fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Pressan

Svarið við stærstu morðráðgátunni leyndist í hlöðunni

Pressan
Laugardaginn 27. janúar 2024 22:00

Roger er fimm barna faðir. Mynd:Scanpix

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ótrúleg atburðarás í smábænum Tistedal vatt hratt upp á sig eftir að lík tóku að dúkka upp víða í bæjarfélagi sem telur aðeins um 2.000 manns. Engan grunaði að morðinginn væri fimm barna heimilisfaðir sem hafði alls enga siðferðiskennd og gerði nánast hvað sem var fyrir nokkra seðla. Morð var engin fyrirstaða.

Aase Helene, 78 ára, og bróðir hennar, hinn 74 ára gamli Arne Odvar Nordby, bjuggu í Tistedal, sem er lítill bær í Østfold í Noregi. Þann 3. september 1991 fundust systkinin látin á heimili sínu. Ljóst var að þau höfðu verið myrt, stungin til bana. Aðstæður á vettvangi bentu til að Aase hefði verið myrt á undan bróður sínum sem virtist hafa reynt að komast undan morðingjanum. Lík Aase fannst í húsinu en lík Arne, sem þjáðist af parkinsonsjúkdómnum, fannst undir nokkrum trékössum nokkra metra frá veginum. Sparifé þeirra, 60.000 krónur, var horfið. Aftan á kjól Aase fundust tvær rauðar rendur sem bentu til að morðinginn hefði þurrkað af hnífnum í hann að morðunum loknum. Lögreglan lagði mikla vinnu í rannsókn málsins. 700 vitni voru yfirheyrð og tveir lágu lengi undir grun, en voru síðan hreinsaðir af honum. Um 2.000 manns bjuggu í bænum og enginn virtist hafa séð neitt eða heyrt.

Lík fundust

Í ágúst 1992 hvarf Per Rød, 71 árs íbúi í Tistedal, sporlaust. Hann fannst ekki þrátt fyrir leit, fyrr en bíll hans fannst við göngustíg utan við bæinn og riffill hans var horfinn af heimili hans. Reiðhjólið hans var einnig horfið. Lögreglan taldi að hann hefði týnst í skóglendi og gerði ekki frekari leit að honum við heimili hans. Þann 23. mars 1993 voru strákar að leita að boltanum sínum við heimili hans. Í safnhaug í garðinum töldu þeir sig sjá trjágrein en við nánari skoðun kom í ljós að þetta var hönd Pers, sem var grafinn í haugnum, sem stóð upp úr. Réttarmeinafræðingar komust að þeirri niðurstöðu að líkið hefði legið í safnhaugnum í um sjö mánuði eða allan þann tíma sem Pers hafði verð saknað. Hann hafði verið sleginn í höfuðið og stunginn að minnsta kosti einu sinni í hálsinn. Á Þorláksmessu 1992 fannst Karl Johan Hagevik, 54 ára verslunareigandi, myrtur í hvítri Volvo 240 bifreið. Hann hafði verið skotinn í hnakkann með haglabyssu um 20 mínútum eftir að hann lokaði verslun sinni. Við hlið hans var poki með innkomu dagsins, 79.000 krónum. Lögreglan taldi líklegt að morðinginn hefði ætlað að
komast yfir peningana en hefði tekið vitlausan poka, en í honum voru tveir lítrar af mjólk og smávegis af kjöti. Lögreglan gat rakið slóð morðingjans nokkurn spöl. Fótspor fundust og bátur með blóðslettum á. Síðar fundu kafarar samfesting, öryggisskó með rauðum reimum og hanska, í ánni í Tista.

Bankarán

Fimm dögum eftir morðið á Hagevik höfðu fjölmiðlar eftir talsmanni lögreglunnar að hún væri ekki viss um að hér hefði sami maður verið að verki og myrti Aase og Arne. Nú voru þrjú óupplýst morðmál í bænum en fáar vísbendingar til að vinna út frá. Íbúar fundu til óör
yggis og lögreglan sætti harðri gagnrýni. Þann 15. apríl 1993 var bankarán framið í Låby, sem er 5 kílómetra frá Tistedal. Ræninginn var vopnaður haglabyssu. Lögreglan tengdi málið ekki við morðin. Til að reyna að varpa ljósi á málið lét lögreglan ríkisútvarpinu hljóðupptöku úr bankanum í té, í þeirri von að hlustendur þekktu rödd bankaræningjans. Það bar árangur því margir íbúar í Tistedal þekktu röddina og töldu að hér væri Roger Haglund á ferð en hann var skapmikill fimm barna faðir sem bjó í bænum. Lögreglan hóf þá rannsókn af fullum krafti á hvort Roger tengdist morðunum og smátt og smátt tókst að tengja málin öll saman og sýnt þótti að sami maður hefði verið að verki og rændi bankann í Lådby. Snemma morguns þann 30. apríl 1993 var Roger handtekinn. Lögreglan fínkembdi heimili hans en lét fátt uppi um árangurinn og sagði fátt við hann. Honum var ekki sagt strax að skóreimarnar sem fundust í ánni væru frá sama framleiðanda og reimarnar á skíðaskónum hans og hann fékk heldur ekki að vita að límband, sem fannst í blóðuga bátnum, var sömu tegundar og var á hátölurum heima hjá honum. Nokkrum dögum síðar fann lögreglan sönnunargagn sem reyndist skipta gríðarlegu máli og varð Roger endanlega að falli. Í hlöðu við heimili tengdaforeldra hans í Svíþjóð fannst reiðhjól Pers Rød. Það hafði verið tekið í sundur og falið undir heyi.

Ískaldur siðblindingi?

Rannsóknin leiddi í ljós að Roger hafði glímt við mikla fjárhagserfiðleika eftir að hann neyddist til að hætta að vinna af heilsufarsástæðum. Hann hafði notað miklu meiri peninga en hann fékk greidda frá almannatryggingum. Í maí játaði Roger að hafa rænt bankann og myrt Per og Karl Johan. Hann dró þessa játningu síðar til baka og sagðist hafa verið beittur þrýstingi af nafngreindum manni, þekktum morðingja og kynferðisbrotamanni, sem hafði svipt sig lífi skömmu áður. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að líklega hafði Roger myrt tvær manneskjur í Svíþjóð, en hann var ekki ákærður fyrir það. Mál hans fór fyrir dóm á vormánuðum 1994. Fyrir dómi var honum lýst sem ísköldum, siðblindum morðingja sem gat ekki sett sig inn í örlög fórnarlambanna. Roger var fundinn sekur um morðin fjögur, bankarán og rán. Hann var dæmdur í 21 árs fangelsi, sem er þyngsta refsingin samkvæmt norskum lögum, auk fimm ára öryggisgæslu að fangelsisdvöl lokinni. Honum var sleppt 2006 en þá var hann 68 ára og heilsuveill. Hann flutti til Skedsmo og fékk heimahlynningu þar næstu fimm árin, eða þar til hann fannst látinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Brúðkaupinu slaufað og unnustinn í rusli – Verðandi brúður handtekin fyrir barnaníð

Brúðkaupinu slaufað og unnustinn í rusli – Verðandi brúður handtekin fyrir barnaníð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Auka tungl gæti verið á braut um jörðina – Vísindamenn telja sig vita hvaðan það kom

Auka tungl gæti verið á braut um jörðina – Vísindamenn telja sig vita hvaðan það kom