fbpx
Þriðjudagur 05.júlí 2022
Pressan

Eva og Hans leyndu því fyrir öllum hvað gekk á í svefnherberginu

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 8. maí 2022 20:00

Hér bjuggu Eva og Hans. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Út á við voru Eva og Hans Kristian Rausing ríku hjónin sem „allir“ litu upp til. Aðeins þeirra allra nánustu vissu hvað gekk á í svefnherberginu þeirra á þriðju hæð heimilis þeirra.

„Ég er miður mín yfir þeim vandræðum sem ég hef valdið. Ég gerði stór mistök,“ sagði Eva og brosti. Skömmu áður hafði glansmyndin af þeim hjónum brotnað í tætlur. Þetta var árið 2008 og Eva hafði verið handtekin fyrir að reyna að smygla heróíni og krakki inn í bandaríska sendiráðið í Lundúnum.

Heima hjá þeim fann lögreglan mikið magn fíkniefna. Þau höfðu verið falin í allt frá eldhússkápum til blómapotta. Hjónin létu lítið fyrir sér fara í kjölfarið og héldu sig í glæsiíbúð sinni í Lundúnum, fyrir hana höfðu þau greitt sem svarar til um 1,5 milljarði íslenskra króna.

Breskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um málið og hversu langan fangelsisdóm þau ættu yfir höfði sér. Blaðamenn í tugatali biðu fyrir utan húsið í þeirri von að ná tali af hjónunum. Skyndilega opnaði Eva dyrnar, hún var í kjól og með sólgleraugu. „Ég átta mig á að ég hef tekið rangar ákvarðanir,“ sagði hún og lokaði um leið og hún þakkaði fyrir sig.

En þau voru svo heppinn að eiga ríka og valdamikla vini og sluppu því með aðvörun.

Á skömmum tíma tókst þeim að endurreisa orðspor sitt og taka upp fyrri lífsstíl. En fjórum árum síðar var þessu öllu lokið. Þá fóru lögreglumenn inn á heimilið og mætti þeim fátt annað en óhugnaður.

Lífshættulegur fundur

Bæði Eva og Hans voru af mjög efnuðu fólki komin. Þau höfðu aldrei verið í vinnu. Faðir Evu var Tom Kemeny, yfirmaður hjá Pepsi. Hann hafði fyrir löngu gefið upp alla von um að Eva myndi fylgja í fótspor hans. Helstu áhugamál hennar voru samkvæmi og notkun fíkniefna. Honum til mikilla vonbrigða hætti hún námi. Þegar hún var 25 ára, árið 1989, sendi Tom hana í meðferð en því sá hann mjög eftir síðar.

Á meðferðarstofnuninni kynntist hún nefnilega Hans Kristian Rausing, 26 ára. Sænskir foreldrar hans áttu marga milljarða. Systkini hans höfðu aflað sér háskólamenntunar og látið til sín taka í mannúðarmálum. En Hans fór aðra leið. Eftir að hann prófaði heróín í fyrsta sinn þegar hann var 19 ára var ekki aftur snúið. Eftir það var fíknivandi hans stærsta vandamál í lífinu. Hann hafði engan áhuga á fjölskyldufyrirtækinu en fjölskylda hans á Tetra Pak sem framleiðir umbúðir undir drykkjarvörur, þar á meðal mjólkurfernur.

Eva og Hans á yngri árum.

Eva og Hans áttu margt sameiginlegt, kannski allt of mikið. „Þetta var lífshættuleg ást. Þau voru bæði fíklar,“ sagði fjölskylduvinur síðar í samtali við Daily Mail.

Þau luku meðferðinni og urðu ásátt um að hefja nýtt líf saman án vímuefna.

Þau keyptu sér strax hús í Belgravia í Lundúnum, einu dýrasta hverfi borgarinnar. Þetta var enginn kofi því 50 herbergi eru í húsinu sem er fimm hæða.

