fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Fréttir

Úlfar lætur allt flakka um uppsögnina og ástand kerfisins: „Eftir því sem apinn klifrar hærra upp í tréð, því betur sést í rassgatið á honum“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 23. maí 2025 20:09

Úlfar Lúðvíksson. Mynd: Skjáskot RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, vill að Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins, segi af sér. Úlfar segir háttsetta embættismenn innan dómsmálaráðuneytisins getulausa til að taka á málefnum landamæra Íslands.  16. nóvember hefði fimm ára skipunartíma Úlfars lokið þannig að það þurfti að tilkynna honum fyrir 16. maí ef ekki ætti að endurnýja skipunartíma hans. 

„Ég fæ fundarboð seint á föstudegi í tölvupósti frá ritara ráðherra og þau eru tiltölulega einföld, á þá leið að dómsmálaráðherra vilji hitta mig á mánudag á sinni skrifstofu klukkan 11. Þetta gengur nú tiltölulega hratt fyrir sig. Hún segir mér frá að hún hyggist leggja fram frumvarp á haustþingi og ræðir síðan verkefni sem eru í dag hjá ríkislögreglustjóra, hugsanlegan flutning þeirra suður með sjó og það stefni í það að þetta embætti muni stækka og í framhaldi af því þá segir hún mér að hún ætli að auglýsa þessa stöðu. Og við þau skilaboð þá svona hrekkur maður aðeins í kút en lætur sér nú samt ekki bregða. Á sama tíma þá orðaði hún við mig að ég gæti nú ef ég hafi áhuga á því farið austur á firði og þá með flutningi. Þegar þarna er komið sögu þá bara stoppa ég  fundinn og segi við ráðuneytisstjórann, Hauk Guðmundsson, að við þessi tíðindi þá hafi ég tekið ákvörðun um það á staðnum að ganga út og og ég fór þess á leit við þau að það yrði gerður við mig starfslokasamningur eins og þið þekkið. Og síðan bara þakka ég fyrir mig og var farinn,“

segir Úlfar í viðtali við Stefán Einar Magnússon í Spursmál í dag.  (Viðtalið hefst á mínútu 37,25). Aðspurður um hvort hann hafi sagt upp í fússi segist Úlfar þekkja kerfið vel eftir tæpa 40 ár vinnu í þjónustu ríkisins. 

Stefán Einar Stefánsson

Segir minnisblað ráðuneytisstjóra vera hvítþvott

„Bara ákvörðun sem ég tek, ég er þannig karakter, ég bara tek ákvörðun og stend með henni. Ég held að þessi ákvörðun mín hafi verið góð, ég er sáttur við hana og mér þykir aðdragandinn reyndar einkennilegur. Það er fortíð. Ég er aftur á móti tilbúinn til þess að tjá mig sem frjáls maður. Ég er núna ekki í starfssambandi við nokkurn aðila og ekki ríkisvaldið. Þannig að ég kem hingað sem frjáls maður, almennur borgari. Almennur borgari og það hugnast mér afskaplega vel á þessu stigi máls.“

Úlfar segir að um hvítþvott sé að ræða þegar Haukur Guðmundsson segist hafa lagt minnisblað fyrir ráðherra á mánudagsmorgninum. Það hafi blasað við þegar hann fékk fundarboð um fund á föstudeginum áður að búið hafi verið að taka ákvörðun um að auglýsa stöðu hans. Aðspurður um hvað hafi staðið í minnisblaðinu segist hann ekki hafa séð það.

„Ráðherra hafði lýst því áður í tveimur símtölum og verið afskaplega ánægð með mín störf. Hún lýsti því jafnframt yfir á þessum fundi okkar, en vildi ekki missa mig úr hópi lögreglustjóra en hún vildi bersýnilega missa mig eða losa sig við mig af sviðinu, sem þá held ég sérstaklega af flugvellinum.“

Aðspurður um boðað frumvarp ráðherra og hvort að samkvæmt því þurfi einhverja sérþekkingu sem Úlfar búi ekki yfir segir hann: 

„Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og eins Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, þekkja þetta afskaplega vel. Tillögur að þessum úrræðum sem núverandi ráðherra hefur fjallað um. Þetta er í raun og veru beiðni sem kemur frá Suðurnesjum. Við erum búin að tala fyrir þessu í mörg ár. Ég og mínir starfsmenn, við erum sérfræðingar í málefnum á landamærum. Löggæsluverkefni á landamærum þekkjum við best og í röðum embættis eru helstu sérfræðingar þjóðarinnar á þessu sviði.“

Úlfar segir málið ekki bara snúast um smávægilegar breytingar á verkefnastöðu lögregluembættisins á Suðurnesjum:

„Menn þurfa að horfa til þess meira að segja hver mín verkefni hafa verið frá 16. nóvember 2020. Það er afstaðin ellefu eldgos á Reykjanesi. Þetta eru flóknustu hamfaraaðgerðir í sögu þjóðar. Við erum með eldgos í námunda við höfuðborg landsins. Gríðarlega verðmætir og fjölfarnir ferðamannastaðir samanber Bláa lónið. Þetta hefur allt gengið vel hingað til. Misstum mann í Grindavík og það var gríðarlega sárt og þungt, en að öðru leyti þá hefur þetta gengið vel. Við erum að horfa á þetta í dálítið stóru samhengi. Þetta er gríðarlega stórt embætti, þetta er lögregluembætti. Þarna er öflug rannsóknardeild og lögfræðisvið embættisins er mjög gott. Það starfa rúmlega hundrað manns í flugstöðinni.“

Jón Gunnarsson. Mynd: Ernir
Guðrún Hafsteinsdóttir. Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn.

Segir sögu landamæra Íslands sorglega

Úlfar segir að frá inngöngu Íslands í Schengen árið 2021 hafi það blasað við sé árangurinn kannski ekki merkilegur. „En saga þessara landamæra er í raun og veru bara sorgleg. Það er nú einhvern veginn þannig að landamæraeftirlit, við getum ekki talað um kerfisbundið landamæraeftirlit á innri landamærum, en landamæraeftirlit á innri landamærum á Keflavíkurflugvelli hefur raunar ekki verið neitt og það er engar fleipur. Og ég meina, ef að ekki má tala um það sem er virkilega slæmt, við erum að tala um þjóðaröryggi og þjóðarhag. Það verður breyting þegar ég kem þarna. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þessu samstarfi og fyrir mig var einstaklega athyglisvert að koma þarna inn og reka hausinn inn og svipast um og eiga samtöl við starfsmenn sem voru búnir að vera þarna sumir hverjir í áratugi. Fékk þetta dálítið frá grasrótinni hvernig þessum rekstri væri háttað. Ég gerði hérna skipulagsbreytingar á embættinu 2021, þurfti að losa um yfirmenn sem voru ekki að gera það sem eða framfylgja minni stefnu. Og við sjáum það í dag að á síðustu árum þá hafi verið gríðarleg breyting eða í raun og veru bylting í eftirliti á innri landamærum. Innri landamærin eru okkar vandamál. Ytri landamærin eru nokkuð örugg.“

Úlfar útskýrir muninn á ytri og innri landamærunum, segist ekki hafa unnið vinnuna einn og hrósar samstarfsmönnum sínum og undirmönnum.

„Almenningur þarf auðvitað að velta því fyrir sér og gera sér grein fyrir því hvað er í raun og veru að gerast innan stjórnsýslunnar. Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, er búinn að sitja þar frá 2017, átta ára tímabil. Haukur á sæti í þjóðaröryggisráði. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á sæti í þjóðaröryggisráði ásamt dómsmálaráðherra. Sigríður Björk er búin að sitja þarna frá 2020.  Ef við horfum á ríkislögreglustjóra, hún er á Suðurnesjum frá 2009-2014. Það var lítið að frétta. Hún færir sig yfir til höfuðborgarinnar og á þessu tímabili þá er eftirlit með útlendingum. Ég er aldrei að tala um einhverja heiðvirða borgara. Sem sagt, eftirlit með þeim sem við viljum ekki fá inn í landið var ekki til staðar á innri landamærunum. Þá er hún að tala um Schengen-ríkin. Þetta eru þarna fjögur, fimm hundruð milljónir sem búa inni á svæðinu. Og vitneskja um það að ytri landamærin annars staðar en hjá okkur, til að mynda niður við Miðjarðarhaf, eru hriplek. Á þessu tímabili, allt fram til 2021, þá streymir allt þetta lið inn í landið eftir Evrópuflugið. Bara viðstöðulaust, það er lítið sem ekkert eftirlit.“

Sjá einnig: Haukur skammaði Úlfar:Misboðið vegna ummæla í Morgunblaðinu

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri
Haukur Guðmundsson. Mynd: Dómsmálaráðuneytið.

Segir ríkislögreglustjóra og ráðuneytisstjóra hafa vitað af öryggisbresti landamæra í áraraðir og ekkert aðhafst

Úlfar segir að full vitneskja sé innan stjórnsýslunnar um að flugfélög skiluðu og skili ekki farþegalistum eins og lög kveða á um. Hann hafi ákveðið að greina almenningi frá því þegar ljóst var orðið að stjórnsýslan ætlaði ekki að taka á málinu.

„Ég var svo sem skammaður fyrir það. Þetta er auðvitað bara almennt getuleysi hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum efst á stiga þessa samfélags. Það eru líka átta minnisblöð í dómsmálaráðuneytinu frá upphafi síðasta árs frá mér. Það er nú háttur Hauks Guðmundssonar ráðuneytisstjóra, að helst svara ekki tölvupóstum. Þannig að ég líki þessu stundum við svarthol. Þetta bara fer inn og hverfur inn í myrkrið. Engin viðbrögð.“

Úlfar segir Hauk og Sigríði Björk hafa vitað af öryggisbresti á landamærunum í Keflavík í áraraðir án þess að hafa nokkuð aðhafst og aðhyllst þannig leyndarhyggju gagnvart almenningi. Eins og áður sagði hafi Sigríður Björk unnið þar árin 2009 til 2014.

„Þarna flæðir inn fólk án þess að við vitum hverjir þarna eru á ferð og það flæðir bara inn. Það er ekkert verið að hafa eftirlit með þessu fólki. Það verður síðan stór breyting á, við sjáum það 2022. Það tók auðvitað tíma fyrir mig að snúa þessu skipi aðeins við, en þarna erum við að tala um leyndarhyggju gagnvart almenningi.“

Úlfar segir að horft til öryggissjónarmiða hafi Ísland aldrei átt að fara í Schengen samstarfið.

„Og ég segi það hér sem frjáls borgari þessa lands og ekki er ég að segja hér frá ríkisleyndarmálum, alls ekki, það ætti að vera krafa hvers manns að þessi tiltekni ráðuneytisstjóri, Haukur Guðmundsson, og núverandi ríkislögreglustjóri taki pokann sinn. 

Löggæslumál á Íslandi eru ekki á góðum stað. Þú þekkir það bara af umræðu af glæpahópum. Erlend glæpagengi sem eru í dyravörslu í höfuðborginni. Það er svo svo margt og þegar ríkislögreglustjóri er farinn að tala um vörur og viðskiptavini og lögreglufólk, þá erum við ekki á réttum stað. Ég segi við þurfum allan daginn bara öflugan ríkislögreglustjóra sem talar til þjóðarinnar og gerir sínar kröfur svo allir skilji. Mér finnst það hafa algjörlega skort í tíð núverandi ríkislögreglustjóra svo það sé nú sagt.“

Úlfar bendir á að rúmlega 700 einstaklingum var vísað frá í fyrra.  „Þetta eru einstaklingar sem eru hættulegir, óæskilegir í íslenskt samfélag. Þeir geta verið komnir inn til þess að vinna svart eða brjóta af sér og það er þó fyrst og fremst í sölu og dreifingu fíkniefna. Það dugar ekki að segja að það séu tuttugu, átján, sautján glæpahópar starfandi á Íslandi ef að lögreglustjóri landsins hefur ekki hugmynd um hverjir þetta eru.“

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra

Nýr dómsmálaráðherra hafi enn ekki heimsótt embættið á Suðurnesjum

Aðspurður aftur um ástæðu þess að stóð til að auglýsa stöðu hans segir Úlfar að núverandi dómsmálaráðherra hafi ekki enn heimsótt embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Segir Úlfar það mjög óvenjulegt, en hann hafi verið í tíðum samskiptum við bæði Jón og Guðrúnu. 

