Nær öll íslenska þjóðin er á Facebook eða 93 prósent. Um tveir af hverjum þremur, eða 67 prósent, nota Snapchat reglulega.
Þetta kom í ljós í könnun MMR á samfélagsmiðlanotkun landsmanna sem framkvæmd var dagana 16. til 22. maí 2018. YouTube (66%), Spotify (51%) og Instagram (45%) nutu einnig nokkurra vinsælda á meðal svarenda.
Ef litið er til könnunar MMR á notkun samfélagsmiðla frá maí 2016 má sjá nokkra aukningu á notkun samfélagsmiðla. Mest hefur aukningin verið á notkun Spotify en hún telur um 23 prósentustig yfir tveggja ára tímabil. Einnig má sjá aukningu á notkun Snapchat (15 prósentustig), Instagram (14 prósentustig), Google+ (6 prósentustig), Pinterest (6 prósentustig), YouTube (5 prósentustig) og LinkedIn (3 prósentustig). Marktækan mun var ekki að finna á notkun annarra samfélagsmiðla á milli ára.
Nokkurn mun var að sjá á afstöðu svarenda eftir lýðfræðihópum. Konur voru líklegri heldur en karlar til að segjast nota Facebook (95%), Snapchat (73%) og Instagram (52%) en hærra hlutfall karla heldur en kvenna sagðist nota YouTube (71%) og Spotify (54%).
Notkun fimm vinsælustu samfélagsmiðlanna fór minnkandi með auknum aldri en þó var minnstan aldurstengdan mun að sjá í notkun á Facebook, þar sem 81% svarenda elsta aldurshópsins (68 ára og eldri) sögðust nota miðilinn reglulega. Lítinn mun var einnig að sjá á notkun Facebook eftir öðrum lýðfræðibreytum.