fbpx
Miðvikudagur 04.október 2023
Pressan

Ellefti september – Örlagadagur tveggja þjóða

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 11. september 2023 22:00

Efri mynd: World Trade Center í New York 11. september 2001/Wikimedia Neðri mynd: Forsetahöllin, La Moneda, í Santiago 11. september 1973/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 11. september árið 1973 rann upp erfiðasti og um leið síðasti dagur Salvador Allende, forseta Chile, í embætti. Hann var í forsetahöllinni í höfuðborginni Santiago ásamt fjölskyldu sinni og nánustu samstarfsmönnum á meðan her landsins skaut á höllina. Herinn hafði raunar tilkynnt að vegna slæmrar stöðu Chile, ekki síst í efnahagsmálum, myndi hann frá og með þessum degi taka völdin í landinu.

Allende og hans fólk varðist eftir bestu getu en þegar herinn tilkynnti að senn yrði flugskeytum úr herþotum skotið á höllina skipaði forsetinn öllum að gefast upp og yfirgefa bygginguna. Sjálfur hafði hann sagt í útvarpsávarpi að uppgjöf kæmi ekki til greina af sinni hálfu. Svo fór að Allende lét lífið þennan dag. Það hefur verið umdeilt hvort hann var myrtur eða tók eigið líf. Þess má hins vegar geta að læknir forsetans sem var einn þeirra sem var með honum í höllinni segist hafa séð forsetann skjóta sjálfan sig í höfuðið.

Allende sem aðhylltist sósíalisma var kjörinn forseti Chile í lýðræðislegum kosningum 1970. Chile þótti á þeim tíma fyrirmynd fyrir önnur ríki Suður-Ameríku þegar kom að pólitískum stöðugleika og lýðræði. Allende fór ekki leynt með fyrir kosningarnar að hann ætlaði að færa Chile í sósíalíska átt. Þessum fyrirætlunum voru bandarísk stjórnvöld ekki hrifin af og reyndi leyniþjónustan (CIA) að koma í veg fyrir kjör Allende. Það tókst ekki og Allende hófst þegar handa við að innleiða aukinn sósíalisma í landinu. Það gerði hann með t.d. hækkun lágmarkslauna, auknum útgjöldum til velferðarmála og þjóðnýtingu námafyrirtækja sem voru í bandarískri eigu.

Salvador Allende/Wikimedia

Þessu var Richard Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, og helsti ráðgjafi hans í utanríkismálum Henry Kissinger ekki sérstaklega hrifnir af. Nixon vildi hreinlega að Allende yrði steypt af stóli. Bandaríkin beittu sér þess vegna gegn efnahagslífi Chile t.d. með því að draga alla efnahagslega aðstoð til baka og þrýsta á Alþjóðabankann og aðrar alþjóðastofnanir að veita Chile engin lán eða aðra aðstoð.

Bandaríkin studdu hins vegar við bakið á hernum í Chile og hægri sinnuðum fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum. Markmiðið var að auka misklíð í landinu og grafa undan stjórn Allende. Þetta tókst allt saman vel. Verðbólga fór í þriggja stafa tölu og Chile logaði í verkföllum. Hægri sinnuð viðhorf og takmarkaðar fjárveitingar ýttu undir andstöðu hersins við ríkisstjórnina. Deilt var um innan hersins hvort hann ætti að taka völdin en að lokum urðu þau viðhorf ofan á að það ætti hann að gera.

Eftir að her völdsins voru tryggð tóku miklar „hreinsanir“ við. Tugir þúsunda voru myrtar, látnar hverfa eða pyntaðar næstu daga, vikur, mánuði og ár. Formlegri herforingjastjórn yfir Chile, undir forystu hershöfðingjans Augusto Pinochet, var komið á og lítið fór fyrir lýðræði.

