fbpx
Laugardagur 03.júní 2023
Pressan

Er eitt frægasta sakamál sögunnar leyst? – Hópur rannsakenda segist hafa borið kennsl á hinn alræmda Zodiac-morðingja

Pressan
Fimmtudaginn 18. maí 2023 19:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hópur sjálfboðaliða sem stundar að rannsaka gömul óupplýst sakamál telja sig hafa borið kennsl á hinn alræmda stjörnumerkjamorðingja, eða Zodiac-morðingjann eins og hann er vanalega kallaður.

Zodiac-morðinginn stundaði myrkraverk sín á sjöunda áratug síðustu aldar þar sem hann herjaði á saklaus fórnarlömb í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hann er talinn hafa myrt minnst fimm einstaklinga og til að bæta gráu ofan á svart hafði hann bæði lögreglu og fjölmiðla að háði og spotti með því að senda þeim skilaboð á flóknu dulmáli.

Síðan hvarf hann sporlaust og hefur lögreglu aldrei tekist að finna út hver var þar að verki. Margir hafa þó verið nefndir til sögunnar. Til dæmis maður að nafni Arthur Leigh Allan sem var dæmdur barnaníðingur og hafði eitt sinn rætt við vin sinn um að skrifa skáldsögu um morðingja sem væri kallaður Zodiac. Sá morðingi myndi elta pör og senda bréf til lögreglunnar. Allan bjó nærri svæðinu þar sem sum morðin áttu sér stað og átti sambærilega ritvél og notuð var til að skrifa háðsglósurnar til lögreglunnar. Þó tókst lögreglu aldrei að tengja hann beint við morðin og fingraför á bréfunum voru ekki hans.

Sjá einnig: Sumt gekk upp en annað ekki – Var barnaníðingurinn Allen í raun Zodiac raðmorðinginn?

Sannfærð um að morðinginn sé fundinn

Nú hefur áðurnefndur hópur þó nefnt annan aðila til sögunnar sem lögreglan hafi þó vitað af en vanrækt að rannsaka til hlýtar.

Rannsóknarblaðamaðurinn Thomas Colbert rekur samtökin Case Breakers, sem er hópur sjálfboðaliða sem rannsakar þekkt sakamál. Thoas segir að hópurinn hafi tengt Zodiac-morðin við hermanninn Gary Francis Poste. Hann segist eins hafa fengið staðfestingu frá alríkislögreglunni að Gary hafi verið skráður sem sakborningur í málinu árið 2016.

Case Breakers greindu fyrst frá því árið 2021 að Gary væri morðinginn, en núna hefur hópurinn aftur stigið fram til að gagnrýna framgögnu lögreglunnar í málinu.

Thomas segir að þó svo að lögreglan neiti að gangast við því opinberlega þá hafi þeir skráð Gary sem sakborning í kerfum sínum og séu jafnframt með erfðaefni hans ofan í skúffu í höfuðstöðvum FBI. FBI hafi þó ekki haft fyrir því að samkeyra þetta sýni við þau sem safnað var saman á vettvangi morðanna.

Segist hópurinn sjálfur hafa orðið sér út um erfðaefni Gary, sem lést árið 2018, og vilja þau að lögreglan beri sýnið saman við erfðaefni sem fannst á vettvangi morðs, sem FBI hefur hingað til neitað að tengja við Zodiac-málið.  Þetta er morðið á  Cheri Jo Bates, sem var myrt árið 1966, en hópurinn telur að þar hafi Zodiac-morðinginn verið að verki.

Fulltrúar frá FBI hafa þó staðfast haldið því fram að Zodiac-morðin séu enn óleyst og að morðið á Cheri Jo passi ekki við mynstur raðmorðingjans. Cases Breakers vilja þó meina að lögreglan viti fullvel að Gary Fancis sé morðinginn og saka lögreglu um að hafa ekki verið liðlegir við að hjálpa hópnum að komast til botns í málinu.

Segja sönnunargögnin óumdeilanleg

Samkvæmt vefsíðu Case Breakers er um 40 manna hópur sem kemur að rannsókn þeirra. Hafi hópurinn fengið ábendingu um stað þar sem morðvopnið gæti verið að finna og telja að í kjölfarið muni réttarmeinarannsókn leiða í ljós að Gary Francis hafi mundað vopnið og sé í raun morðinginn. Hópurinn telur sig einnig hafa fundið fleiri fórnarlömb morðingjans. Fyrir hópnum fara fyrrum lögreglumaður alríkislögreglunnar og fyrrum starfsmaður sérstakrar lögregludeildar sem heyrir undir dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna (U.S Marshal).

Hópurinn segist hafa undir höndum framburð vitna, dómsgögn, einkamyndir úr eigu morðingjans sem og persónuleg myndskeið, dulkóðuð skilaboð sem búið er að ráða ásamt réttarmeinafræðilegum sönnunargögnum. Gögnin séu óumdeilanleg.

Case Breakers segjast nú eiga í viðræðum við framleiðendur um gerð heimildaþátta þar sem hulunni verður svipt af Zodiac-morðingjanum, en hópurinn hefur haft fjögur mál til rannsóknar og telur sig hafa leyst þau öll. Þau hafi fundið út hver hinn frægi D.B. Cooper var – en heimildaþættirnir um það mál komu út á síðasta ári – þau segjast vita hvar verkalýðsforinginn Jimmy Hoffa er grafinn og hver beri ábyrgð á barnamorðunum í Atlanta.

