Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur beðist lausnar úr embætti sínu og lýkur störfum á miðnætti í kvöld. Þetta kemur fram í frétt RÚV en í henni kemur fram að Úlfar hafi ákveðið að láta af störfum eftir að dómsmálaráðherra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, tilkynnti honum á fundi að embætti hans yrði auglýst. Úlfar hefði með réttu átt að ljúka störfum í nóvember á þessu ári en hann ákvað að stíga þegar í stað frá borði.
„Þetta kom auðvitað við mig og þetta eru kaldar kveðjur frá dómsmálaráðherra fyrir mín störf,“ segir Úlfar í samtali við RÚV en hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hvað fór á milli hans og ráðherrans á fundinum.