fbpx
Miðvikudagur 06.júlí 2022
Pressan

Óvenjuleg rannsóknaraðferð dönsku lögreglunnar í morðmáli frá 2016 – Aldrei fyrr notuð

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 9. maí 2022 05:48

Louise Borglit.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á föstudaginn tilkynnti danska lögreglan að hún hefði handtekið 28 ára karlmann sem er grunaður um að hafa myrt Louise Borglit á hrottalegan hátt í nóvember 2016. Hún var stungin margoft og lést af völdum áverka sinna daginn eftir. Hún var gengin sjö mánuði þegar ráðist var á hana og lést ófætt barn hennar einnig.

Málið hefur verið mikil ráðgáta frá upphafi. Louise var á gangi í Elverparken í Herlev með hund systur sinnar en hún var í heimsókn hjá henni. Louise var 32 ára og gekk með fyrsta barn sitt undir belti. Morðið var mjög hrottalegt og snerti mjög við dönsku þjóðinni.

Hér fyrir neðan er tímalína yfir það helsta tengt málinu:

04. nóvember 2016

Það var þann 4. nóvember 2016 sem Louise var í heimsókn hjá systur sinni og fjölskyldu og fór út að ganga með hundinn þeirra. Skömmu eftir klukkan 19 heyrði kona, sem var að viðra hundinn sinn í Elverparken, tvö öskur berast frá runna. Þau reyndust vera frá Louise. Því næst mætti vitnið dökkklæddum manni, í regnfatnaði og með derhúfu, sem kom út úr runnum. Hann baðaði út handleggjunum áður en hann hljóp á brott. Konan gerði það sama því hún hræddist manninn.

Á sama tíma var kærustupar á göngu í garðinum. Þau mættu hundi systur Louise og hann leiddi þau að runnanum sem ókunnugi maðurinn kom út úr. Kærustuparið fann Louise liggjandi í runnanum og hafði hún verið stungin margoft í efri hluta líkamans. Kærustuparið hringdi í lögregluna klukkan 19.14.

Umfangsmikil rannsókn hófst strax og beindist athygli lögreglunnar að mestu að ókunnuga manninum í regnfatnaðinum.

5. nóvember 2016

Klukkan 13.36 létust Louise og ófætt barn hennar af völdum áverkanna sem árásarmaðurinn hafði veitt þeim. Hún hafði verið stungin 11 sinnum í bringuna, bakið, axlir og rasskinnar. Að auki var hún með skurði á hnakka, höfði og fótleggjum.

Næstu vikur vann lögreglan linnulaust að rannsókn málsins. Meðal annars var leitað í ruslatunnum, vatni og holræsakerfinu að morðvopninu en án árangurs.

3. febrúar 2017

Lögreglan tilkynnti að greidd yrðu verðlaun sem nema um 1,6 milljónum íslenskra króna fyrir upplýsingar sem myndu verða til þess að morðinginn fyndist. Það voru íbúar í Herlev sem höfðu safnað peningunum. En fáar ábendingar bárust.

2. nóvember 2017

Lögreglan birti myndband af hugsanlegum morðingja. Þetta var stutt brot úr eftirlitsmyndavél á Tornerosevej nærri Elverparken. Á upptökunni sést maður, sem líkist þeim sem vitnið í garðinum mætti, koma frá Elverparken strax eftir morðið.

14. desember 2018

Lögreglan fann hníf sem var talin tengjast málinu. Rannsókn leidd í ljós að svo var ekki. Í tengslum við þetta sagði lögreglan að hún lifði enn í voninni um að hægt yrði að leysa málið.

6. maí 2022

Lögreglan tilkynnti að hún hafi handtekið 28 ára karlmann þann 5. maí og sé hann grunaður um að hafa myrt Lousie og ófætt barn hennar. Maðurinn sat þá í fangelsi þar sem hann afplánar dóm sem hann hlaut fyrir morðtilraun.

