fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Matur

Það sem Anna Guðný heilsumarkþjálfi og matarbloggari borðar á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 2. apríl 2019 15:00

Mynd: Ingibjörg Torfadóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Guðný Torfadóttir hefur mikla ástríðu fyrir bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Hún hefur nýlokið námi í heilsumarkþjálfun og heldur úti heimasíðunni heilsaogvellidan.com. Anna Guðný er með netnámskeiðið Endurnærðu þig og kennir þerapíuna Lærðu að elska þig. Hún hefur gefið út rafræna uppskriftarbók, Njóttu, og deilir einnig ljúffengum og hollum uppskriftum á síðunni sinni. Anna Guðný er einnig vegan og hefur verið það um nokkurt skeið.

DV vildi vita hvað heilsumarkþjálfi og matarbloggari borðar á venjulegum degi.

Anna Guðný Torfadóttir. Mynd: Ingibjörg Torfadóttir

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

„Flesta daga nýt ég þess að vera með litla stráknum mínum sem að er dýrmætasti ,,skóli’’ sem ég hef farið í. Við reynum að fara mikið út í náttúruna ásamt því að hafa dagana afslappaða og njóta núlíðandi stundar. Ég hef samt 2-3 daga í hverri viku til þess að sinna minni vinnu ásamt því að nýta kvöldin vel þegar að sonur minn sefur. Það er því enginn dagur eins hjá mér og dagarnir mjög fjölbreyttir sem að mér finnst mjög skemmtilegt,“ segir Anna Guðný.

Ertu búin að ákveða fyrir fram hvað þú ætlar að borða þann dag eða ferðu eftir tilfinningunni?

„Ég fer mestmegnis eftir tilfinningunni en huga þó að því að setja það í bleyti á kvöldin sem ég þarf næsta dag og það gæti t.d. verið möndlur, hafrar og baunir.“

Hvað hefurðu verið vegan lengi?

„Góð spurning. Ég man það ekki nákvæmlega því það gerðist algjörlega að sjálfu sér að ég missti lystina fyrir öllu því sem að ekki er vegan. En ég held að það séu að verða komin allavega tvö ár. En fyrir það var ég búin að taka rosalega mikið til í mataræðinu og var þá búin að taka út mjólkurvörur, glúten og unninn sykur.“

Hverjir eru uppáhalds vegan próteingjafarnir þínir:

„Ég elska hummus, chia fræ, kínóa, linsubaunir, hempfræ, möndlusmjör og hnetusmjör. Stundum geri ég mér súkkulaðisjeik með súkkulaðipróteinduftinu frá Pulsin, það er svindl gott.“

 

Þessar tvær uppskriftir má finna í uppskriftarbók Önnu Gyðnýjar, Njóttu.

Þetta borðar Anna Guðný á venjulegum degi

Morgunmatur:

Ég byrja daginn á því að fá mér vatn og fæ mér ekki að borða fyrr en kannski 2-3 tímum eftir að ég vakna.  Mér finnst það gera mér mjög gott að kreista ½ sítrónu út í vatnið. Sellerísafi fylgir oftast fljótlega á eftir vatninu en það er eitthvað það besta sem ég geri fyrir mína heilsu og vellíðan að hafa hann með í morgunrútínunni. Ég er nýbúin að vera að standa í flutningum og datt hann þá út úr rútínunni og er ég búin að vera að „kreiva“ í hann síðan. Hann mun því fá að koma aftur inn í rútínuna enda algjör galdrasafi.

Sirka þremur tímum eftir að ég vakna fæ ég mér oftast grænan þeyting/chia graut/hafragraut/berjaþeytingsskál með múslí – það er mjög misjafnt og fer bara eftir í hvaða stuði ég er í og hvað líkaminn minn þarfnast hverju sinni.

Hádegismatur:

Ég reyni að elda alltaf það mikið í kvöldmat svo það sé afgangur í hádeginu daginn eftir. En ef ekki, þá baka ég oft það grænmeti sem ég á, sýð kínóa/hýðishrísgrjón og ber fram með kasjúsósu, fersku salati og avókadó.

Millimál:

Það fer voða mikið eftir því hvað ég fékk mér í morgunmat. Ef ég fékk mér ekki grænan þeyting í morgunmat þá verður hann oft fyrir valinu hér annars finnst mér gott að skera niður grænmeti og borða með hummus. Einnig er niðurskorið lífrænt epli með möndlusmjöri í miklu uppáhaldi hjá okkur mæðginunum ásamt því að setja fullt af frosnum ávöxtum í matvinnsluvél þannig að til verði ljúffengur ís.

Kvöldmatur:

Það fer oftast bara eftir því hvað til er í ísskápnum og í hvernig stuði ég er í. Ég elska t.d. að gera næringarmiklar súpur og pottrétti í stórum skömmtum til að geta fryst afganginn og átt til þegar að maður er ekki í stuði til að elda. En ef ég mætti ráða þá myndi ég borða mexíkanskan mat alla daga – það er eitthvað sem ég fæ aldrei leið á.

Súkkulaðipróteinkúlur

Anna Guðný deilir gómsætri uppskrift að súkkulaði próteinkúlum með lesendum.

Súkkulaðipróteinkúlur

  • 300g döðlur
  • 200g kókosmjöl
  • 100g möndlusmjör
  • 1 dl hrákakó
  • 1 dl súkkulaðibaunaprótein
  • 4 msk kókosolía
  • 1/2 tsk vanilluduft
  • gróft salt
  1. Settu öll innihaldsefnin saman í matvinnsluvél og láttu hana vinna vel og lengi eða þar til að þetta er allt vel blandað saman.
  2. Svo býrð þú til kúlur með því að þjappa deiginu saman í lófanum og pressa því saman kúlur. Þú gætir haldið að deigið sé of þurrt en það er það ekki.
  3. Settu kúlurnar á stórt fat og ekki hafa þær þétt upp við hvora aðra. Kældu svo.
  4. Þegar að kúlurnar hafa kólnað er flott að setja þær í fallegt ílát og geyma þær svo í ísskápnum. Ef að magnið er of mikið fyrir þig þá er upplagt að taka helminginn og frysta í loftþéttu ílát.

Ef að döðlurnar eru frekar harðar þá mæli ég með því að leggja þær í bleyti yfir nóttu eða setja þær í heitt vatn í 20 mínútur. Helltu svo öllu vatninu af döðlunum og þerraðu þær aðeins áður en þú notar þær. Hafðu í huga að þú þarft sennilega minna af blautefnunum í uppskriftinni ef að þú bleytir döðlurnar.

Kúlurnar geymast best í kæli og mæli ég með að njóta þeirra beint þaðan. Gott er að hafa í huga að þær geymast ekkert rosalega lengi við stofuhita og munu fljótt molna þannig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa