Færslan sem Elliði skrifaði var svona:
„Þá er Magga Stína búin að tryggja frið á Gasa. Ætli við getum fengið hana til að kíkja á Daða Má upp í fjármálaráðuneyti þegar hún kemur heim?”
Elliði skrifaði pistil um viðbrögðin við færslunni á Vísi þar sem hann útskýrir málið.
„Þegar ég vaknaði í gær las ég frétt um að það væri kominn friður á milli Hamas og Ísrael. Það gerðist daginn eftir að Magga Stína kom á staðinn. Stuttu seinna las ég frétt um að stýrivextir yrðu óbreyttir í hæstu hæðum. Mér flaug í hug hvort að Magga Stína myndi ekki bara redda þessu næst. Mér fannst þetta fyndin tilhugsun, svona eins og Magga Stína væri okkar nútíma Marvel hetja sem mætti á staðinn þegar þörf væri á,“ segir Elliði sem segist hafa sett fyrrnefnda færslu á Facebook á meðan hann drakk fyrsta kaffibollann.
„Það var svo eins og við manninn mælt. Fyrsta líflátshótunin kom 18 mínútum seinna og vinstri sinnaðir vókistar kepptust við að fordæma þennan „ósmekklega“, „“óviðeigandi“ og „ófyndna“ status. Fyndnast þótti mér þegar ein sendi mér þetta: „Djöfull ertu ömulega (sic) viðbjóðslegur að vera svona ókurteis við Möggu Stínu“.
Ef marka má athugasemdir við færslu Elliða voru margir þeirrar skoðunar að hann hefði gengið of langt, en sitt sýndist hverjum. „Það lekur af þér eineltið. Ekkert nýtt annars,“ sagði til dæmis einn.
Elliði segir í pistli sínum að eitt af því sem „vókisminn“ færði okkur hafi verið fordæmingin á grín.
„Þjóðin sem eitt sinn veltist um af hlátri þegar Spaugstofan hæddist að biskupnum hikar nú við að brosa að bröndurum um kommúnista. Lífsseig kómedía tvíhöfða, rasískur undirtónn næturvaktarinnar og ódauðlegir frasar Svínasúpunnar valda samviskubiti. Gerð er krafa um að grínistarnir biðjist afsökunar á þeim afglöpum að hafa sagt þessa „smættandi“ brandara,“ segir Elliði sem telur okkur vera á rangri braut.
„Grín var fyrir skömmu tæki til að segja það sem ekki mátti segja beint. Það var ventill sálarinnar og samfélagsins. Leið þess til að losa um spennu, ögra, sýna ósamræmið milli orða og verka. Í dag er þessi ventill að hverfa. Hann er stíflaður af vókisma. Nú þarf hver brandari að standast siðferðislegt próf. Ef einhver getur mögulega móðgast er brandarinn fordæmdur,“ segir Elliði enn fremur.
Hann fer ítarlega yfir málið í grein sinni og segir að fræðin staðfesti að ákveðin hugmyndafræðileg tilhneiging tengist minna þoli fyrir húmor. Vísar hann í niðurstöðu rannsóknar máli sínu til stuðnings.
„Í SAGE-rannsókninni „Where’s Your Sense of Humor? Political Identity Moderates Evaluations of Disparagement Humor“ (2022) kom í ljós að þeir sem samsvara sig helst við voke-menningu (vinstrimenn) voru mun líklegri til að skynja brandara sem móðgandi. Íhaldssamir (hægrimenn) tóku aftur á móti gríni mun léttara. Þau hlógu og höfðu gaman af, jafnvel þótt það færi yfir hefðbundin mörk. Þetta þýðir í einföldu máli: Hversu fyndið þér þykir eitthvað er ekki alltaf bara smekksatriði, það er stundum til marks um hvar þú stendur í pólitík,“ segir hann meðal annars.
Elliði skrifar á mun ítarlegri hátt en hér er tíundað og má lesa grein hans í heild sinni hér.
Hann segir að lokum að það þurfi hugrekki til að hlæja og enn meira hugrekki til að segja brandara sem ögra.
„Við eigum þeim grínistum sem ekki hafa beygt sig í duftið fyrir vókismanum mikið að þakka. Til að nefna einhverja vil ég nefna Sveppa, Hugleik Dagsson og Jón Gnarr. Ég vil líka þakka fjölmiðlamönnum eins og Stefáni Einari og Jakobi Bjarnari fyrir hið sama þótt það komi úr aðeins annarri átt. Þá eiga þingmenn eins og Jens Garðar, Sigmundur Davíð og Inga Sæland hrós skilið fyrir að láta það eftir sér að hafa gaman, segja brandara og gera grín að sjálfum sér og öðrum. Húmor krefst þess að við viðurkennum að við erum öll mannleg, og stundum fáránleg. Það er í lagi að gera grín, líka þegar aðrir velja að móðgast. Ef vókisminn nær tökum þá takmörkum við hláturinn, og með honum, hluta af mennskunni.“