Helga Arnardóttir er hætt sem yfirritstjóri Birtings. Helga hóf störf hjá Birtingi 2. janúar og fagnaði sínu fyrsta blaði fyrir skömmu, þegar Mannlíf kom út. Það hefur ekki farið mikið fyrir þessu nýja fríblaði, Mannlíf sem er dreift frítt á höfuðborgarsvæðinu og þótti síðasta og eina blað Helgu bera nokkuð af þeim blöðum sem hafa komið út hjá Birtingi.
Helga átti að hafa yfirumsjón með áframhaldandi stafrænni uppbyggingu og halda utan um vefinn mannlif.is.
Samkvæmt heimildum DV var Helgu sagt upp störfum en DV var kunnugt um starfslok Helgu í dag en hún svaraði ekki síma. Á vef Birtings segir að Birtingur og Helga hafi komist að samkomulagi um starfslok.
„Helga hóf nýlega störf hjá útgáfunni en sameiginleg ákvörðun aðila var að slíta samstarfinu og vill stjórn Birtings þakka henni fyrir samstarfið.“