Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, sem var staðfest af heilbrigðisnefnd umdæmisins, að eigandi húss á Siglufirði, sem skemmdist mikið í óveðri, skuli rífa húsið og hreinsa lóðina alfarið á eigin kostnað. Maðurinn hafði óskað eftir hjálp frá sveitarfélaginu Fjallabyggð þar sem hann réði ekki við þann kostnað sem fylgdi því að verða við kröfum heilbrigðiseftirlitsins. Fjallabyggð hefur hins vegar hafnað því að verða við þessari bón mannsins, sem raunar er starfsmaður sveitarfélagsins. Nefndin segir galla hafa verið á málsmeðferðinni en það dugi ekki til að ógilda ákvörðunina.
Maðurinn heitir Hilmar Daníel Valgeirsson en hann ræddi stöðu málsins í viðtali við Mbl.is í síðasta mánuði. Fram kemur í viðtalinu að Hilmar hafi búið í húsinu, sem er að Aðalgötu 6b og var áður frystihús, þegar það hafi skemmst svo mikið í ofsaveðri í september 2023 að það sé í raun ónýtt. Brak úr húsinu hefur legið um alla lóðina síðan þá og Hilmar segir að það muni kosta margar milljónir að rífa húsið, hreinsa lóðina og farga svo öllu brakinu. Hilmar starfar sem sundlaugarvörður hjá Fjallabyggð og hefur því ekki efni á að leggja út fyrir svo háum kostnaði. Sagðist Hilmar hafa boðið bænum lóðina að gjöf svo sveitarfélagið gæti séð um að rífa húsið en því hafi verið hafnað. Þó reiknaði Þórir Hákonarson settur bæjarstjóri með að málið myndi koma aftur til kasta bæjarins myndi Hilmar ekki verða við ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins. Í umfjöllun Mbl kom einnig fram að almannahætta stafi af brakinu á lóðinni og að þrátt fyrir að hinar miklu skemmdir megi rekja til ofsaveðurs hafi Náttúruhamfaratryggingar Íslands ekki bætt tjónið.
Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kemur fram að í ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra hafi verið lagt fyrir eigandann (Hilmar) að rífa húsið og hreinsa lóðina vegna mengunar, óhollustu og fokhættu og hættu á tjóni annarra eigna auk hættu fyrir almenning. Ákvörðunin var síðan staðfest af heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra.
Í kæru Hilmars til nefndarinnar kom fram að ekki hafi verið gætt að andmælarétti hans og að heilbrigðiseftirlitið skorti lagaheimild til að krefjast niðurrifs.
Heilbrigðiseftirlitið andmælti þessu og sagði Hilmar hafa fengið 10 daga til andmæla og að það hefði fulla heimild til að leggja þessar kröfur á hann.
Hilmar svaraði þessum andmælum með því hann hefði ekki fengið öll gögn málsins afhent og málsmeðferðin væri óskýr. Sagðist hann vera vinna að lausn málsins en kvartaði undan skorti yfirvalda á samvinnu við hann.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að tölvupóstur þar sem Hilmari var tilkynnt um ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins hafi verið misvísandi. Nefndin segir það óskráða grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr, svo að aðili máls geti bæði skilið hana og metið réttarstöðu sína. Eðli málsins samkvæmt gildi hið sama í samskiptum stjórnvalda við borgara, sem sé undanfari stjórnvaldsákvörðunar. Í umræddum tölvupósti sé bæði gefið til kynna að málið sé til meðferðar og að tekin hafi verið endanleg stjórnvaldsákvörðun. Með þeim með leiðbeiningum um kæruheimild sem gefnar voru í bréfinu hafi enn fremur mátt álykta að ákvörðunin væri endanleg jafnvel þótt óskað væri eftir andmælum innan tíu daga.
Aftur á móti segir nefndin að með staðfestingu heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra hafi Hilmari verið veittur hæfilegur frestur til að bregðast við, fimm vikur. Segir nefndin að staðfesting heilbrigðisnefndar hafi átt sér stoð í lögum og reglum. Hins vegar gerir úrskurðarnefndin athugasemd við að Hilmari hafi ekki verið tilkynnt um niðurstöðu heilbrigðisnefndar fyrr en tvær vikur hafi þegar verið liðnar af frestinum. Þegar kemur að sjónarmiðum Hilmars um að ekki hafi verið gætt að andmælarétti hans segir nefndin að í ljósi þess að hann hafi þegar komið á framfæri sjónarmiðum sínum í kæru til úrskurðarnefndarinnar, sem kynnt hafi verið fyrir heilbrigðiseftirlitinu, verði þó ekki talið að um verulegan annmarka sé að ræða. Kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar, um að Hilmari beri að sjá til þess á eiginn kostnað að húsið verði rifið og lóðin hreinsuð, var því hafnað.