Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar að sögn Live Science sem segir að vísindamenn hafi komist að því að snákar geti aðlagst nýjum aðstæðum mun hraðar en önnur skriðdýr. Þetta hefur hjálpað þeim að verða „sigurvegarar“ og breiðast út um alla jörðina.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn, sem hefur verið birt í vísindaritinu Science. Þar kemur fram að vísindamennirnir hafi rannsakað þann hóp skriðdýra sem telur snáka og eðlur en þetta eru rúmlega 11.000 tegundir, þar af eru um 4.000 tegundir af snákum. Snákategundirnar eru allt frá því að vera eitraðir sjávarsnákar, risastórar slöngur, kóbraslöngur og niður í litla snáka sem nærast á maurum og termítum.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að snákar hafi þróast þrisvar sinnum hraðar en eðlur hvað varðar fjölbreytni og hófst þessi hraða þróun fyrir um 70 til 66 milljónum ára en snákar komu fram á sjónarsviðið fyrir 128 milljónum ára. Þessi hraða þróun þeirra á sér enn stað.