fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Pressan

Uppljóstrari úr röðum bandarísku leyniþjónustunnar varpar sprengju – „Við erum ekki ein“

Pressan
Þriðjudaginn 6. júní 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppljóstrari sem starfaði áður innan leyniþjónustu Bandaríkjanna segir að bak við tjöldin hafi verið háð kalt stríð, þar sem ríki heimsins hafi keppst um að vera fyrst á vettvang þegar fljúgandi furðuhlutur lendir eða brotlendir á jörðu. Ekki nóg með það heldur hafi aðilar og stofnanir innan bandaríska stjórnkerfisins vitað af tilvist lífs utan jarðarinnar árum saman en haldið því leyndu fyrir ráðamönnum, sem og furðuhlutunum sem Bandaríkin hafi undir höndum.

David Grusch starfaði fyrir leyniþjónustuna í Bandaríkjunum og leiddi þar greiningarvinnu á óútskýranlegum afbrigðilegum fyrirbærum ásamt  bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Hann hefur nú stigið fram og heldur því fram að Bandaríkin hafi fundið og tekið í sínar vörslu fyrirbæri sem ekki eiga uppruna að rekja til jarðarinnar. David segir að þessum upplýsingum sé haldið frá bandaríska þinginu með ólögmætum hætti.

David hafi sjálfur reynt að senda upplýsingarnar til þingmanna og fyrir vikið verið beittur hefndaraðgerðum. Hann hefur nú sagt skilið við leyniþjónustuna eftir 14 ára starf. Það var miðillinn Debrief sem vakti athygli á málinu sem eðlilega hefur farið sem eldur í sinu um netheima og vakið upp fjölda spurninga. Þá hafa margir af stærstu fjölmiðlum heims fjallað um málið.

Annar leyniþjónustumaður, Jonathan Grey, sem er enn starfandi sagði við Debrief að það væri alveg ljóst og staðfest að maðurinn sé ekki einn í alheiminum. „Ómennskt vitsmunalíf er raunverulegt, við erum ekki ein,“ sagði Grey.

Möguleikinn á líf á öðrum plánetum, sem og möguleikinn á að geimverur séu nú þegar búnar að sækja jörðina heim, hefur fengið byr undir báða vængi undanfarin misseri eftir að Bandaríkin opinberuðu að til væru gögn um fljúgandi fyrirbæri sem ekki hefði tekist að skýra með þeirri tækni sem við þekkjum í dag. Eins þegar greint var frá því að bandaríska þingið hefði veitt fjármagn til sérstakrar deildar sem bókstaflega hefur verið falið að rannsaka fyrirbæri sem ekki eiga uppruna í hinu jarðneska. Fjöldi tilvika hefur ratað í umræðuna og fjölmiðla undanfarin ár þar sem fólk telur sig hafa séð, náð myndskeiðum eða myndum af fljúgandi furðuhlutum sem ekki hafi  tekist að hrekja með sannfærandi hætti.

Kalt stríð bak við tjöldin

David segir að þetta sé þó ekki öll sagan. Áratugum saman hafi bandarísk yfirvöld fundið hluta og brot úr slíkum furðuhlutum og jafnvel farartæki sem eru í góðu ásigkomulagi. Greiningar hafi sýnt fram á að þessi fyrirbæri séu af framandi uppruna, eða einhverju sem ekki er þekkt hér á jörðinni. David tekur þó fram að hann hafi ekki séð slíkt farartæki sjálfur, þeim sé haldið á leynilegum stöðum. Hann segist þó hafa rannsakað málið með því að ræða við mikið af háttsettum aðilum innan Bandaríkjanna, sumir þeirra hafi gengist við því að hafa séð, eða haft eitthvað með furðuhlutina að gera.

Rannsókn hans leiddi í ljós að þeir aðilar innan opinbera kerfisins í Bandaríkjunum sem hafi vitneskju um furðuhlutina hafi vísvitandi haldið þeim upplýsingum frá þinginu og ráðamönnum. Upplýsingar hafi verið kæfðar og þrýstingi beitt. Þarna sé um að ræða gífurlega hagsmuni í tækniþróun og samkvæmt David á sér nú stað kalt stríð á bak við tjöldin þar sem mismunandi lönd keppast við að hafa uppi á furðuhlutunum til að rannsaka, hermismíða og nýta tæknina í varnar og hernaðarskyni.

David segir mikilvægt að þessi feluleikur hætti. Almenningur þurfi að vera upplýstur um stöðuna og heimurinn þurfi að undirbúa sig undir það að líf utan úr geimnum sæki jörðina heim. Ríki jarðarinnar eigi ekki að vera hver í sínu horni að leita að braki úr geimförum í leyni heldur taka höndum saman. Um sé að ræða eitthvað sem jörðin þurfi að takast á við í sameiningu. Vitsmunalíf sé til utan jarðarinnar og sú staðreynd krefst dýpra samtals en hingað til hafi átt sér stað.

David er sagður vel metinn innan leyniþjónustusamfélagsins, en Debrief fékk það staðfest úr mörgum áttum að hann væri vissulega mikils metinn og trúverðugur, þó hafa aðrir miðlar einnig sett sig í samband við David og hefur hann þá hafnað því að leggja fram þau sönnunargögn sem Debrief vísar til í sinni umfjöllun, segir hann það ómögulegt sökum ríkishagsmuna. David hafði eins greint frá því að ótilgreindar rannsóknir væri í gangi vegna hefndaraðgerða sem aðilar innan bandaríska embættiskerfisins hafi beitt hann. Vildi David ekki fara nánar í þær sakir í upprunalegu fréttinni, sökum rannsóknarhagsmuna.

Ef lesendum fannst ofangreint ekki nægilega áhugavert má benda á að David sagði í samtali við News Nation að ekki væri nóg með að fljúgandi furðuhlutir væru raunverulegir, og samhliða því hefðu flugmenn slíkra tækja einnig verið raunverulegir og hafi Bandaríkin líkamsleifar í vörslum sínum, sem ekki eigi uppruna á jörðinni.

„Eðlilega, þegar maður er með eitthvað sem hefur lent eða brotlent, þá rekst maður stundum á látna flugmenn, og hvort sem þú trúir því eða ekki, eins galið og það hljómar, þá er þetta satt.“

Hér má lesa ítarlega og gífurlega áhugaverða umfjöllun Debrief. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar

Mikill eldur í einni elstu byggingu Kaupmannahafnar
Pressan
Fyrir 2 dögum

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband

Átta ára fangelsi fyrir að stela bíl – 89 ára blind kona í framsætinu – Myndband
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ömurlegt að missa auga: „Ég er miður mín alla daga út af því“

Ömurlegt að missa auga: „Ég er miður mín alla daga út af því“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Önnur óhugnanleg hnífaárás í Sydney í morgun – Stunginn í beinni útsendingu

Önnur óhugnanleg hnífaárás í Sydney í morgun – Stunginn í beinni útsendingu
Pressan
Fyrir 3 dögum

55 fermetra sumarhús til sölu – Ásett verð er 220 milljónir – Sjáðu myndirnar

55 fermetra sumarhús til sölu – Ásett verð er 220 milljónir – Sjáðu myndirnar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fimm ótrúleg mál – Mannránin sem gleymast aldrei

Fimm ótrúleg mál – Mannránin sem gleymast aldrei