fbpx
Miðvikudagur 23.september 2020

Satt eða logið

Ritstjórn DV
Mánudaginn 18. apríl 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftirlitshlutverk Alþingis byggir á því að þingmenn veiti ráðherrum og framkvæmdavaldi nauðsynlegt aðhald. Það er hins vegar ekkert í lögum um ráðherraábyrgð sem segir til um ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi, ef hann greinir rangt frá, gefur þingmönnum og þinginu villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum sem mikilvægar eru fyrir meðferð mála á Alþingi. Frumvarp í þessa veru var þó fyrst lagt fram árið 1993 og fyrsti flutningsmaður var Jóhanna Sigurðardóttir. Mál í svipuðum dúr hefur oft verið lagt fram eftir það en ekki náð fram að ganga.

Lög um ráðherraábyrgð

Lög um ráðherraábyrgð eru að stofni til frá 1963 og hefur lítið verið breytt frá þeim tíma. Þau kveða á um ábyrgð ráðherra á stjórnarframkvæmdum og hvenær megi krefja ráðherra ábyrgðar. Meginreglan er sú að það skuli gert ef ráðherra hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu. Lög um ráðherraábyrgð taka hins vegar ekki sérstaklega til ábyrgðar ráðherra á að veita Alþingi réttar upplýsingar.

Ein af ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna var að Alþingi hafi ekki náð að rækja eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdarvaldinu með nægilega öflugum hætti. Undir þetta tók þingmannanefndin sem fjallaði um skýrsluna. Lögð var áhersla á að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og meðal annars lagt til að þingskaparlög, lög um ráðherraábyrgð og landsdóm yrðu endurskoðuð með þetta að leiðarljósi.

Þingskapalög

Við endurskoðun þingskapalaga í kjölfar vinnu þingmannanefndarinnar 2010 var eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu styrkt til muna. Þar er meðal annars kveðið á um að ráðherra skuli leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á máli sem er til meðferðar. Þessi skylda tekur til svara við fyrirspurnum frá alþingismönnum, við sérstakar umræður, við skýrslugerð, umfjöllun um þingmál og frumkvæðisathugun fastanefnda þingsins, hvort sem upplýsingagjöfin er að frumkvæði ráðherra eða samkvæmt beiðni þingsins. Í þingskapalögum er hins vegar ekki kveðið á um afleiðingar þess að upplýsingaskyldan sé virt að vettugi. Ekki er heldur fjallað sérstaklega um almenna sannleiksskyldu ráðherra í upplýsingagjöf til Alþingis. Heildarendurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm hefur ekki ennþá farið fram þrátt fyrir einróma samþykkt Alþingis um að það skuli gera.

Enginn vafi

Það þyrfti að taka af öll tvímæli um að lög um ráðherraábyrgð taki til upplýsingagjafar ráðherra til Alþingis og að hann verði að sæta tilgreindum viðurlögum, brjóti hann þá skyldu. Ábyrgð ráðherra ætti að skapast annars vegar ef hann veitir Alþingi rangar eða villandi upplýsingar og hins vegar ef hann leynir upplýsingum sem hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Slíkt ákvæði er í dönskum lögum um ráðherraábyrgð og í Noregi var almenn upplýsingaskylda ráðherra til Stórþingsins sett í stjórnarskrá árið 2007 og á sama tíma var lögð refsing við því ef ráðherra vanrækir þá skyldu í lögum um ráðherraábyrgð.

Lýðræði

Það er grundvallarforsenda lýðræðis að þjóðkjörnir fulltrúar hafi réttar upplýsingar til þess að byggja ákvarðanatöku sína á. Rangar upplýsingar geta hæglega leitt til þess að þingið komist að annarri niðurstöðu en ella. Skortur á upplýsingagjöf getur leitt til trúnaðarbrests milli þings og ráðherra eins og nýleg dæmi sanna hér á landi. Svo að Alþingi geti sinnt eftirlitshlutverki sínu sem skyldi verða þingmenn að fá nægilegar, réttar og greinargóðar upplýsingar um þau mál sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Í niðurstöðum vinnuhóps um siðferði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið var lögð áhersla á mikilvægi upplýstra skoðanaskipta og rökræðna fyrir aukið aðhald þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. En við erum í vanda ef ráðherrar segja ekki satt og halda upplýsingum frá þinginu. Skýr ákvæði í lög skortir til að taka á þeirri stöðu hér á landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Ung dóttir hélt lífi í honum þegar baráttan við þunglyndi var erfið

Ung dóttir hélt lífi í honum þegar baráttan við þunglyndi var erfið
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Eyðilagði þrjá vörubíla og traktor fyrir tugi milljóna við Elliðaárdalinn – Sagðist vera starfsmaður hjá öðru iðnaðarfyrirtæki

Eyðilagði þrjá vörubíla og traktor fyrir tugi milljóna við Elliðaárdalinn – Sagðist vera starfsmaður hjá öðru iðnaðarfyrirtæki
Fyrir 16 klukkutímum

Veiði lokið í Efri-Haukadalsá

Veiði lokið í Efri-Haukadalsá
Fyrir 16 klukkutímum

Lítið veiðiveður í Djúpinu í gær

Lítið veiðiveður í Djúpinu í gær