Herforingjastjórnin var við völd fram til 1990. Eftir talsvert umrót í þjóðfélaginu fram eftir níunda áratugnum hafði þjóðin hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu 1988 að framlengja valdatíð Pinochet. Lýðræðislegar forseta- og þingkosningar fóru fram í lok árs 1989 og í mars 1990 tóku nýkjörin stjórnvöld formlega við völdum og herinn og Augusto Pinochet yfirgáfu valdastólana.

Að minnast ellefta september

Eftir að lýðræði var endurreist í Chile hefur 11. september verið dagsetning sem greipt hefur verið í þjóðarminnið. Mörg líta á 11. september sem daginn þegar hryllingur harðstjórnar og ofbeldis náði grettistaki á landinu. Þau viðhorf eru þó ekki algild í Chile og oft hefur verið deilt um hvernig minnast eigi þessara atburða og hefur afstaða fólks í þeim efnum yfirleitt farið eftir pólitískum skoðunum viðkomandi. Hægri sinnaðir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa almennt verið tregari til að fordæma herforingjastjórnina en þau sem hallast til vinstri.

Núverandi forseti Chile, Gabriel Boric, er almennt talinn vera vinstri sinnaðasti forsetinn landsins síðan Allende var við völd. Boric sagði fyrr á þessu ári að 11. september 2023 yrði þess minnst í Chile að þá væri hálf öld síðan að valdarán eyðilagði lýðræðið í landinu og borið með sér morð, dauða, pyntingar, útlegðir og annars konar hrylling.

Hvernig sem stjórnmálamenn og annað fólk í Chile lítur á 11. september er samt nokkuð ljóst að um er að ræða mikinn örlagadag í sögu landsins.

Minningarathöfn 11. september 2023, í Santiago í Chile, sem haldin var til að minnast þess að 50 ár eru liðin frá valdaráni hersins. Gabriel Boric forseti Chile leiddi athöfnina sem haldin var við styttu af Salvador Allende(Mynd: Marcelo Hernandez/Getty Images)

Þáttur Bandaríkjanna

Á síðari árum hefur leynd verið aflétt af ýmsum skjölum í Bandaríkjunum sem hafa ýtt frekari stoðum undir það að bandarísk stjórnvöld hafi stutt á bak við valdaránið í Chile 1973.

Strax eftir valdaránið voru Bandaríkin grunuð um aðild að því og í fréttum New York Times kom fram að vísbendingar væru um að bandarísk stjórnvöld hefðu sannarlega stutt við það þrátt fyrir að þau neituðu því alfarið.

Meðal þeirra sem tekin voru af lífi fyrstu dagana eftir valdaránið voru tveir bandarískir ríkisborgarar, Charles Horman og Frank Teruggi. Horman var sjálfstætt starfandi blaðamaður en samkvæmt skjölum sem opinberuð voru 1999 vissi CIA frá upphafi að hann hefði verið tekinn til fanga og verið meðal þeirra sem valdaránsmenn tóku af lífi. Stofnunin hefur hins vegar neitað þessu.

Örlög Horman voru óþekkt fyrstu vikurnar eftir valdaránið. Faðir hans, Edmun Horman, hélt til Chile í leit að syni sínum rúmum mánuði eftir valdaránið. Hann komst síðar að því að þá hafði sonur hans þegar verið látinn í rúmlega þrjár vikur. Edmund Horman var afar ósáttur með bandarísk stjórnvöld og sagði að þau hefðu ekkert gert til að bjarga Charles eftir að fulltrúar Bandaríkjanna í Chile hefðu frétt af því að hann hefði verið tekinn til fanga. Hann hélt því líka fram að hann hefði fengið litla hjálp frá bandaríska sendiráðinu í Chile við leitina að syni sínum.

Charles Horman/Skjáskot

Rituð var bók um leit Edmund að Charles og kvikmyndin Missing, sem frumsýnd var 1982, var byggð á þeirri bók. Missing var frumsýnd 1982 og þar fór Jack Lemmon með hlutverk Edmund. Í myndinni má sjá Edmund missa algjörlega trúnna á stjórnvöld heimalands síns þegar hann kemst að afskiptum þeirra af valdaráninu í Chile.

Bandarísk stjórnvöld sem slík hafa aldrei viðurkennt með beinum hætti að hafa stutt á bak við valdaránið. Lengst gengu þau í þeim efnum árið 2000 með yfirlýsingu um að bandarísk stjórnvöld hefðu á áttunda áratugnum samþykkt aðgerðir sem hafi ýtt undir pólitískan klofning í Chile og haft áhrif á hina langvarandi lýðræðishefð í landinu.

Hinn ellefti september

Hver sem þáttur Bandaríkjanna í valdaráninu í Chile árið 1973 var þá er ljóst að frá árinu 2001 var dagsetningin 11. september einnig greipt í minni bandarísku þjóðarinnar. Það hafði þó ekkert með Chile að gera. Þennan dag árið 2001 flugu herskáir íslamistar þremur farþegaþotum á World Trade Center í New York og varnarmálaráðuneytið í Washington. Fjórða þotan brotlenti utan þéttbýlis í Pennsylvaníu. Tæplega 3000 manns létust í árásunum.

Afleiðingarnar voru þær helstar að innrás var gerð í Afganistan og voru Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra með hermenn í landinu næstu 20 árin. Stríð var hafið gegn hryðjuverkum og öryggisgæsla og eftirlit með almennum borgurum var hert í Bandaríkjunum og raunar víðar.

Um aldamótin 2000 voru þær hugmyndir víða uppi að tímar meiriháttar átaka, bæði hernaðarlegra og hugmyndafræðilegra, væru loks að baki. Atburðirnir 11. september 2001 sviptu hins vegar heiminn slíku sakleysi snarlega.

Þessi dagur varð að örlagadegi í sögu bandarísku þjóðarinnar og það er almenn samstaða í landinu um að minnast þessa dags með þeim hætti að þá hafi hryllingur og ofbeldi skollið á Bandaríkjunum, á einum degi, í meira mæli en þjóðin hafði upplifað í marga áratugi. Flestir ef ekki allir Bandaríkjamenn vita hvað átt er við þegar talað er um 11. september og það á einnig við um fólk út um allan heim.

Hluti minnismerkis í New York um árásirnar 11. september 2001/Wikimedia

Hins vegar hafa atburðirnir í Chile 11. september 1973 fallið nokkuð í skuggann af atburðunum í Bandaríkjunum þennan dag árið 2001. Þegar vísað er til valdaránsins í Chile er oft talað um „hinn 11. september.“ Sá 11. september er líklega ekki eins þekktur. Þar hafa væntanlega áhrif tímans sem liðinn er eitthvað að segja en Bandaríkin eru hins vegar stærri og fyrirferðarmeiri á alþjóðavettvangi og atburðir þar ættu því að verða líklegri til að festast í minni heimsins en atburðir í Chile.

Chile og Bandaríkin eiga það sameiginlegt að 11. september gerðust miklir og ofbeldisfullir atburðir sem breyttu sögu beggja landa. Þáttur Bandaríkjanna í 11. september Chile var nokkur en Chile kom ekkert nálægt 11. september Bandaríkjanna.

Hvort kalla megi það gráglettni örlaganna eða eina mestu tilviljun sögunnar að þessi dagur skyldi verða að örlagadegi í sögu beggja landa verður hver og einn lesandi að meta sjálfur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Veggjalýs gera Frökkum lífið leitt – „Enginn er öruggur“

Veggjalýs gera Frökkum lífið leitt – „Enginn er öruggur“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Vildi bara taka einn hring í viðbót en hvarf sporlaust – Telja að henni hafi verið rænt

Vildi bara taka einn hring í viðbót en hvarf sporlaust – Telja að henni hafi verið rænt
Pressan
Fyrir 2 dögum

Gera út af við mýtuna – Þetta gerist ekki þegar þú ert undir áhrifum áfengis

Gera út af við mýtuna – Þetta gerist ekki þegar þú ert undir áhrifum áfengis
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Brú lífsins“ hafði þveröfug áhrif

„Brú lífsins“ hafði þveröfug áhrif