Skjaldbökur af þessari tegund eiga sín náttúrulegu heimkynni í ám og fenjum í Flórída. Skel þeirra er eins og brynja og líkjast þær einna helst forsögulegum risaeðlum að sögn Sky News.
Nokkrum sinnum hafði sést til Fluffy, sem er ferskvatnsskjaldbaka, við Urswick Tarn. Það var síðan bæjarfulltrúinn Denise Chamberlain sem fangaði hana og setti í innkaupakörfu og fór með til dýralæknisins Dom Moule.
Í samtali við Sky News sagðist hann hafa orðið mjög hissa þegar komið var með skjaldbökuna og það hafi komið honum mjög á óvart þegar hann áttaði sig á hverrar tegundar hún er.
Hann sagði að líklega hafi einhver losað sig við hana eftir að hafa áttað sig á hversu erfitt það er að annast hana.
Moule og samstarfsfólki hans hefur ekki tekist að ganga úr skugga um hvors kyns skjaldbakan er en það kom ekki í veg fyrir að hún fengi nafnið Fluffy.
Ákveðið hefur verið að Fluffy verði komið fyrir í dýragarði í Cornwall.