fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Sátu að sumbli þegar þeir áttu að vera vinnunni í Alþingishúsinu

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 29. nóvember 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingfundur stóð yfir á Alþingi þegar þingmennirnir sex, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, settust niður á Klaustur Downtown Bar á Kvosin Hotel, hinum megin við götuna við Alþingishúsið. Þetta brýtur gegn 65. grein laga um þingsköp.

DV hefur undir höndum upptökur, sem almennur borgari tók óumbeðið, af þingmönnunum sex ræða saman. Mikið hefur verið fjallað um innihald umræðnanna í fjölmiðlum í dag.

Samkvæmt heimildum DV hófst upptakan kl. 20:39 þriðjudagskvöldið 20. nóvember. Þingmennirnir voru sestir þegar óþekktur aðili úr röðum almennra borgara hóf að taka þá upp. Um er að ræða sjö upptökur, alls 3 klukkutímar og 41 mínúta að lengd, fyrir utan stuttar myndbandsupptökur af þingmönnunum sex.

Þingfundi þetta kvöld var ekki slitið fyrr en 21:36 þetta kvöld.Umræðum um fjárlög lauk klukkan 20:30 og þá átti eftir að ræða tvö önnur frumvörp. Þetta þýðir að á meðan þingmennirnir sex sátu á Klaustur Bar stóð yfir önnur umræða um aukatekjur ríkissjóðs. Meðal þeirra sem tóku til máls var Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, en á upptökunum heyrist talað illa um hana. Sagði Gunnar Bragi Sveinsson orðrétt:

„Oddný er ekkert ágæt. Hún er algjör apaköttur. Hún veit ekki neitt, kann ekki neitt, getur ekki neitt.“

Oddný, sem og þingkonurnar Inga Sæland og Silja Dögg Gunnarsdóttir, hefur fordæmt ummælin sem þingmennirnir létu falla þetta kvöld.

Í fimmta kafla laga um þingsköp segir orðrétt: „Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um fyrirspurnafundi.“ Enginn af þingmönnunum sex var með fjarvistarleyfi umræddan dag, en það er undir þingmönnunum sjálfum komið hvernig þeir sækja þingfundi og hvar þeir eru staddir í þinghúsinu á meðan umræður eiga sér stað.

Umræða um fjárlög stóð yfir frá kl. 14:22 á þriðjudaginn til kl. 20:22. Karl Gauti, Sigmundur Davíð og Bergþór tóku þátt í þeim umræðum, sá síðasti af þingmönnunum sex sem tók til máls var Bergþór, hann talaði frá kl. 16:25 til 16:27. Þá átti eftir að ræða tvö önnur frumvörp, vörugjöld af ökutækjum og síðan aukatekjur ríkissjóðs. Á meðan sátu þingmennirnir og drukku hinum megin götunnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt