vakti að Friðjón sat fundinn til enda þrátt fyrir annir við að reyna að tryggja Katrínu Jakobsdóttur kosningu í embætti forseta Íslands.

Fyrir skömmu var tekist á um formennsku í Samtökum eldri sjálfstæðismanna. Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi ráðherra, sem naut eindregins  stuðnings Bjarna Benediktssonar og Áslaugar Örnu, ásældist formennskuna sem og Bessí Jóhannsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður, sem talin er handgengin Guðlaugi Þór. Skemmst er frá því að segja að Bessí er nýr formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna. Orðið á götunni er að ítrekaðar tilraunir Áslaugar Örnu til hallarbyltinga í hinum ýmsu Reykjavíkurfélögum flokksins að undanförnu hafi snúist í höndunum á henni og fremur styrkt stöðu Guðlaugs Þórs en veikt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum

Svarthöfði skrifar: Ríkismiðlarnir snúa saman bökum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Málskotsrétturinn var virkur þegar Vigdís íhugaði að skrifa ekki undir EES

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Baldur Þórhallsson – Málskotsrétturinn var virkur þegar Vigdís íhugaði að skrifa ekki undir EES
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Umsækjandi um varaseðlabankastjórastöðu fékk tugmilljóna félag frá lögmanni sem rukkar bankann um hundruð milljóna

Umsækjandi um varaseðlabankastjórastöðu fékk tugmilljóna félag frá lögmanni sem rukkar bankann um hundruð milljóna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Mögnum tækifærin á hverjum stað og stækkum tækifæri okkar allra

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Hrund – Mögnum tækifærin á hverjum stað og stækkum tækifæri okkar allra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Þingið afber varla þessa ríkisstjórn

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Þingið afber varla þessa ríkisstjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hlýða Víði í kjörklefanum? – „Maður bara trúir því ekki að nú eigi að misnota Covid og hetjur þess til að auka fylgið“

Hlýða Víði í kjörklefanum? – „Maður bara trúir því ekki að nú eigi að misnota Covid og hetjur þess til að auka fylgið“