fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Pressan

Pólverjar vara við hættulegu förufólki frá Hvíta-Rússlandi – Tengjast Rússlandi og misnota dýr kynferðislega

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 1. október 2021 17:00

Landamæri Póllands (t.v.) og Hvíta-Rússlands (t.h.). Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sumt af því förufólki sem hefur komið til Póllands frá Hvíta-Rússlandi síðustu sex mánuði er mjög öfgasinnað, tengist Rússlandi og misnotar dýr kynferðislega. Þetta segir pólska ríkisstjórnin og framlengir neyðarástandreglur sem eru í gildi í landinu og vísar til þess að öryggi ríkisins stafi ógn af hluta af þessu förufólki.

Ríkisstjórnin lagði fram sannanir í formi ljósmynda en þær eiga að vera úr farsímum förufólks. Samkvæmt opinberum skrám reyndu 9.400 að komast inn í landið í ágúst en 8.200 var vísað á brott. Hinir 1.200 eru nú í pólskum flóttamannabúðum. Hjá þessu fólki fundust að sögn sannanir fyrir „glæpsamlegri fortíð, þar á meðal um tengsl við hryðjuverkasamtök,“ auk sannana fyrir að fólki tengist Rússlandi.

„Það komst upp um förufólk sem hefur hlotið bardagaþjálfun og er með reynslu í vopnanotkun. 20% tengdust Rússlandi, sumir áralöng,“ sagði talsmaður Mariusz Kaminski, innanríkisráðherra, á fréttamannafundi og sagði að förufólkið „geti ógnað þjóðaröryggi alvarlega“.

Á fréttamannafundinum kynntu Kaminski og Mariusz Blaszcak, varnarmálaráðherra, ljósmyndir af leynilegum fundum hryðjuverkahópa, líkum, afhöfðunum og vélbyssum. Sannanirnar fyrir tengslum við Rússland voru farmiðar, miðar á fótboltaleiki og myndir frá ferðamannastöðum. Gögnin hafa ekki verið afhent öðrum svo ekki hefur verið hægt að kanna hvort þau séu fölsuð.

Á fundinum voru einnig birtar kynferðislegar myndir af börnum og af manni sem er að misnota dýr kynferðislega, lýklegast kýr. Myndin var sögð sönnun fyrir dýraníði sem verði að vernda Pólland fyrir.

„Það efni sem við sýnum hér sýnir þann vanda sem landamæraverðir og hermenn standa frammi fyrir á landamærunum. Það er svona fólk sem gerir áhlaup á pólsku landamærin,“ sagði varnarmálaráðherrann að sögn The Independent.

Ríkisstjórnin ætlar af þessum sökum að framlengja neyðarástandsreglur við landamærin um tvo mánuði en þær voru settar í byrjun september.  Samkvæmt þeim eiga hermenn að halda fjölmiðlafólki og hjálparsamtökum frá landamærunum. Vaxandi áhyggjur hafa verið af mannréttindabrotum við landamærin því sífellt fleira förufólk finnst látið þar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt