fbpx
Þriðjudagur 17.september 2024
Fréttir

Birgir Örn: „Miklu alvarlegra en mörg ungmenni gera sér grein fyrir“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 5. september 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögregluþjónninn Birgir Örn Guðjónsson viðraði fyrst áhyggjur sínar fyrir nokkrum árum af því að ungmenni væru farin að ganga með hnífa á sér sem vopn. Birgir hefur meðal annars sinnt forvarnarstörfum, til dæmis í Hafnarfirði, og þekkir þessi mál ágætlega.

Í stöðuuppfærslu á Facebook segir hann að á sínum tíma hafði hann rætt við fjölmörg ungmenni sem gengu með hnífa á sér.

„Því miður hélt þessi þróun bara áfram. Núna er umræðan í hæstu hæðum og því miður er ástæða þess sorglegri en tárum tekur. Umræðan og vitundarvakningin er því nauðsynleg,“ segir hann.

Eins og að taka með sér lykla

Birgir segir að fyrir suma sé það að setja hníf í vasann orðið jafn eðlilegt og að taka með húslykilinn.

„Upphafið var líklega byggt á ótta en svo er þetta komið í vana. Það er einhver öryggistilfinning sem hnífurinn veitir þeim. Því er nauðsynlegt að þau sem bera hnífa átti sig á því að þessi öryggistilfinning er byggð á algjörlega rangri hugsun. Þegar ég hef spurt þessa aðila hvað þeir ætli að gera við hnífinn þá er svarið nær alltaf „til þess að verja mig“. En ef ég spurði hvort þau væru tilbúin að stinga einhvern var minna um svör því að sjálfsögðu eru þau það ekki,“ segir hann.

Birgir segir að ungmenni þurfi að skilja að það er engin vörn að taka upp hníf ef einhver tekur upp hníf á móti þér.

„Það er enginn að fara að skylmast. Ef tveir eða fleiri aðilar fara í átök með hníf þá eru allar líkur á að báðir aðilar verði stungnir eða skornir. Og slíkt er aldrei tekið til baka. Hnífur er lífshættulegt vopn. Það er svo hættulegt vopn að lögreglan þarf [að] vopnast skotvopni til að geta varist því. Það að taka upp hníf er graf alvarlegt mál. Miklu alvarlegra en mörg ungmenni gera sér grein fyrir. Og ef einhver ætlar að taka upp hníf til að verjast aðila sem ætlar að lemja viðkomandi þarf líka að hugsa það til enda. Hvað gerir þú ef aðilinn ræðst SAMT á þig þegar þú ert kominn með hnífinn í höndina?“

Ráða ekki við tilfinningarnar

Birgir kveðst líka hafa spurt aðila að því hvort þeir eigi það til að missa stjórn á skapi sínu þegar þeir verða reiðir.

„Oft svara þeir því játandi og hafa þá sótt hnífinn og gefið mér þegar þeir átta sig sjálfir á hættunni sem fylgir því að vera með vopn en geta ekki ráðið við tilfinningar sínar þegar þeir reiðast. Hugsunin hafði bara ekki náð þetta langt. Þess vegna þarf að ræða þetta. Sama hvort það séu foreldrar, lögreglan, kennarar, starfsmenn félagsmiðstöðva eða hverjir þeir sem komst best í þá stöðu að ræða við ungt fólk.“

Birgir segir einnig að erfitt sé að greina það nákvæmlega hverjir bera hnífa. Ekki sé til nein steríótýpa af einstaklingi sem ber á sér hníf.

„Það geta vel verið aðilar sem aldrei hafa komist í kast við lögin eða aldrei lent í slagsmálum. Það geta verið aðilar frá góðum heimilum eða brotnum. Við vitum það ekki. Þarna blandast oft saman einhverskonar ótti í upphafi sem verður svo að persónulegri venju sem er auðveldara vegna þess samfélagslegs viðmiðs sem hefur skapast, hvort sem það sé rétt eða rangt, að það séu svo margir með hnífa.“

Harka og brengluð samskipti á samfélagsmiðlum

Birgir segir að í rauninni megi kannski segja að ákveðin harka og brengluð samskipti á samfélagsmiðlum sé ákveðinn hluti af þessari þróun.