„Ég var rekinn, það heitir það á góðu máli. Ég meina, alveg sama hvað lögfræðingurinn Þorbjörg segir. Þetta er bara, þetta er svona, þetta er bara skilaboð um það: Komdu þér í burtu vinur. Þú getur farið austur á firði. Það er fínt að vera þar og ég meina, ég er ekki að segja þetta vegna þess að það sé slæmt að vera á Austfjörðum. En fyrir mig þá var þetta bara uppsögn.“

Úlfar segir að í kjölfar þess að honum var sagt upp hafi ekki verið haft við staðgengil hans, Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, til að reka embættið tímabundið. Farin hafi verið sú leið að setja nýjan lögreglustjóra tímabundið. Úlfar segist ekkert hafa við hann að athuga, en „þarna er gengið fram hjá mjög hæfum starfsmanni sem var vel treystandi til þess að reka þetta embætti tímabundið. Kerfið auðvitað bara spinnur þetta eins og það hentar því best. Þannig að eins og ég horfi á hlutina þá er Haukur Guðmundsson bara ríki í ríkinu og fyrir þessa þjóð þá held ég að þessi maður þurfi að víkja úr embætti.“

Segir allt vera í klessu

Stefán Einar segir að þegar horft sé til fleiri málaflokka þá megi segja að allt sé í klessu og spyr hvort Úlfar hafi áhyggjur af því.

„Það er allt í klessu. Hefurðu áhyggjur af þessu? Miklar. Það er ekki bara það, það er fangelsismálin. Svo getur maður bara sem Íslendingur, frjáls maður, við þetta borð. Svo kíkir maður á samfélagsmiðlana. Það var nú DV í þessu tilfelli. Þá sér maður að þar birtist mynd af dæmdum morðingja. Maður sem tók annað líf. Bara aftaka. Með mjög sérstökum hætti þar sem hann er að spóka sig um í Grundarfjarðarkirkju og síðan á stíg við Kvíabryggju. Kvíabryggja er opið fangelsi. Þar sem menn eru læstir inni bara yfir bláa nóttina. Maðurinn var dæmdur í sextán ára fangelsi. Hann er búinn að afplána einhver fjögur ár en hann er þarna. Þetta gefur ekki góða mynd af stöðu mála hjá ykkur Íslendingum því miður.“

Vísar Úlfar þar til fréttar DV fimmtudaginn 15. maí um albanann Angjelin Sterkaj sem gifti sig fyrir stuttu í Grundarfjarðarkirkju. Sterkaj hlaut 16 ára dóm fyrir morð á landa sínum, Armando Beqirai, fyrir utan heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði í febrúar árið 2021. Sterkaj var dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir morðið í Héraðsdómi Reykjavíkur haustið 2021, dómurinn var þyngdur í 20 ár í Landsrétti en mildaður niður í 16 ár í Hæstarétti. Sterkaj sag í gæsluvarðhaldi frá 17. febrúar 2021 þar til dómur héraðsdóms var kveðinn upp 21. október sama ár. Hann hefur þannig í dag afplánað rúm 4 ár og 3 mánuði af 16 ára dómi.

Stefán Einar spyr hvaða mál Úlfar vísi til og svarar hann: „Tala um aftökuna þarna í Rauðagerði. Þar sem maður var tekinn af lífi. Utan heimilis. Og yfirvöld ráði ekki við þetta og þau geta ekki einu sinni haldið mönnum bak við lás og slá sem að vinna slík óhæfuverk. 

Sjá einnig: Angjelin Sterkaj gifti sig í Grundarfjarðarkirkju – Afplánar dóm fyrir morðið í Rauðagerði

Fangelsismálin eru í molum, fangelsi yfirfull. Forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Karl Lárusson, hann kvartar sáran yfir því að hann geti ekki haldið uppi eftirliti á landamærum landsins. Nú, hafnir landsins eru illa varðar. Aðstaða lögreglu á Akureyri og eins á á Austurlandi eru ekki góðar. Þetta er allt í skötulíki því miður. Ef ég er hreinskilinn, ef ég get gert þessari þjóð eitthvað gagn, þá þarf maður að segja af hlutunum eins og þeir eru.“

Leyndarhyggjan það alvarlegasta

Úlfar segir leyndarhyggjuna það alvarlegasta í málinu.

