fbpx
Mánudagur 12.maí 2025
Fréttir

Guðmundur í Brim sakaður um billegan orðhengilshátt í Bítinu í morgun – „Það á enginn fiskinn í sjónum“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 12. maí 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þjóðin á ekki fiskinn í sjónum. Fiskurinn á sig sjálfur í sjónum. […] Það á enginn fiskinn í sjónum“

Þetta segir Guðmundur Kristjánsson, gjarnan kenndur við Brim, en hann var gestur Bítisins á Bylgjunni í morgun þar sem hann talaði gegn fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda og kom kvótakerfinu til varna.

Varnarræða Guðmundar hefur vakið litla lukku en þingmaðurinn Sigurjón Þórðarson sakar sægreifann um „billegan orðhengilshátt“. Sigurjón skrifar á Facebook:

„Auðvitað hef ég skilning á því að útgerðarmenn standi vörð um eigin hagsmuni, en þessi síendurtekni orðhengilsháttur um að fiskurinn eigi sig sjálfur er billegur. Það er ekki langt síðan Brim vildi opna á aukna erlenda fjárfestingar en það felur í sér sölu á réttinum til þess að nýta fiskimiðin við Íslandsstrendur úr landi.“

Þingmaðurinn Sigmar Guðmundsson minnir á að samkvæmt fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða sé skýrt að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, en Guðmundur tók ítrekað fram í viðtalinu að þjóðin eigi ekki fiskinn heldur eigi fiskurinn sig sjálfur. Allar deilur um kvótakerfið snúist um réttinn til að veiða þennan fisk.

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason skrifar: „Ég á mig sjálfur syngur fiskurinn í sjónum, rétt eins og í Megasarlaginu Ég á mig sjálf“

Blaðamaðurinn Björn Þorláksson á Samstöðinni gagnrýnir Guðmund fyrir að halda því farm að hann væri ekki velkominn í viðtal hjá Ríkisútvarpinu. Það liggi beinast við að Guðmundur hafi fengið að flytja varnarræðu sína hjá Bylgjunni. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafi nýlega sest í stjórn Sýn, eiganda Bylgjunnar og Vísis. Eins sé augljóst að Guðmundur sé að halla réttu máli þegar hann hafi ekki fengið að koma sínum sjónarmiðum að hjá RÚV í um áratug. Samstöðin leitaði svara hjá RÚV sem upplýsti að fréttastofa RÚV hafi seinast rætt við Guðmund í mars á þessu ári.

Þjóðin eigi ekki fiskinn

Guðmundur rakti í Bítinu að umræðan um veiðigjöldin byggi á vanþekkingu þjóðarinnar á tilurð og tilvist kvótakerfisins.

„Ég er náttúrulega orðinn dauðþreyttur á þessari umræðu um sjávarútveginn síðustu þrjátíu árin,“ sagði Guðmundur og rakti að kvótakerfinu hafi verið komið á árið 1984 og var bundinn við fiskiskip en ekki við vinnslur eða sveitarfélög. „Veiðirétturinn hefur aldrei farið til fólksins, aldrei til sveitarfélaganna. Hann fór alltaf á fiskiskipið og sá sem átti fiskiskipið, hann var þannig með veiðiréttinn.“

Á þessum tíma voru stærstu útgerðaraðilarnir sveitarfélögin og ríkið. Næstu 10-15 árin hafi þessir aðilar selt fyrirtæki og fiskiskip og veiðirétturinn fylgdi með í kaupunum.

„Þá kaupum við kannski skip á hundrað milljónir. Við förum með það í brotajárn og seljum það á 10 milljónir. Þá töpum við 90 milljónum að hafa keypt skip á 100 og selt bara á 10. Og við afskrifuðum bara 90 milljónir og tímdum ekki að borga tekjuskatt þá ef við vorum að hagnast. Þá kom skatturinn í nafni fjármálaráðuneytisins, ríkisins, þess sama og núna er að semja þetta frumvarp og segir: Kvótinn er eign. Við sögðum nei, sjávarútvegurinn sagði nei. Við töpuðum í Hæstarétti árið 1993 þegar Hæstiréttur sagði: Þið verðið að færa veiðiréttinn, kvótann, til eignar. En veiðirétturinn er ekki fiskurinn í sjónum og ekki auðlindin. Veiðirétturinn er rétturinn til að veiða. En Hæstiréttur sagði: Alþingi má breyta, og sagði: Þið megið afskrifa á fimm árum. Þá kom Alþingi árið 1997 og sagði okkur: Þið verðið að eignfæra þennan kvóta bara forever, ævinlega, það má ekki afskrifa. Síðan 1997 höfum við alltaf eignfært öll kvótakaup sem við höfum gert. Og þessi kvóti er orðinn fimm hundruð milljarðar í öllum sjávarúvegsfyrirtækjum á Íslandi.“

Lærðir menn hafi útskýrt að þjóðin ætti fiskinn í sjónum. Þjóðin eigi auðlindina og þjóðin ráði auðlindinni. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar. Guðmundur rekur að þetta sé í raun tilgangslaust ákvæði sem hafi verið misskilið í gegnum árin. Í raun megi rekja það til Jóns Baldvins Hannibalssonar sem heimtaði að fá ákvæðið inn áður en hann samþykkti frumvarpið. Þetta ákvæði sé svo ástæðan fyrir deilum þjóðarinnar um kvótakerfið í gegnum árin.

Útgerðarmenn eru hluti af þjóðinni

Þar fyrir utan séu útgerðarmenn, þar með talið Guðmundur sjálfur, hluti af þjóðinni, þessari þjóð sem á nytjastofnanna samkvæmt lögum. „Þjóðin eru einstaklingarnir í þjóðfélaginu. Þannig myndum við þjóð og við megum eiga fasteignir, lausafé, hlutabréf. Við eigum lífeyrissjóðina. Ríkið á ekki þá. Brim er skráð félag og 40% af eigendum Brims eru lífeyrissjóðir. 55% eru hlutafélög sem eru í eigu einstaklinga og 5% eru í eigu einstaklinga. Allir þessir aðilar eru hluti af þjóðinni. Öll þjóðin á ekki Brim en það er stór hluti af þjóðinni sem á Brim. Ríkið á ekki Brim.“

Ríkið átti útgerðir þegar kvótakerfinu var komið á en reksturinn gekk ekki vel. Ríkið ákvað því að selja og kaupandinn var íslenska þjóðin, eða hluti af henni. Útgerðirnar voru þá yfirskuldsettar og á hausnum.

Varðandi samþjöppun í kvótakerfinu segir Guðmundur að þorpin sem áttu allt sitt undir kvótanum hafi ekki átt neinn pening. Útgerðin hafi staðið fyrir uppbyggingu en svo þurfti að skera niður þorskkvóta út af svarti skýrslu Hafrannsóknarstofnunar.

„Auðvitað varð að loka einhverjum þorpum í sjávarútvegi. Það var ekki hægt að halda öllum þorpum uppi. […] Við urðum að loka þessum þorpum, við erum að segja fólki upp, við erum að fækka skipum. Þetta er ekki vinsælt djobb.“

Hvað varðar ofurhagnað sægreifa, sem gjarnan rata ofarlega á lista yfir tekjuhæstu Íslendingana, segir Guðmundur að illt umtal um sjávarútveginn hafi orðið til þess að margir hafa selt sig út úr greininni og við það hagnast.

Guðmundur segir að það megi hækka veiðigjaldin en slíkt þurfi að gera innan skynsamlegra marka og helst í skrefum yfir langan tíma, ekki á einu bretti eins og ríkisstjórnin sé nú að leggja til.

Þjóðin, einkum þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu, þurfi svo að hætta öllu tali um að eiga fiskinn í sjónum. „Ef fugl flýgur hérna yfir ertu þú þá að æpa: Ég á þennan fugl?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

„Fyrsta sinn í sögu Úkraínu“ segir leyniþjónustan

„Fyrsta sinn í sögu Úkraínu“ segir leyniþjónustan
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Asnar, kameldýr og hlaupahjól – Þetta eru nýjustu tæki rússneska hersins á vígvellinum

Asnar, kameldýr og hlaupahjól – Þetta eru nýjustu tæki rússneska hersins á vígvellinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ráðherra og þingmaður VG hjólar í meirihlutann í borginni – „Fyrirsláttur, meinbægni og mismunun“

Fyrrum ráðherra og þingmaður VG hjólar í meirihlutann í borginni – „Fyrirsláttur, meinbægni og mismunun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir óánægju með auglýsingar SFS vera væl og þær hafi þvert á móti opnað augu almennings

Segir óánægju með auglýsingar SFS vera væl og þær hafi þvert á móti opnað augu almennings