„Í dag er miklu auðveldara en áður að koma með hótanir og segja hluti í gegnum allskonar miðla sem fólk myndi annars aldrei gera. Slíkt getur skapar ótta og reiði og jafnvel sett af stað hefndar hringrás. Þarna missa einstaklingar oft tök á aðstæðum á ótrúlega skömmum tíma. Og þegar þangað er komið er auðvelt fyrir óharðnað ungmenni með óþroskaðan framheila að missa tökin. Og ekki erum við sem eigum að kallast fullorðin betri fyrirmynd í okkar samskiptum eða ummælum.“

12 ára dreng hótað fyrir óviðeigandi ummæli

Birgir segir að hið hræðilega mál á Menningarnótt ætti að vekja okkur upp sem samfélag og vonandi gerist það að einhverju marki. Hann segist samt líka sjá viðbrögð sem eru þveröfug við það sem við viljum sjá og nefnir dæmi um slíkt.

„Um daginn fékk ég t.d. símtal frá ráðvilltum föður 12 ára drengs sem hafði í barnaskap sínum sett inn einhverskonar komment á samfélagsmiðil daginn eftir hnífstunguna þar sem hann gerði lítið úr atburðinum með einhverskonar gríni, sem var að sjálfsögðu algjörlega óviðeigandi. Þarna var samt um barn að ræða, sem nei átti að sjálfsögðu ekki að vera með samfélagsmiðla. Þessi drengur gerði sér á þeim tíma alls ekki grein fyrir alvarleika málsins og eftir andlát stúlkunnar fór hann að fá hótanir í tuga tali og fjölskylda hans einnig þar sem m.a. hafa verið birtar myndir af húsinu þeirra og hvatt til ofbeldis. Barnið þorir ekki í skólann og varla út úr húsi og fjölskylda hans er einnig dauð hrædd. Þarna er verið að búa til jarðveg fyrir enn einn einstaklinginn sem gæti fengið þá stórhættulegu flugu í höfuðið að það væri kannski öruggara að vera með hníf. Hringrásin heldur áfram.“

Birgir segir að lokum að vandinn sem við erum að kljást við sé miklu stærri en bara hnífar. Aukinn hnífaburður sé afleiðing ákveðins ástands og hugarfars.

„Það er ótrúlega mikilvægt að koma því inn hjá öllum að það að ganga með hníf er engin vörn heldur þvert á móti að heimboð á miklu meiri hættu. En samfélagið verður líka að fara í alvarlega naflaskoðun og greina vandann miklu dýpra. Vandamálin munu alltaf halda áfram að vaxa ef við ætlum alltaf bara að klippa af illgresinu án þess að taka upp rótina.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Sýknuð af ákæru um ofbeldi gegn barnsföður sínum – Sauð upp úr í rifrildi um matarmiða

Sýknuð af ákæru um ofbeldi gegn barnsföður sínum – Sauð upp úr í rifrildi um matarmiða
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ekkert bendi til þess að faðirinn hafi numið stúlkuna á brott

Ekkert bendi til þess að faðirinn hafi numið stúlkuna á brott
Fréttir
Í gær

Íslenskur faðir grunaður um að hafa banað dóttur sinni

Íslenskur faðir grunaður um að hafa banað dóttur sinni
Fréttir
Í gær

Telur eiginkonu sína hafa notað sig og stefnir henni til lögskilnaðar – Komst að framhjáhaldi skömmu eftir giftinguna

Telur eiginkonu sína hafa notað sig og stefnir henni til lögskilnaðar – Komst að framhjáhaldi skömmu eftir giftinguna
Fréttir
Í gær

„Mér sýn­ist að allt þetta fólk sem var í bif­reiðunum þarna á eft­ir hefði dáið inni í göng­un­um“

„Mér sýn­ist að allt þetta fólk sem var í bif­reiðunum þarna á eft­ir hefði dáið inni í göng­un­um“
Fréttir
Í gær

Yazan litli vakinn í Rjóðrinu – Verður sendur úr landi í dag

Yazan litli vakinn í Rjóðrinu – Verður sendur úr landi í dag