„Það sem þeim sárnar mest sem eru þarna fyrir ofan mig er það að þetta hafi gengið vel og ég skuli segja frá sullinu. Hvar liggja hagsmunir? Liggja þeir hjá þjóðinni eða liggja þeir hjá ráðuneytisstjóra á ráðherralaunum eða ríkislögreglustjóra sem spilar með? Það þarf enginn að segja mér það að ríkislögreglustjóri hafi ekki haft upplýsingar um það eða það hafi verið haft samtal við hana í aðdraganda þess að mín staða eða mér var tilkynnt um að mín staða yrði auglýst. Ef hún heldur öðru fram þá lýsir það bara gallaðri stjórnsýslu. Ef að ráðherrar og ráðuneytisstjóri hafi ekki tekið samtal við ríkislögreglustjóra áður en staða mín var eða þessi ákvörðun tekin að auglýsa stöðuna, þá lýsir það bara gölluðu kerfi.

Það er léttir fyrir Hauk Guðmundsson að losna við mig. Og það er léttir fyrir Sigríði Björk Guðjónsdóttur að losna við mig. Þetta er bara þannig. Af því að ég er dálítið krefjandi og ég geri kröfur. Ég banka á dyr. Ég vil að hlutir séu í lagi. En mér verður stundum ágengt.“

Úlfar segir honum sárna að við séum ekki í Evrópusambandinu.

„Við erum með skýrt regluverk. Við erum með skýrar heimildir í tollalögum. Og í tollunum er það bara skylda þessara flugfélaga að skila af sér þessum upplýsingum. Það er íslenska regluverkið. Það er engin forréttindi eða krafa erlends flugfélags að fljúga til Íslands og ef að erlent flugfélag mætir ekki íslenskum kröfum, þá hefur það ekkert hingað að gera. Þetta er einfalt. En þeir hafa komist upp með þetta  í níu ár. 

En það sem skiptir líka máli, því við erum að greiða fólki ágætis laun og á sama tíma situr þetta fólk í þjóðaröryggisráði, en það bregst því ekki við. Það gerist ekki neitt yfir svona langt tímabil. Og ef það eru ekki upplýsingar fyrir hinn almenna Íslending, þá veit ég hvar þær eiga að liggja. Eða eru bara að liggja inni á borði hjá Hauki Guðmundssyni. Vegna þess ef þau hefðu náð að ljúka þessu samkomulagi við Evrópusambandið eða byrja á því að praktísera íslensk lög, eins og hugmyndin var nú í upphafi, þá er hægt að breiða yfir þessa vitleysu alla og segja þetta, þetta var nú kannski ekki svo slæmt, sko. Nú er þetta komið í lag. En öryggisbresturinn er þessi, að svo lengi sem við þekkjum hafa þessar upplýsingar ekki skilað sér inn. Það er stórt mál og það er stórpólitískt mál.“

Gömul speki um apa

Aðspurður um hvað taki við hjá honum er Úlfar fáorður en segir það fjölskyldutengd verkefni úti í Danmörku. 

„Við verðum bara að sjá til, en svona í restina af því að það verður líka að vera dálítið gaman. Þegar mér er hugsað til þessara háu herra. Erum við að tala þarna um ráðuneytisstjóra Hafliða Guðmundsson og Sigríði Björk Guðjónsdóttur og jafnvel ráðherrann sem er nýlega kominn að þessu embætti. Það er gömul speki sem er eitthvað á þessa leið: Eftir því sem apinn klifrar hærra upp í tréð, því betur sést í rassgatið á honum. Eigum við ekki að láta það vera lokaorðin.“

Horfa má á viðtalið við Úlfar í heild sinni Stefán Einar Magnússon í Spursmál í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“

Íslenskur leigusali í miklum vanda og óttast um aleiguna – „Leigjandi minn er fíkill“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sjálfstæðisflokkurinn kominn undir 19 prósent – Stjórnarandstöðuflokkarnir tapa allir fylgi

Sjálfstæðisflokkurinn kominn undir 19 prósent – Stjórnarandstöðuflokkarnir tapa allir fylgi
Fréttir
Í gær

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið
Fréttir
Í gær

Bretar vilja gelda alla nauðgara og barnaníðinga með lyfjum – Tilraunaverkefni hafið í 20 fangelsum

Bretar vilja gelda alla nauðgara og barnaníðinga með lyfjum – Tilraunaverkefni hafið í 20 fangelsum