Hann var færður fyrir dómara á föstudaginn þar sem lögreglan krafðist gæsluvarðhalds yfir honum.

Það sem kom fram fyrir dómi

Fyrir dómi kom fram að maðurinn og Louise þekktust ekki og að svo virðist sem algjör tilviljun hafi ráðið því að Louise var banað.

En það sem vakti mesta athygli var þegar lögreglan skýrði frá hvað liggur að baki handtökunni. Til þess beitti hún aðferð sem hún hefur aldrei áður beitt. Naut hún aðstoðar dönsku leyniþjónustunnar við rannsóknina.

Aðferðin sem beitt var er að flugumanni að nafni „Frank“ var komið fyrir í sama fangelsi og hinum handtekna. „Frank“ (sem er dulnefni) er lögreglumaður. Verkefni hans var að vingast við hinn handtekna í þeirri von að hann myndi ræða um morðið. Hlerunarbúnaði var komið fyrir í klefa mannsins.

Maðurinn hefur margoft komið við sögu lögreglunnar, meðal annars fyrir morðtilraun gegn konu sem hann tengdist nánum böndum. Auk þess hefur hann hlotið dóma fyrir mörg gróf ofbeldisbrot og hótanir.

Maðurinn var yfirheyrður nokkrum dögum eftir morðið á Louise en vildi ekkert kannast við það og lögreglan hafði engin gögn í höndunum sem tengdu hann við það. Engin lífsýni fundust á vettvangi og morðvopnið hefur aldrei fundist.

„Frank“ var komið fyrir í klefa við hliðina á klefa hins handtekna. Hann var sagður sitja inni vegna rannsóknar á morði í Portúgal.

Hann náði að byggja upp samband við hinn handtekna og þeir eyddu miklum tíma saman í klefum sínum og í gönguferðum. Í samræðum þeirra skýrði hinn handtekni frá einu og öðru varðandi morðið að fyrra bragði. Þar á meðal atriðum sem lögreglan hefur haldið algjörlega leyndum. Af þeim sökum er hún fullviss um að maðurinn hafi myrt Louise.

Hann neitar sök en vildi ekki tjá sig fyrir dómi á föstudaginn. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 2. júní og var gert að gangast undir geðrannsókn.

Ástæðan fyrir að Leyniþjónusta dönsku lögreglunnar, PET, aðstoðaði við rannsóknina er að hún þarf ekki dómsúrskurð til að grípa til hlerana á borð við þær sem voru gerðar í fangaklefa mannsins né til að láta lögreglumenn starfa undir fölsku flaggi. Lögreglan þarf á hinn bóginn dómsúrskurð til að grípa til slíkra aðgerða og geta þeir aðeins verið tímabundnir og því ekki vænleg leið í þessu máli að mati lögreglunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 1 viku

Vísindamenn telja að kynlíf geti unnið gegn frjókornaofnæmi

Vísindamenn telja að kynlíf geti unnið gegn frjókornaofnæmi
Pressan
Fyrir 1 viku

Karl Bretaprins þáði hundruðir milljóna frá katörskum sjeik

Karl Bretaprins þáði hundruðir milljóna frá katörskum sjeik
Pressan
Fyrir 1 viku

Þessi níu einkenni Ómíkron koma oft fram hjá fullbólusettum

Þessi níu einkenni Ómíkron koma oft fram hjá fullbólusettum
Pressan
Fyrir 1 viku

Ef þú getur ekki gert þetta í 10 sekúndur er útlitið svart

Ef þú getur ekki gert þetta í 10 sekúndur er útlitið svart
FréttirPressan
Fyrir 1 viku

Hæstaréttardómari tekinn nakinn á rúntinum í þriðja sinn á árinu

Hæstaréttardómari tekinn nakinn á rúntinum í þriðja sinn á árinu
Pressan
Fyrir 1 viku

Þetta verður um auðæfi Bill Gates að honum látnum

Þetta verður um auðæfi Bill Gates að honum látnum