Umgengust fína fólkið

Eva var áköf í að hefja nám á nýjan leik og hóf nám í hagfræði við Richmond háskólann. Hans Kristian hóf nám í enskum bókmenntum en hann naut þess að lesa.

Þau réðu þjónustufólk til starfa til að sjá um húsið og öll húsverkin, þar með talið að elda mat fyrir þau og annast börnin þeirra sem urðu fjögur með tímanum.

Hjónunum var boðið í fínustu samkvæmin í Lundúnum í krafti auðs þeirra. Þau umgengust meðal annars Karl prins og var oft boðið í Buckinghamhöll.

Í fyrstu tókst þeim að halda sig frá fíkniefnum en síðan fór að síga á ógæfuhliðina. Þau voru þekkt sem fyndnu og skemmtilegu hjónin sem eyddu miklum tíma og peningum í að aðstoða fíkla. Þau stofnuðu meðal annars meðferðarstofnun á Barbados en þar áttu þau ellefu herbergja hús.

En þrátt fyrir að hafa aðstoðar mörg þúsund fíkla gátu þau ekki hjálpað sjálfum sér. Þau fengu sér smá kampavín í kringum aldamótin til að fagna þeim. Eftir það var ekki aftur snúið. Á skömmum tíma voru þau sokkin í neyslu á krakki, kókaíni og heróíni. Þau lokuðu sig af í svefnherbergi sínu á þriðju hæð hússins í Lundúnum. Enginn fékk að koma þangað inn, ekki einu sinni börnin þeirra.

Þau drógu sig alveg í hlé frá sviðsljósinu og nýttu alla tíma sinn til neyslu fíkniefna. Starfsfólkið varð að annast börnin fjögur.

Mjög hreinskilin

2006 stofnaði Eva MySpace-síður þar sem hún veitti fólki innsýn í líf sitt. Hún sagðist vera heimavinnandi og að helstu fyrirmyndir hennar væru Ghandi, Bill Clinton og Karl prins. Hún sagðist þéna 20 milljónir eða meira á ári. „Ég vinni ekki  neitt en ætti kannski að gera það,“ skrifaði hún meðal annars.

Eva skrifaði langa færslu á MySpace.

Hún sagðist einnig eiga fjögur börn og játaði að hafa aldrei fylgt þeim í skólann: „Ég er oft sökuð um að vera ekki móðurleg. Það er satt að ég hef ráðið fólk til að aðstoða mig með börnin en ég elska þau svo mikið að ég verð að halda fjarlægð á milli okkar svo þetta verði ekki of vont. Fylgi ég þeim í skólann á morgnana eða fer á fætur með þeim? Nei. Það gerir mig ekki að slæmri móður. Þau þekkja ekkert annað.“

Hún þakkaði síðan Hans Kristian fyrir að hafa stutta hana síðan þau féllu aftur í fíkniefnaneyslu um aldamótin og sagðist vonast til að næstu ár yrðu þeim góð.

Misstu börnin

Í júlí 2006 sprautaði Eva heróíni í æð með skítugri nál. Hún fékk mikla bakteríusýkingu í hjartað í kjölfarið en hjartað var veikt fyrir eftir áralanga fíkniefnaneyslu. Hún gekkst undir aðgerð þar sem gangráður var settur í hana.

Um leið og hún var útskrifuð af sjúkrahúsinu fór hún beint heim og upp í svefnherbergið þar sem hjónin héldu áfram að neyta fíkniefna.

Þegar þarna var komið við sögu ætlaði fjölskylda Hans Kristian að reyna að koma þeim til aðstoðar, áður en það væri um seinan. Þau fóru heim til þeirra og kröfðust þess að Eva og Hans Kristian kæmu út úr svefnherberginu. Það gerðu þau eftir korter. Bæði voru í slæmu ástandi. „Við sögðum: „Þið muni missa fjölskylduna, húsið, orðsporið ykkar, líklega lífið, ef þið leitið ykkur ekki aðstoðar,“ sagði Sigrid Rausing, systir Hans Kristian, síðar.

Eva vildi ekki hlusta og æddi út. Hans Kristian ræddi við fjölskyldu sína og féllst á að fara í meðferð. Þar stoppaði hann bara í nokkra daga.

Skömmu síðar hringdu barnaverndaryfirvöld í Lundúnum í Sigrid og sögðu að ef fjölskyldan tæki ekki börnin af Evu og Hans myndu barnaverndaryfirvöld gera það.

Sigrid sagðist vita að börnunum liði ekki vel og að hún vildi gjarnan ættleiða þau og flytja þau í setur Rausingfjölskyldunnar í Sussex.

En Eva og Hans höfðu ekki í hyggju að láta börnin baráttulaust frá sér.

Vorið 2007 fór málið fyrir dóm. Sigrid krafðist þess að fá að ættleiða börnin. Dómari féllst á kröfu hennar enda óhætt að segja að Eva og Hans hafi ekki komið vel fyrir þegar þau mættu fyrir dóminn. Þau mættu alltaf of seint og voru dofin og illa til höfð.

„Hans og Eva elskuðu börnin sín. Ég veit það. En er það ekki klisja? Hver er tilgangurinn með ást ef eiturlyf eru í fyrsta sæti?“ skrifaði Sigrid í bókinni „Mayhem“ sem fjallar um Evu og Hans.

Brotnaði algjörlega saman

Eftir að börnin voru tekin af þeim brotnaði Eva algjörlega saman. Hún hafði engu að tapa og lokaði sig inni í herbergi með Hans Kristian. Þar neyttu þau fíkniefna, sváfu og horfðu á sjónvarpið. Starfsfólkinu var skipað að halda sig fjarri herberginu.

Þau slitu sambandinu við næstum alla sem þau þekktu. „Þau vissu ekki lengur hvort það var dagur eða nótt“, sagði vinur þeirra síðar við lögregluna.

Annar vinur, sem kom einu sinni í heimsókn, sagði að svefnherbergið hafi verið „alveg hryllilegt“. Húsið hafi litið út eins og „sálarlaust hótel“ en svefnherbergið eins og fíkniefnagreni. „Enginn hefði trúað að þau væru milljarðamæringar. Þetta sýnir hvað fíkniefni gera fólki. Þau gátu hvorki hugsað um sig sjálf né húsið,“ sagði viðkomandi að sögn Evening Standard.

Réði uppgjafahermenn til starfa

Í síðustu tilraun sinni til að bjarga Evu réði fjölskylda hennar átta uppgjafahermenn til starfa. Verkefni þeirra var að koma í veg fyrir Eva gæti keypt fíkniefni.

Daily Mirror hefur eftir einum þeirra að þeir hafi fylgt henni eftir hvert sem hún fór og reynt að gæta þess að hún vissi ekki af þeim. Þegar hún hafi verið að kaupa fíkniefni hafi þeir gert vart við sig og fælt seljendurna frá.

Eva.

Þetta fór ekki vel í Evu og í apríl 2012 skráði hún sig í meðferð á nýjan leik. Fjölskyldunni létti en gleðin var skammvinn. Viku síðar var henni vísað úr meðferðinni eftir að hún var staðin að því að smygla valíum inn á stofnunina.

Evu var alveg sama. Hún vildi bara komast heim í svefnherbergið sitt til Hans Kristian.

Hún sást ekki á lífi eftir þetta.

Bankaði í heila viku

Vinir hjónanna hringdu í þau, sendu skilaboð og hringdu dyrabjöllunni en fengu aldrei svar.

Be Kemeny, systir Evu, hafði miklar áhyggjur af henni og flaug frá Bandaríkjunum til Lundúna og ætlaði að hafa Evu með sér heim. Húshjálp hleypti henni inn. Be barði á svefnherbergisdyrnar en fékk ekkert svar. Hún kom í húsið daglega næstu vikuna og barði á svefnherbergisdyrnar en fékk aldrei svar. Að lokum gafst hún upp og fór aftur heim.

Tveimur mánuðum síðar áttaði hún sig á hvað hafði gerst. „Ég held að systir mín hafi verið þarna inni. Dáin. Ég hafði haft áhyggjur vikum saman. Mig grunaði að eitthvað hræðilegt hefði gerst,“ sagði Be síðar.

Handtekinn

Í júlí 2012 var Hans Kristian handtekinn eftir glæfraakstur í Lundúnum. Hann var greinilega undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Í bíl hans fann lögreglan fíkniefni og tól til fíkniefnaneyslu. Einnig voru mörg óopnuð bréf til Evu.

Lögreglumennirnir vissu hver hann var og spurðu hann hvar Eva væri. „Hún fór til Kaliforníu fyrir þremur vikum,“ snökti hann og byrjaði síðan að gráta.

Sýnataka leiddi í ljós að hann var undir áhrifum fimm tegunda fíkniefna.

Lögregluna grunaði að fíkniefni væru falin heima hjá honum og fór því þangað til leitar. Þegar inn í húsið var komið mætti skelfilegur óþefur lögreglumönnunum.

Svefnherbergisdyrnar á þriðju hæð voru innsiglaðar með límbandi og búið var að stafla húsgögnum og rusli fyrir þær.

Þegar lögreglumönnunum tókst loks að opna dyrnar blasti við þeim myrkvað herbergi fullt af flugum og lifrum. Í miðju herberginu var blár dúkur sem var búið að leggja yfir teppi, rúm, sjónvarp, skúffur og rusl. Dúkurinn var fastur við gólfið og þakinn hvítu dufti sem lögreglan taldi vera lyktareyði.

Á veggina var búið að skrifa bókstafi og tölur. Síðar kom í ljós að þetta voru nöfn og símanúmer fíkniefnasala sem Eva átti í viðskiptum við.

Lögreglumennirnir grófu í haugnum. Undir öllu ruslinu lá Eva. Í krepptum hnefa hennar var krakkpípa. Hún hafði verið látin í tvo mánuði.

Hans Kristian var handtekinn, grunaður um að hafa myrt Evu en hann neitaði sök.

Lögreglukona stendur vörð við heimili hjónanna. Mynd:Getty

Nokkrum dögum síðar tilkynnti lögreglan að Hans Kristian væri ekki lengur grunaður um morð. Krufning leiddi í ljós að Eva hafði fengið hjartaáfall í kjölfar mikillar kókaínneyslu. Gangráður hennar sýndi að hún lést 7. maí, sem sagt tveimur mánuðum áður en líkið fannst.

Hans Kristian játaði að hafa leynt andlátinu því hann sagðist ekki hafa getað horfst í augu við að hún væri látin.

Hann var dæmdur í tíu mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir að hafa falið líkið og ekki tilkynnt um andlátið. Hann var einnig dæmdur til að sækja fíkniefnameðferð næstu tvö árin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 1 viku

Vísindamenn telja að kynlíf geti unnið gegn frjókornaofnæmi

Vísindamenn telja að kynlíf geti unnið gegn frjókornaofnæmi
Pressan
Fyrir 1 viku

Karl Bretaprins þáði hundruðir milljóna frá katörskum sjeik

Karl Bretaprins þáði hundruðir milljóna frá katörskum sjeik
Pressan
Fyrir 1 viku

Þessi níu einkenni Ómíkron koma oft fram hjá fullbólusettum

Þessi níu einkenni Ómíkron koma oft fram hjá fullbólusettum
Pressan
Fyrir 1 viku

Ef þú getur ekki gert þetta í 10 sekúndur er útlitið svart

Ef þú getur ekki gert þetta í 10 sekúndur er útlitið svart
FréttirPressan
Fyrir 1 viku

Hæstaréttardómari tekinn nakinn á rúntinum í þriðja sinn á árinu

Hæstaréttardómari tekinn nakinn á rúntinum í þriðja sinn á árinu
Pressan
Fyrir 1 viku

Þetta verður um auðæfi Bill Gates að honum látnum

Þetta verður um auðæfi Bill Gates að honum látnum