fbpx
Laugardagur 15.júní 2024
Fókus

Fertugsafmælisferð Guðbjargar breyttist í martröð: Kom að kærastanum með annarri konu sem réðst á hana – „Síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 16. maí 2024 12:30

Guðbjörg Ýr Valkyrja Guðbjargardóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðbjörg Ýr Valkyrja Guðbjargardóttir á langa áfallasögu að baki. Hún varð fyrir tengslarofi sem barn og litaði það sambönd hennar á fullorðinsárum. Eftir margra ára edrúmennsku byrjaði Guðbjörg með karlmanni sem hún taldi vera besta vin sinn og ástina í lífi sínu. Þegar bera fór á brestum í glæstri ásýndinni sem hann málaði fyrir hana reyndi Guðbjörg að hunsa þá en martröðin var rétt að byrja.

Guðbjörg er félagsliði hjá Landspítalanum og í sjúkraliðanámi. Hún er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.

video
play-sharp-fill

Þú getur einnig hlustað á SpotifyApple Podcasts og hlaðvarpsþjónustu Google.

„Myndir þú vilja lifa þannig?

„Mín neyslusaga byrjar þegar ég var unglingur. Ég er alin upp í alkóhólisma og flutti mjög snemma að heiman sem olli tengslarofi og tengslaröskun. Og þessi tilfinning að finnast maður aldrei tilheyra neinum, hún byrjaði mjög snemma og fylgdi mér alltaf, og fylgir mér enn í dag,“ segir Guðbjörg.

„Ég heyrði einhvern tíma fagmanneskju segja að börn sem verða fyrir tengslaröskun líður eins og þau eigi hvergi heima en það sé allt í lagi því það er hægt að lifa þannig og ég var bara: „Myndir þú vilja lifa þannig?“ Þetta er mjög vond tilfinning.“

Guðbjörg fann sig snemma í félagsskap krakka sem voru á sama stað og hún, týnd að reyna að finna stefnu og tilgang í lífinu. Hún byrjaði að drekka og neyta fíkniefna.

„Svo hætti ég mjög snemma [og varð edrú] og var alveg í lagi í mörg ár,“ segir Guðbjörg.

Kynntist sjarmerandi manni

„Ég átti eitt stutt fall þarna á milli og var svo edrú þangað til árið 2019. Þá kynntist ég manni sem var mjög sjarmerandi, hann var besti vinur minn. […] Hann var aldrei tilbúinn að fara í samband með mér en vildi samt ekki sleppa mér. Ég var ótrúlega brotin [á þessum tíma],“ segir Guðbjörg. Hún kynntist honum stuttu eftir að hafa grennst.

„Ég var 159 kíló þegar ég var sem þyngst og grenntist mjög hratt, um einhver 99 kíló á tíu mánuðum. Og kynntist honum svo í kjölfarið,“ segir hún og bætir við að á þessum tímapunkti hafði hún ekkert unnið í sér andlega.

„Með alla þessa bagga úr fortíðinni. En ég var í góðri stöðu, átti pening og eitthvað svona, kjörið fórnarlamb fyrir svona mann.“

Eftir á litið sér Guðbjörg upphaf sambands þeirra allt öðrum augum. Ef hann svaf hjá annarri konu var hann kominn næsta dag til Guðbjargar með mat og ryksugaði heima hjá henni. „Þetta var lovebombing, það er núna sem ég sé hvað þetta er sjúkt, þessir öfgar.“

Guðbjörg starfar sem félagsliði á Landspítalanum.

Fertugsafmælisferð breyttist í martröð

„Ég bauð honum í ferð til Dalvíkur þegar ég varð fertug. Þarna var ég byrjuð að nota [fíkniefni og áfengi]. Það var líka mín leið til að tengjast honum,“ segir Guðbjörg.

„Ég var búin að vera edrú í mörg ár þegar ég kynntist þessum manni en hann vélaði mig inn í sinn lífsstíl og öll mín siðferðiskennd… Ég gerði allt til að þóknast honum, allt. Öll mín siðferðiskennd var farin.“

Það sem átti að vera skemmtileg afmælisferð breyttist í martröð. „Ég kom að honum með annarri konu. Mig var farið að gruna að það væri ekki allt með felldu og kom að þeim og bað þau um að hætta. Ég hnippti svona í stelpuna og sagði: „Heyrðu, vilt þú ekki fara núna?“ Þau voru í einhverjum heita potti. Hún byrjaði að öskra og bíta mig, hann öskraði á mig að ég væri ógeðslegasta manneskja sem hann hafði kynnst,“ segir Guðbjörg.

„Svo fór honum sjálfum að bregða svolítið [yfir hegðun hennar]. Hún var eins og dýr, beit mig í andlitið, hendurnar og allt. Eina sem ég gerði var að verja mig. Svo náðum við að koma okkur inn í bústað, smáhýsi sem við vorum með, og þar var hann alveg í sjokki. Við drógum fyrir og síðan henti hann mér í rúmið og misnotaði mig kynferðislega og sagði síðan: „Ertu ekki glöð að þú fékkst það sem þú vildir?““

Guðbjörg er gestur vikunnar í Fókus.

Konan var kærð og dæmd

Guðbjörg segir að hún hafi bælt þetta atvik niður. „Ég blokkaði þetta, ég taldi mér trú um að þetta hafi bara verið kynlíf og ég hafi samþykkt það. En daginn eftir hélt hann áfram að vera ógeðslegur við mig og hann sagði að þetta hafi verið mér að kenna, ef ég hefði látið þau vera hefði hann ekki ráðist á mig. Ég þurfti að fara í stífkrampasprautu upp á spítala. Konan var kærð og dæmd fyrir líkamsárásina,“ segir Guðbjörg.

Sjá einnig: Kona sakfelld fyrir líkamsárás í heitum potti

„Hann átti í rauninni líka að vera það. Svo fékk ég fullt af ástæðum fyrir þessu hjá honum. Fyrsta var það að hann hafði loksins náð sér í konu sem honum fannst falleg. Og ég hugsaði: „En ég er falleg.“ Þetta braut mig niður. Enn í dag er ég enn að berjast við það að finnast ég ekki ljót, að vera nóg.“

„Það getur enginn samþykkt svona“

Guðbjörg reyndi að telja sér trú um að þetta hafi verið kynlíf því sannleikurinn var of sársaukafullur. „En það er enginn sem getur samþykkt svona. Ég var í losti. Það var nýbúið að bíta mig út um allt og svo fór hann bara að sofa hjá mér, ég man ég grét megnið af nóttinni,“ segir hún.

Eftir þetta versnaði neyslan, drykkjan og reiðin hjá Guðbjörgu. „Ég skildi aldrei hvað þetta var,“ segir hún. Eins mikið og hún reyndi að grafa niður áfallið þá bankaði það alltaf upp á og reyndi að klóra sig fram.

„Ég var farin að trúa þessu, allt sem hann sagði var satt og rétt. Og þetta versnaði mjög mikið og ég skildi aldrei af hverju ég var svona reið. Og ég meina, ég er ekkert saklaus, þegar við hættum að vera saman þá var ég sendandi honum skilaboð, brjáluð og undir áhrifum: „Hvað var að mér? Af hverju var ég ekki nóg?“ […] Þetta gekk á frá 2019 og þar til haustið 2023. Sundur, saman, sundur, saman. Aldrei mynd af okkur nein staðar en ég bjó með honum í  rúmlega tvö ár, tæp þrjú ár.“

Eins og atriði í kvikmynd

„Síðan gerðist það einn daginn þegar ég kom heim, þetta var eins og kvikmynd. Allt í einu spilaðist fyrir mig áfallið og ég áttaði mig á því að ég hafi ekki verið í neinu ástandi til að samþykkja kynlíf. Það var búið að berja mig, bíta mig, kalla mig ógeðslegustu manneskju í heimi. Ef honum hefði þótt vænt um mig, maðurinn sem sagðist vera besti vinur minn og sagðist elska mig, þú tekur utan um manneskju eftir áfall. Þú ferð ekki og ríður henni og segir við hana: „Ertu ekki glöð að þú fékkst það sem þú vildir?“ Þetta ómar enn í höfðinu mínu,“ segir Guðbjörg.

„Þegar ég áttaði mig á að ég hafi ekki verið í ástandi til að samþykkja þetta og að ég hafi ekki viljað þetta. Það var eins og síðasta púsluspilið og allt kæmi saman.“

Í dag er Guðbjörg í bata. „Það er hægt að fá hjálp, það er Bjarkarhlíð og Stígamót og ef fólk er í sömu stöðu og ég var í, að það sé mjög erfitt að vinna úr áfalli, þá er geðdeildin þarna til að grípa þig. Það er þverfaglegt teymi þar sem hjálpar manni að ná jafnvægi svo maður geti unnið úr áföllum.“

Guðbjörg ræðir sögu sína nánar, ofbeldissambandið, bataferlið og sjálfsvinnuna í þættinum sem má horfa á hér að ofan eða á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Spjallþáttadrottningin var flutt á spítala með hraði

Spjallþáttadrottningin var flutt á spítala með hraði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Seinni eiginkonan vill að hann verði jarðaður hjá henni – „En ég er með önnur plön“

Seinni eiginkonan vill að hann verði jarðaður hjá henni – „En ég er með önnur plön“
Hide picture