fbpx
Föstudagur 04.október 2024
Fréttir

Kópavogsbær segir nei við sunddeild Breiðabliks

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 14. september 2024 13:30

Sunddeild Breiðabliks vildi fá bætur frá Kópavogsbæ vegna tafa við framkvæmdir í Salalaug. Mynd: Skjáskot/Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV greindi frá í sumar fór sunddeild Breiðabliks fram á að Kópavogsbær greiddi deildinni bætur vegna fjárhagstjóns af völdum tafa við framkvæmdir í Salalaug. Bæjarráð synjaði hins vegar þessari beiðni á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag meðal annars á þeim grundvelli að slíkar bætur yrðu fordæmisgefandi og að það gangi ekki upp að bærinn geti ekki sinnt nauðsynlegu viðhaldi án þess að greiða notendum mannvirkja hans bætur. Því er ljóst að Kópavogsbær ætlar sér ekki að greiða deildinni neinar sérstakar bætur vegna fjárhagstjónsins.

Sunddeildin hafði stuðning aðalstjórnar félagsins í málinu. Deildin sagði í erindi sínu til bæjarins að tafirnar á framkvæmdum í lauginni hefðu orðið til þess að fella hafi þurft niður sundnámskeið fyrir börn á aldrinum 3-8 ára og einnig hefðu þó nokkrir iðkendur hætt að æfa sund hjá Breiðablik. Sunddeildin sagðist hafa orðið af bæði þátttökugjöldum fyrir námskeiðin, sem væru hennar helsta tekjulind, og æfingagjöldum. Við þetta hefði fjárhagur deildarinnar komist í uppnám og því væri farið fram á bætur frá Kópavogbæ, alls 4.961.000 krónur.

Breiðablik ósátt við Kópavogsbæ og vill fá styrk

Bæjarráð vísaði málinu til umsagnar hjá sviðsstjóra menntasviðs og sviðsstjóra umhverfissviðs.

Þurfti að bregðast tafarlaust við

Umsögnin var tekin fyrir á fundi ráðsins síðasta fimmtudag. Í henni kemur fram að síðastliðinn vetur hafi komið í ljós við skoðun að ástand á upphengikerfi fyrir eikarloftið yfir innilaug Salalaugar hafi verið ótryggt. Sýnileg tæring hafi verið komin í festingar og því talin hætta á hruni loftklæðningarinnar með tilheyrandi hættu á líkamstjóni yrði fólk undir.

Bregðast hafi þurft tafarlaust við til að gæta öryggis sundlaugargesta. Sundlauginni hafi verið lokað í byrjun janúar og framkvæmdir staðið yfir til loka apríl. Ástæður þess að framkvæmdirnar hafi tekið þennan tíma séu fyrst og fremst þær að stál sem viðurkennt sé til nota í upphengjur í klórmenguðu lofti sé sérpöntunarvara hjá birgjum í Evrópu og íslenskir birgjar því þurft að hafa nokkuð fyrir að finna rétt efni.

Einnig hafi verið mjög tafsamt að taka niður einingarnar án skemmda þannig að hægt yrði að setja þær upp aftur, en aðeins hafi verið unnt að hafa einn flokk manna að störfum í einu. Jafn framt hafi verið farið í ýmsar aðrar aðgerðir þegar tækifærið hafi gefist til þess.

Fái að vera frítt í lauginni

Sérstaklega er tekið fram í umsögninni að sunddeild Breiðabliks þurfi ekki að greiða neitt fyrir að nýta sér sundlaugar Kópavogsbæjar. Á árinu 2023 hafi reiknuð afnot deildarinnar af þessum mannvirkjum verið 10,9 milljónir króna sem sé því í raun styrkur frá bænum. Ljóst sé að framkvæmdirnar í Salalaug og tafir á þeim hafi óhjákvæmilega haft í för með sér rask fyrir iðkendur sunddeildar Breiðabliks en þær hafi verið bráðnauðsynlegar til að gæta öryggis.

Kópavogsbær sé stöðugt að sinna framkvæmdum vegna viðhalds í öllum sínum mannvirkjum. Bærinn leitist við að skipuleggja viðhald í samráði við viðkomandi íþróttafélög og ákvarða tímasetningar með tilliti til þess að framkvæmdir hafi sem minnst áhrif á íþróttastarfið og rekstur félaganna. Umræddar framkvæmdir í Salalaug hefðu átt að fara fram að sumri til og með meiri fyrirvara. Ástandið í lauginni hafi hins vegar verið þess eðlis að framkvæmdir án fyrirvara hafi verið bráðnauðsynlegar til að gæta að öryggi iðkenda sunddeildar Breiðabliks, starfsfólks Salalaugar og almennra sundlaugargesta.

Að lokum segir í umsögninni að Kópavogsbær verði að geta sinnt viðhaldi mannvirkja sinna án þess að þurfa að greiða bætur eða styrki til íþróttafélaga og annarra sem nýta aðstöðuna á þeim forsendum að framkvæmdir hafi áhrif á fjárhag viðkomandi félags. Með svipuðum rökum megi halda því fram að verktakar sem sinni námskeiðshaldi í laugunum ættu rétt á bótum vegna framkvæmda. Það væri  fordæmisgefandi ef bærinn færi að greiða styrki til aðila vegna áhrifa viðhalds á eigin mannvirkjum.

Með vísan til umsagnarinnar hafnaði bæjarráð beiðni sunddeildar Breiðabliks um bætur vegna fjárhagstjónsins sem deildin varð fyrir vegna tafanna á framkvæmdunum í Salalaug.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Húseigendur í Kópavogi sáu ekki til sólar fyrir trjágróðri nágrannans – Tekist á um hæð trjánna á tveimur dómsstigum

Húseigendur í Kópavogi sáu ekki til sólar fyrir trjágróðri nágrannans – Tekist á um hæð trjánna á tveimur dómsstigum
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Arnar Björn kynntist konu á samskiptaforriti og nauðgaði henni 10 dögum síðar – 2 og hálfs árs dómur staðfestur

Arnar Björn kynntist konu á samskiptaforriti og nauðgaði henni 10 dögum síðar – 2 og hálfs árs dómur staðfestur
Fréttir
Í gær

Tvö íslensk fyrirtæki á lista Great Place To Work

Tvö íslensk fyrirtæki á lista Great Place To Work
Fréttir
Í gær

Bíræfnir bófar á ferð í sumarhúsahverfum – Brutu upp gáma og stálu dósum frá björgunarsveit

Bíræfnir bófar á ferð í sumarhúsahverfum – Brutu upp gáma og stálu dósum frá björgunarsveit
Fréttir
Í gær

Grunaður morðingi á Neskaupstað áfram í gæsluvarðhaldi

Grunaður morðingi á Neskaupstað áfram í gæsluvarðhaldi