New York Post greinir frá. 

Hver var Gary?

Lítið er vitað um Gary Francis Poste. Nágrannar, kunningjar og jafnvel vinir hafa þó í gengum tíðina stigið fram og deilt sögum um hann.

Hann fæddist árið 1937 og gekk ungur í flugherinn. Síðar átti hann eftir að starfa sem málari. Árið 1970 flutti hann til Kaliforníu þar sem hann gifti sig og fór að búa. Einn nágranna hans frá þeim tíma sagði við fjölmiðla að Gary og kona hans hafi passað hana þegar hún var lítil. Hafi þau kennt henni að skjóta af byssu og hafi hún séð að Gary beitti konu sína ofbeldi.

Eins hefur því verið haldið fram að Gary hafi safnað ungum mönnum í kringum sig í nokkurs konar glæpaklíku. Hafi Gary verið leiðtogi þeirra og ungu drengirnir hafi verið einstaklega húsbóndahollir. Hann hafi kennt þeim að útbúa sprengjur og ef nýr lögreglumaður flutti í bæinn þeirra sendi hann drengina til að henda steinum í glugga lögreglumannsins til að fæla hann í burtu frá umdæminu. Gary var líka sagður lána fóli í sjálfsvígshugleiðingum skotvopn.

Case Breakers hafa rætt við mann sem segist hafa verið hluti af þessari klíku. Hann sagði Gary hafa átt sér góðar hliðar, en hann hafi þó verið alveg samviskulaus.

„Ég sá hann drepa birni, hreindýr, otra og merði. Allt sem var á lífi elskaði hann að skjóta og horfa á þau falla. Hann elskaði svo að djöflast á hræjunum þegar hann var búinn. Hann varð bara blóðugur.“

Ekki eru allir þó sammála

Case Breakers hafa bent á líkindi með Gary og mynd sem teiknuð var út frá frásögnum vitna. Þar sjáist ör á enni beggja. Eins fann hópurinn út að ef nafn Gary væri hægt að nota til að ráða dulkóðuðu skilaboðin. Fótspor sem hafi fundist á vettvangi Zodiac-morðanna séu í sömu stærð og Gary notaði og svona mætti áfram telja. Stærsta vísbendingin hafi þó verið sú að enginn sem hópurinn ræddi við, sem hafði þekkt til Gary, varð hissa á þeim möguleika að hann gæti verið þessi alræmdi morðingi. Jafnvel kona hans hafi trúað því að hann væri morðinginn.

Engu að síður er kenning Case Breakers umdeild. Bæði hefur lögreglan vísað henni á bug sem og aðrir sérfræðingar sem hafa helgað sig málinu í gegnum tíðina. Tom Voigt, sem skrifaði bókina Zodiac Killer: Just the Facts, segir ekkert til í fullyrðingum Case Breakers. Ekkert vitni hafi lýst línum á enni morðingjans, heldur hafi teiknarinn sjálfur bætt þeim við til að gera teikninguna líflegri.

En svo veit maður víst aldrei. Hvað ef?- er spurningin sem mun líklega fylgja þessu máli alla tíð. Enda væri víst sorglegt að fá loksins lausnina eftir allan þennan tíma, því hvað væri þá hægt að skrifa inn á síður eins og Pressuna, gera heimildamyndir og þætti um eða fjalla um í hlaðvörpum? Stundum er ráðgátan meira spennandi en lausnin, eða hvað?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Grunaður um morð og að hafa fryst líkið – Nú eru nýjar kærur komnar fram

Grunaður um morð og að hafa fryst líkið – Nú eru nýjar kærur komnar fram
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dæmd fyrir hina „endanlegu“ hefnd – Nýjar og óvæntar vendingar í málinu

Dæmd fyrir hina „endanlegu“ hefnd – Nýjar og óvæntar vendingar í málinu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Háhyrningar hafa sökkt 3 bátum í Evrópu og virðast vera að kenna öðrum að gera það sama – Af hverju?

Háhyrningar hafa sökkt 3 bátum í Evrópu og virðast vera að kenna öðrum að gera það sama – Af hverju?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Telja að fjögur börn séu á lífi í Amazon – Hefur verið saknað síðan 1. maí

Telja að fjögur börn séu á lífi í Amazon – Hefur verið saknað síðan 1. maí
Pressan
Fyrir 4 dögum

Úrskurðaður í gæsluvarðhald – Grunaður um nauðgun og að hafa myndað ofbeldisverkið

Úrskurðaður í gæsluvarðhald – Grunaður um nauðgun og að hafa myndað ofbeldisverkið
Pressan
Fyrir 4 dögum

Gera tilraun með að selja Mars súkkulaði í pappírsumbúðum

Gera tilraun með að selja Mars súkkulaði í pappírsumbúðum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Breskur ferðamaður lést eftir að verða fyrir eldingu í sjósundi

Breskur ferðamaður lést eftir að verða fyrir eldingu í sjósundi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Brúðguminn hvarf í miðri myndatöku og hélt að enginn tæki eftir því – Ljósmyndarinn náði myndum af því sem hann gerði

Brúðguminn hvarf í miðri myndatöku og hélt að enginn tæki eftir því – Ljósmyndarinn náði myndum af því sem hann gerði