fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Myrkur og ljós í lífi þekktra Íslendinga á árinu: „Ég náði ekki að kveðja hann og segja honum hvað ég elskaði hann mikið“

Sorg og gleði – Trúa á ástina – Perrar – Barneignir – Ást á ónýtu kerfi – Verður amma – Óvirðing við hinn látna – Erfitt að ná ekki að kveðja vinkonu

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 8. janúar 2018 00:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur gengið á ýmsu í samfélaginu árið 2017. #Metoo-byltingin hefur haft gríðarleg áhrif, þá féll ríkisstjórn og önnur reis í staðinn. Hér ætlum við ekki að fjalla um samfélagsmál nema að hluta. Hér tjá þekktir Íslendingar sig um sínar verstu stundir á árinu og þær bestu. Sumir opna sig um erfiðan missi, kynferðislega áreitni og árásir á netmiðlum. Þá opna hinir þekktu Íslendingar sig um ný líf, börn, barnabörn og getur einn fyrrverandi þingmaður ekki beðið eftir að verða amma. Myrkur og ljós í lífi þekktra Íslendinga á árinu.

Margrét Erla Maack leikkona

Karlar sem urðu litlir í sér

Mynd: Leifur Wilberg

Að fá símtal um það að ég hefði fengið hlutverk í danskórnum í Rocky Horror, velgengni Reykjavík Kabaretts, sýningarferðalög (mörg), vitundarvakningin og samstaðan í kringum #metoo. Og ástin.

Er búin að kljást við eitthvað órætt í dágóðan tíma, sem fyrst var talið ofnæmi, svo astma og nú síðast bakflæði … oft lasin og hálf ómöguleg. Held að ég þurfi að gefa mér tíma á nýju ári til að vúdú-a þetta út. Já, og karlarnir sem urðu svo litlir í sér í kringum #metoo að þeir „áreittu mig í grín“ á DJ-vöktum. Gubb.

Eiríkur Jónsson blaðamaður og ritstjóri

Sorgin og gleðin hönd í hönd

Allt gerðist í sömu vikunni. Pabbi minn dó og næstum um leið eignaðist elsta dóttir mín sinn fyrsta son. Maður kemur í manns stað – einn tekur við þegar annar fer. Stundum ganga sorgin og gleðin hönd í hönd og þannig er það best. Þannig lifum við af.

Ellý Ármanns ritstjóri

Trúi enn á ástina

Ég hóf MBA-nám við Háskóla Íslands. Ég gerði það fyrir mig og engan annan. Ég vildi læra eitthvað nýtt, nýta reynslu mína sem fyrrverandi blaðamaður og ritstjóri og víkka sjóndeildarhringinn. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið lengi. Ég fékk að taka ársleyfi frá náminu sem er hálfnað því ég ákvað að bretta upp ermar til að geta greitt bankanum en það kom til af því að þegar ég skildi á sínum tíma var húsið skráð á mig. Ég reyndi eftir skilnaðinn að semja við bankann en án árangurs. Svo fór að húsið var selt bankanum á uppboði. Það var tvennt í stöðunni og það var að borga bankanum sem fór fram á eingreiðslu eða þá kveikja í kennitölunni minni. Ég var staðráðin í að láta reyna á hið fyrrnefnda og mála myndir og athuga hvort ég gæti selt þær og safnað þannig fyrir skuldinni. Ég mála risastórar myndir óhefðbundnar með spaða og salan hefur gengið vonum framar. Ég er bjartsýn á að geta borgað bankanum í kringum áramótin og fótað mig á ný ef guð leyfir.

Pabbi lést á páskadagsmorgun aðeins 66 ára gamall. Ég náði ekki að kveðja hann og segja honum hvað ég elskaði hann mikið áður en hann fór en ég fékk dýrmæta stund með honum í kirkjunni daginn sem jarðarförin fór fram. Þar sagði ég honum hvað ég elska hann og hvað ég þráði alltaf að vera ein af börnunum hans og hvað hann skipti mig miklu máli. Séra Jóna Hrönn sá til þess að ég fékk góða stund með honum þar sem hann lá friðsæll í kistunni og fyrir það verð ég henni ávallt þakklát.

Ég kynntist leigumarkaðnum og endaði á því að leigja herbergi fyrir mig og stelpuna mína fyrir ofan skemmtistað í miðborginni. Mér fannst það erfitt í byrjun en svona eftir á að hyggja þá var þetta allt í lagi því það er stórkostlegt að búa í litlu herbergi hamingjusöm heldur en vansæl í höll. Við mæðgurnar gerum gott úr þessu og njótum þess að upplifa borgina saman.

Svo gerði ég þau hræðilegu mistök að fá mér húðflúr með nafni þáverandi kærasta. Ég varð ástfangin upp fyrir haus og hélt svo innilega að hann væri sá rétti. Annað kom hins vegar í ljós. En ég trúi enn þá á ástina og ég er ekki búin að missa vonina. Ég skammast mín hins vegar og læt mér þetta að kenningu verða.

Þórhallur Þórhallsson leikari

Bölvaðir perrar

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það sem stendur upp úr á þessu ári er að ég hélt upp á tíu ára afmæli mitt frá því að ég vann keppnina Fyndnasti maður Íslands með því að halda uppistandssýningu í Tjarnarbíói. Ég tók sýninguna upp og næ ég vonandi að sýna þjóðinni hana fyrr eða síðar. Einnig var mjög gaman að skora á sjálfan sig og ganga fimm daga í röð upp á Esjuna og vekja í leiðinni athygli á geðheilbrigðismálum á Íslandi. Fjöldi manns fylgdist með mér inn á Snapchat í því ævintýri og fann ég fyrir miklum meðbyr þar.

Verst fannst mér allar þessar fréttir af leikurum og grínistum sem maður hefur litið upp til í mörg ár og kemur nú í ljós að voru allir bölvaðir perrar. Ekki það að mér finnist það slæmt að það hafi komist upp um þá, frekar bara að gaurar sem maður hélt að væru góðir eru það svo bara alls ekki neitt. Svo hefði ég viljað fara oftar til útlanda. Það er aldrei hægt að fara of oft til útlanda.

Kara Kristel Ágústsdóttir pistlahöfundur

Setti sjálfa mig í fyrsta sæti

Það versta við mitt 2017 þarf eiginlega að vera veikindi. Ég var ótrúlega mikið líkamlega veik, „random“ veikindi í mis-langan tíma. Það er sko mjög krefjandi fyrir ofvirka manneskju eins og mig að þurfa allt í einu að liggja heilu vikurnar og gera ekkert. Það þarfnast aga sem ég átti ógeðslega erfitt með. Ég þarf líka að bæta við að ég fór að borða tómata, ég er mjög þrjósk og allt mitt líf haldið því fram að tómatar séu ógeð. Það er því ótrúlega erfitt fyrir mig að viðurkenna að 2017 er árið sem ég fór sjálfviljug að panta tómat á allt.

Það besta við mitt 2017 þarf líklega að vera ákvörðun mín um að setja sjálfa mig í fyrsta sæti í næstum því öllu, svo æðisleg ákvörðun sem ég stóð við. Ég hætti að leyfa fólki, hlutum og atburðum sem ég gat ekki breytt, að hafa áhrif á mig. Fór að einbeita mér að öllu sem sjálfri mér þykir gaman og fór að lifa lífinu, búa til minningar. Sem dæmi þá standa Secret Solstice, Þjóðhátíð og Airwaves upp úr. Vera bara með vinum og njóta í drasl.

Sævar Helgi Bragason rithöfundur og ritstjóri Stjörnufræðivefsins

Gekk illa að safna fyrir útborgun

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Á árinu fór ég í stórkostlegt mánaðarlangt ferðalag um Bandaríkin – fyrst með Arnóri Braga, syni mínum, en svo vinafólki – sem náði hámarki með sólmyrkva. Gaf líka út aðra bók, Geimverur – Leitin að lífi í geimnum og byrjaði að vinna við KrakkaRÚV sem er ótrúlega skemmtilegt. Svo hófst undirbúningur fyrir önnur enn meira spennandi verkefni sem koma í ljós á næsta ári.

Árið var ansi fínt í flesta staði. Það versta var kannski hvað það gekk og gengur illa að safna nægum peningum til að eiga fyrir útborgun í íbúð (nei, það var ekki Bandaríkjaferðinni að kenna). Vona að það gangi betur á næsta ári. Þess vegna væri frábært ef fólk keypti bækurnar mínar.

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi

Ríkur maður

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það besta sem kom fyrir mig persónulega á þessu ári er að í mars eignuðumst við hjónin okkar áttunda barnabarn en þá fæddist glæsilegur drengur sem fékk nafnið Leó Örn. Það er morgunljóst í mínum huga að það sem skiptir alla mestu máli er að öllum í fjölskyldunni líði vel, séu við góða heilsu og vaxi og dafni í leik og starfi. Í því felast hinir stóru persónulegu sigrar hjá hverri manneskju, að eiga stóra heilbrigða fjölskyldu þar sem öllum líður vel. Ég er ríkur maður eins og áður sagði, á þrjá dásamlega drengi af fjórum á lífi og átta gullfalleg barnabörn og dásamlega konu.

Það versta sem kom fyrir mig persónulega var að þurfa að verða vitni að því að sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi skyldi hætta starfsemi hér á Akranesi eftir hundrað ára starfsemi hér og skilja landverkafólk eftir í átthagafjötrum og sveitarfélagið í sárum.

Hvað varðar mitt persónulega líf þá voru það „mikil“ vonbrigði að hafa ekki náð að vinna annan flokkinn í meistaramóti golfklúbbsins Leynis á Akranesi en ég lenti í öðru sæti og stefni klárlega á að vinna flokkinn næsta sumar.

Reynir Traustason fjölmiðlamaður og fyrrverandi ritstjóri DV

Þakklæti fyrir skilvirkt heilbrigðiskerfi

Versta upplifun ársins var þegar yngsta barnabarnið mitt, Bríet Emma Branolte, fékk skyndilega krampa og missti meðvitund. Þetta gerðist heima hjá okkur hjónum þar sem Bríet og foreldrar hennar búa tímabundið. Þegar stúlkan, sem eins árs, fékk krampann var umsvifalaust hringt í 112. Eftir þrjár mínútur var sjúkrabíll kominn á staðinn. Barnið fékk strax viðeigandi meðferð og komst til meðvitundar. En á leiðinni á spítalann komst hún aftur í sama ástand og var allt sett í gang til að bjarga litlu barni. Allt fór vel að lokum. Bríet Emma sneri heim af spítalanum eftir sólarhringsdvöl og ítarlegar rannsóknir. Líklegt er að þetta hafi verið hitakrampi. En eftir situr léttir og þakklæti fyrir heilbrigðiskerfi sem er svo skilvirkt.

Besta stund ársins var á Úlfarfsfelli þegar ég gekk í þúsundasta sinn á fjallið. Ferðafélag Íslands taldi tilvalið að halda vorhátíð á fjallinu í tilefni af 90 ára afmæli sínu og þúsundustu tímamótunum. Úlfarsfell 1000 varð að veruleika. Stuðmenn, Raggi Bjarna, Bjartmar Guðlaugsson, Valdimar, Haukurinn og kór Skrefanna lögðu sitt af mörkum til að gera viðburðinn að sannkölluðu ævintýri. Þyrla Landhelgisgæslunnar mætti á svæðið með Ragga innanborðs. Markmiðið var að ná 1.000 manns á fjallið en yfir 2.000 komu á hátíðina. Þetta var ein magnaðasta stund ársins af mörgum góðum

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir formaður Samtaka um líkamsvirðingu

Erfið og súrrealísk reynsla

Mynd: Kristinn Magnússon

Versta reynslan á árinu voru eftirmálar viðtals okkar Sindra Sindrasonar um grasrótarráðstefnuna Truflandi tilvist í mars. Hatrið og fordómarnir sem tröllriðu samfélaginu í alveg heila viku eftir á voru gífurlegir og þetta var bæði erfið og súrrealísk reynsla. En á sama tíma var þetta besta og verðmætasta reynslan á árinu. Ég eignaðist nýja og dýrmæta vini og fékk góða áminningu um hvað ég á góða að. Hugtökin „forréttindi“ og „fitufordómar“ voru nærri óþekkt fram að þessu en allt í einu voru þau á allra vörum. Það má því segja að þetta hafi verið öflugasta vitundarvakning líkamsvirðingarbaráttunnar hingað til.

Ágústa Eva Erlendsdóttir leikari

Best að eignast barn

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Besta á árinu hjá mér í persónulega lífinu á árinu var að sjálfsögðu að eignast mitt annað barn. Gott að enda annars frábært ár á því. Hún kom í nóvember og þessar sex vikur sem hún hefur verið með mér get ég ekki annað séð en að hún sé alger snillingur eins og stóri bróðir hennar.

Margrét Friðriksdóttir frumkvöðlafræðingur

Vont að hryggbrotna

Mynd: © DV / Kristinn Magnússon

Það besta á árinu sem ég hef upplifað er án efa samtökin sem ég stofnaði Náunginn – Hjálparsamtök fyrir heimilislausa og fátæka, en við höfum fengið góðar móttökur. Það gleður okkur mikið að sjá að það er loksins komin hreyfing á málefni heimilislausra og borgin hefur lofað því að allir verði komnir í öruggt skjól fyrir jólin.

Við í stjórn Náungans höfum náð að tala þá til sem neituðu af fara í Víðinesið í upphafi og eru þeir komnir þangað núna og eru sáttir við þetta tímabundna úrræði sem er byrjunarstig á varanlegu úrræði og fá að hafa gæludýrin með sér sem er þeirra hjartans mál. Við munum svo halda áfram að fylgja málunum eftir þangað til allir hafa fengið varanlega lausn á sínum aðstæðum.

Það versta sem kom fyrir mig persónulega á árinu var hestaslysið sem varð til þess að ég hryggbrotnaði. Ég er í endurhæfingu í dag vegna þess hjá sjúkraþjálfara og mun verða næsta árið.

Sema Erla Serdar formaður Solaris

Baráttunni er ekki lokið

Árið 2017 hefur verið ansi viðburðaríkt hjá mér en það sem stendur upp úr sem það besta á árinu, fyrir utan góða heilsu, fjölskylduna, voffana og vini, er stofnun Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi í janúar 2017 og sá mikli árangur sem við höfum á þessum stutta tíma náð í að bæta stöðu og réttindi fólks á flótta sem er hér á landi og býr við margvíslega neyð, skert réttindi og þjónustu og jafnvel mannréttindabrot. Án góðs stuðnings almennings hefði fátt af því sem við höfum gert orðið að veruleika. Baráttunni er þó langt í frá lokið og mun halda áfram á nýju ári.

Það sem stendur upp úr sem hið versta á árinu, fyrir utan persónulega sorg, missi og aðra erfiðleika, eru endalausar persónuárásir, jafnt á mig sem og fjölskyldu mína, ítrekað netníð og annað áreiti, fordómar, hatursorðræða og hótanir, stundum morðhótanir, sem því miður fylgir því að ég berjist fyrir bættum kjörum og réttindum fyrir fólk á flótta. Það er fyrst og fremst vegna uppruna míns, en það, ásamt fjölmörgum öðrum dæmum sem til eru, segir okkur að fordómar, öfgar og útlendingaandúð er vaxandi vandamál í íslensku samfélagi. Það er mikilvægt að við bregðumst öll við því og látum slíkt ofbeldi aldrei viðgangast.

Ég skipulagði í haust, fyrir hönd Æskulýðsvettvangsins, metnaðarfulla og mikilvæga ráðstefnu um hatursorðræðu í íslensku samfélagi. Um var að ræða fyrstu stóru ráðstefnuna sem haldin hefur verið hér á landi um þetta hættulega samfélagsmein og segja má að hún standi einnig upp úr sem eitt af því besta á árinu. Hið sama má segja um verkefnið hans Georg Leite, New Faces of Iceland, sem mér hlotnaðist sá mikli heiður að taka þátt í. Um er að ræða hrikalega flotta ljósmyndabók með mörgu flottu fólki sem á það sameiginlegt að vera af íslenskum sem og öðrum uppruna. Verkefni eins og þessi eru til þess fallin að vinna gegn fordómum og útlendingaandúð og ég vil sjá meira af slíku á nýju ári.

Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi

Erfitt að horfa upp á þöggun og meðvirkni

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ég er að læra verkefnastjórnun í HR samhliða vinnunni minni. Á vorönn þetta árið var námskeið sem snerist um að framkvæma raunverulegt verkefni í þágu samfélagsmálefna. Minn hópur vann með samtökunum Hugarafli að því að koma upp hlaðvarpi um geðheilbrigðismál. Það komst í gang í samvinnu við Kjarnann, þættirnir heita Klikkið. Það er alltaf gaman að sjá hugmyndir verða að veruleika og þetta er auðvitað málefni sem ég brenn fyrir persónulega.

Þegar ég velti þessari spurningu fyrir mér tók ég eftir því hvað vondir hlutir virðast sitja stutt í mér þessa dagana, sem er nú bara gott mál. Ég get samt nefnt að það tók á mig persónulega að horfa upp á augljósa þöggun og meðvirkni með gerendum í tengslum við baráttu þolenda við að fá svör um svokallaða uppreist æru. Ég fann til með þeim þegar þær lýstu þjáningunum sem viðmót kerfisins olli þeim. Við eigum langt í land sem samfélag þegar kemur að skilningi á þessum reynsluheimi – og svo breyttist ekkert í rauninni með nýrri ríkisstjórn.

Bergur Þór Ingólfsson leikari

Kona grét í fangi Bergs á Austurvelli

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það besta sem gerðist árið 2017 er #höfumhátt. Við eignuðumst nýja vini sem verða órjúfanlegur hluti af lífi okkar til frambúðar. Fólk steig fram sem hafði áður setið inni með sögur sínar af brotum sem það hafði orðið fyrir. Stúlkan sem faðmaði okkur fyrir utan Hlemm á Menningarnótt. Konan sem grét í fanginu á mér á Austurvelli. Skeytin, stuðningurinn og sögurnar. Kerfið sem sagði okkur að þegja þurfti að gjöra svo vel að hlusta og bregðast við. Þagnarmúr var rofinn.

Það versta við árið 2017 var leyndar- og valdhyggjan. Þolendum kynferðisbrota var sagt að þegja og fara með bænirnar sínar. Fulltrúar stjórnmálaflokka gengu af fundum til að koma í veg fyrir að mál yrðu upplýst og gáfu í skyn að fólk sem var að leita svara við einhverju óskiljanlegu væri að beita ofbeldi. Æðstu ráðamenn reyndu að halda almenningi óupplýstum með því að svæfa umræðuna eða fela sig á bak við lög sem stóðust ekki. Tregðan og ógagnsæið. Ástin á úr sér gengnu kerfi. Ekki tókst að koma á lögum sem eiga að hindra að barnaníðingar gegni lögmannsstörfum.

Edda Björgvinsdóttir leikkona

Hrakin út af eigin heimili

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það langbesta við árið 2017 var að ég eignaðist aftur heimili eftir mikið flakk á milli staða mánuðum saman. Þær voru líka ævintýri líkastar viðtökurnar sem kvikmyndin Undir trénu og ég fengum eftir frumsýningu og umsagnir erlendra og innlendra gagnrýnanda voru hreint út sagt ótrúlegar! Ferðin til Feneyja á kvikmyndahátíðina frægu var eins og að detta inn í ævintýramynd frá Hollywood (sem við fengum reyndar að heimsækja síðar á árinu til að kynna myndina). Einnig var sérlega skemmtilegt að byrja aftur að vinna í Þjóðleikhúsinu eftir nokkurt hlé og sumarið færði mér ást og dásamlegar samverustundir með börnunum mínum, fjölskyldum þeirra og ómetanlegum vinum. Ég er lukkunnar pamfíll!

Það versta við árið 2017 var að vera hrakin út af mínu gamla heimili af sveppum, pöddum, raka og fáeinum leiðindaskjóðum! Það var líka fremur ónotalegt að þurfa nokkrum sinnum að rifja upp sannindin: „Hurt people, hurt people“ eða lauslega snarað: „meitt fólk, meiðir fólk“. Vinir sorterast þegar þú nýtur velgengni. Þá tínast burt þeir sem eiga erfitt með að samgleðjast og þurfa jafnvel að meiða, iðulega af fyrrgreindri ástæðu, sem sagt þeir hafa verið meiddir af öðrum. Það er auðveldara að rétta fram hjálparhönd þegar einhver á bágt, en að hampa vinum þegar sólin skín á þá.

Ég er óendanlega þakklát fyrir hvatninguna og stuðninginn frá stórum hluta hluta landa minna á árinu, en sé að sama skapi eftir þeim vinum sem hafa horfið úr lífi mínu.

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu og meistaranemi í viðskiptalögfræði.

Aðför íslenskra stjórnvalda að Útvarpi Sögu

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það sem var best hjá mér persónulega á árinu, var að taka þá ákvörðun að fara í meistaranám í viðskiptalögfræði. Ég var að ljúka nokkrum prófum núna og það er mjög góð tilfinning og hressandi. Það er mikill erill sem fylgir starfi útvarpsstjóra og stjórnanda fjölmiðils svo það er ákveðin hvíld í því að einbeita sér að öðrum hlutum líka.

Það versta á árinu var að upplifa aðför íslenskra stjórnvalda að fyrirtæki mínu. Ég er eina konan á Íslandi sem er eigandi ljósvakamiðils en Útvarp Saga var sett á lista hjá Evrópuráðinu, yfir þá fjölmiðla sem ætlað er að stundi meintan hatursáróður. Þetta var gert án dóms og laga og allt í trúnaðarsamtölum sem enginn fær að sjá. Útvarp Saga hefur aldrei fengið slíka kæru á sig þannig að ákvörðunin var grimmdarleg og byggði á slúðri og botnlausri meinfýsi. Vonbrigði mín voru þau að nánast eingöngu konur í valdastöðum tóku þessa ákvörðun og komu henni á framfæri fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Þær sömu konur og segja núna metoo og boða kvennabyltingu og meiri völd. Að svona skuli gerast á árinu 2017 veldur mér áhyggjum og því ætla ég að fylgjast sérstaklega vel með Katrínu Jakobsdóttur í starfi og sjá hvort hún ætlar að viðhafa svona vinnubrögð áfram í boði íslenskra stjórnvalda.

Birgir Örn Guðjónsson (Biggi lögga)

Allt jákvætt

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Árið sem er að líða hefur verið fáránlega viðburðaríkt og skemmtilegt fyrir mig persónulega og þess vegna er af mörgu að taka þegar maður á að velja það sem var best. Ég held samt að ég velji það að ég tók mér hálft árið í frí frá löggunni og skellt mér í háloftin sem flugþjónn hjá Icelandair. Það var ótrúlega jákvæður og lærdómsríkur tími þar sem ég fékk að heimsækja marga nýja staði, kynnast heilmörgu algjörlega frábæru fólki og fá innsýn inn í snilldarfyrirtæki.

Það er náttúrlega ósanngjarnt að láta mann reyna að rifja upp eitthvað sem var verst fyrir mann á árinu. Ég er nefnilega ekkert að grínast þegar ég segi að mér dettur bara ekkert í hug. Ætli það sé ekki jákvætt? Ég gæti svo sem komið með fallegt fegurðardrottningarsvar um stríð, ófrið og alls konar vesen, en það væri bara klisja. Og út af öllum stríðunum þá get ég heldur ekki nefnt það að fartölvan mín kvaddi þennan heim, sem var bömmer. Slíkt væri hégómi. Mér sýnist því bara þetta svar stefna í að verða það versta sem komið hefur fyrir mig á árinu 2017.

Birgitta Jónsdóttir skáldkona og fyrrverandi þingmaður Pírata

Hlakkar til að verða amma

Tengsl við annað fólk er eitt það mikilvægasta í lífi sérhvers manns. Ég og dóttir mín höfum djúpstæð tengsl og því var það svo að ég vissi vegna draumfara að hún væri að búa til litla mannveru í líkama sínum áður en hún sagði mér frá því. Vitneskjan um litla bumbubúann er með sanni það besta sem ég upplifði á þessu ári sem er að líða. Hlakka svo óendanlega mikið til þess að verða amma.

Það versta á þessu ári var að ekki tókst að koma í verk öllu því sem við vorum búin að vera að vinna að á þinginu út af óvæntu þingrofi. Ég horfi núna á meira en átta ára vinnu með fjölda fólks verða að engu og það er óendanlega sorglegt. Nýjar leikreglur eru nauðsynlegar til að sagan haldi ekki áfram að endurtaka sig. Nýja stjórnarskráin inniber slíkar breytingar. En ég óttast að við fáum ekki þessar breytingar fyrr en eftir næstu skakkaföllin í landsmálunum. Þangað til þá munum við halda áfram að byggja samfélag á sandi.

Valur Grettisson rithöfundur og ritstjóri Reykjavik grapevine

Stjórnmálamenning á Íslandi á pari við þá bandarísku

Það var töluverður áfangi í mínu lífi þegar leikrit eftir skáldsögu minni, Gott fólk, var frumsýnd Þjóðleikhúsinu. Þá var ekki verra að leikritið hlaut tvenn Grímuverðlaun, annars vegar fyrir besta leikstjórn hjá Unu Þorleifsdóttur, og svo fyrir bestan leik í aðalhlutverki karla. Þá sýndi #meetoo-byltingin einnig hversu þarfur efniviður leikritsins var, enda var fjallað um blæbrigði kynferðisofbeldis sem sjaldnast er kært.

Sennilega þegar hálfvitavæðing stjórnmálanna varð algjör eftir að Donald Trump tók við völdum. Þá má segja að stjórnmálamenningin á Íslandi hafi verið á pari við bandaríska stjórnmálamenningu og eyðilagði nokkurn veginn fyrir manni haustið með falsboðum sem enduðu með því að sögulegar sættir urðu á milli VG og Sjálfstæðisflokksins. Sættir, sem ég held að ég geti fullyrt, að enginn vitiborinn kjósandi hafi beðið sérstaklega um.

Snorri í Betel

Réttlátir dómar Guðs

Mynd: Mynd: dv/ Bjarni Eiríksson

Allt samverkar þeim til góðs sem trúir!
Dauðsfall tengdaföður míns var eitt af því sem flokkast til þess versta sem við bar. Við vorum bæði nánir og góðir vinir. Hann bjó á heimili okkar í áratug. Ég var viðstaddur síðasta andvarpið. Allt tekur þetta á en undarlegt er samt að síðustu viku þá komu barnabörnin hans og kvöddu með vinsemd og virðingu. Sorgin kom íklædd vináttu og eftirsjá.
Það gleðilega má nefna sölu á húsi mínu til góðs fólks sem ég er afar þakklátur fyrir að hafa átt viðskipti við. Að kynnast ungu fólki sem á kafla í ævisögu minni er mér gleðigjafi.

Það jók á gleði mína að vinna skaðabótamálið við Akureyrarbæ vegna ólögmætrar uppsagnar úr Brekkuskóla. Samt bar skugga þar á. Ég taldi mig eiga rétt til þeirra bóta sem ég krafðist enda reiknað út af tryggingafræðingi. Það jók á sorg mína sú afstaða Akureyrarbæjar að áfrýja og halda áfram ranglátu máli.

Kannski fæ ég betri bætur fyrir bragðið og má því gleðjast í voninni að réttlátir dómar eru í hendi Guðs og verði enn eina ferðina mér til bóta! Þannig hefur árið boðið upp á gott og slæmt en „allt breytist í blessun um síðir“.

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður á Morgunblaðinu

Afi gekk Ernu í föðurstað

Ég hef verið alveg sérlega heppin þetta árið jafnvel þótt áföll hafi einnig dunið yfir. Ég stofnaði tvö fyrirtæki á árinu með aðstoð traustra vina. Þar með er fræjunum að viðskiptastórveldi mínu og félaga minna sáð og það gengur þó hægt fari sökum anna hjá öllum hlutaðeigandi.

Frumkvöðullinn, fjölmiðlafrömuðurinn og kjarnorkukonan Arnþrúður Karlsdóttir bauð mér að vera með vikulegan útvarpsþátt á Útvarpi Sögu. Í vor sótti ég svo um og fékk vinnu sem blaðamaður hjá Árvakri, nánar tiltekið á fréttadeild Morgunblaðsins.

Morgunblaðið gæti jafnast á við að vera blaðamannaskóli Íslands sökum þess hve mikið af metnaðarfullu og vönduðu fólki, mörg með áratuga reynslu, vinnur þar baki brotnu við að færa lesendum fréttir og hvaðeina fróðlegt og skemmtilegt.

Ég hef hvergi fundið betri líkamsrækt, með meiri líkamsvirðingu og skemmtilegri tónlist en súludans, fyrir utan hvað það eru glaðar, sterkar, flinkar og skemmtilegar stelpur í þessu. Það fer engum sögum af því enn hvenær ég get farið að sýna eða vinna fyrir mér á súlunni en gleðin og bætt heilsa og álfakroppurinn gera mig hamingjusama.
Afi minn sem gekk mér í föður stað og ól mig upp féll frá í byrjun október. Hann var 96 ára og saddur lífdaga en ég missti eina föðurinn sem ég þekkti. Þrír aðrir ættingjar og fjölskyldumeðlimir féllu frá á árinu, síðan í maí. Í samanburði við þetta er annað sem fór úrskeiðis ekki þess virði að minnast á það.

Ég hef enn ekki haft krafta í að skrifa minningargreinar eða hugsa of mikið um þessa atburði, til þess voru þeir of margir og snerta mig of djúpt. Jólahátíðin nú verður með öðru og rólegra sniði en áður, ef til vill mun tíminn nýtast til að minnast og sakna að þessu sinni.

Gunnar Lárus Hjálmarsson tónlistarmaður

Ældi á gangstéttina við Trump Tower

Mynd: Hörður Sveinsson

Best var að komast aftur til Finnlands og hitta þar stráka sem ég var að spila og túra með rétt upp úr 1990. Ég var þarna á frumsýningu myndar númer tvö um finnsku pönkarana í PKN og kom fram í eftirpartíinu. Svo fór ég í eitt alheitasta sána sem ég hef farið í og kom heim alslakur.

Ekkert gríðarlega vont henti mig á árinu en ég var ansi aumingjalegur úti í New York þangað sem ég fór til að sjá tónleika með Ringo Starr og Billy Joel. Ég hlýt að hafa étið eitrað grænmeti á salatbarnum í Whole Foods því ég fékk þessa hressilegu matareitrun og ældi eins og múkki á gangstéttina við Trump Tower. Ég hélt ég væri orðinn góður en þá tók þetta sig upp aftur og ég ældi út allt herbergið á YMCA-hótelinu, ef hótel má kalla. Ég var settur í nýtt herbergi og var þar að mestu til friðs.

Logi Einarsson þingmaður og formaður Samfylkingarinnar

Ég mun leggja mig fram

Það besta er að fjölskyldan hefur verið heilsuhraust og ég hef átt því láni að fagna að fylgjast með börnunum mínum vaxa og dafna í námi og áhugamálum. Það er þrátt fyrir allt það mikilvægasta sem hægt er að biðja um.
Þá gleðst ég auðvitað líka yfir auknu fylgi Samfylkingarinnar. Það mun gera áframhaldandi sókn jafnaðarmanna auðveldari, svo ekki sé talað um hvað það verður skemmtilegt að starfa með þessum litríku, skemmtilegu einstaklingum í þingflokknum.

Það er hins vegar verra að skrokkurinn heldur áfram að síga úr hinu guðlega gullinsniði eftir því sem árin færast yfir og vegna vaxandi agaleysis við matarborðið. Sjónin heldur líka áfram að versna með aldrinum og ég þarf líklega að fara að ganga með gleraugu að staðaldri.

Þetta eru auðvitað lítilfjörleg vandamál miðað við það sem alltof margt fólk glímir við í sínu lífi. Mörgu af því fáum við auðvitað ekki breytt en talsvert væri hægt að bæta. Ég mun mun leggja mig fram um það í vinnunni minni á Alþingi.

Margrét Pála Ólafsdóttir stofnandi Hjallastefnunnar

Tilkynning til barnaverndar erfið

Mynd: © DV / Kristinn Magnússon

Vá, hvað var gaman að verða sextug. Algjör hamingja að finna innst í hjartarótunum hvað ég á dásamlega fjölskyldu og vinkonur og vini sem sýndu svo skilyrðislaust hvað þeim þykir vænt um mig. Svo var afmælisveislan sjálf algjör kjarkæfing; að standa fyrir framan á annað hundrað manns bara út af sjálfri mér en ekki vegna hugsjónar eða mikilvægs verkefnis. Úff, hvað það reyndi á … Svo hefur hver áratugur reynst óstjórnlega spennandi og konur á sjötugsaldri eru bara óstöðvandi.

Sársaukafyllsta reynsla mín til margra ára var í sumar þegar einn af Hjallastefnuskólunum fór í gegnum skoðun barnaverndarnefndar vegna tilkynningar. Skoðunin sjálf var auðvitað sár en börn eiga alltaf að njóta alls vafa og það verðum við skólafólk og foreldrar að harka af okkur. Sárast var að skólinn skyldi lenda í fjölmiðlum í gúrkutíðinni og við vorum svo mörg sem þjáðumst. Ekkert nístir hjarta mitt meira en grunur um að eitthvað sé að í aðbúnaði barna og hér skal játað að ég fór ekki ógrátandi gegnum þessa reynslu.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur

Grýtt er leiðin til stjarnanna

Að mínu mati var sú ákvörðun mín að segja mig úr Framsóknarflokknum og vera hluti af stofnun Miðflokksins merkilegt fyrir mig á árinu, svona fyrst maður er í stjórnmálum að einhverju leyti. Árangur flokksins er góður og spennandi tímar framundan í sveitarstjórnarmálum. En stjórnmál koma og fara og breytast reglulega. Stundum valda þau manni ákveðnum vonbrigðum og stundum hafa þau jákvæð áhrif. En við sjáum um það sjálf hvernig stjórnmálin eiga að vera.

En líklega er efst í huga mínum og hjarta og það áhrifamesta á árinu alvarleg veikindi í fjölskyldu minni. Þau hafa breytt öllu í lífi okkar í dag. Þau marka nýtt upphaf og lífsreynslu sem mun breyta okkur fjölskyldunni og móta allt okkar líf. Í sumar hófst sú raunaferð og tók toll sinn með ýmsum hætti. Í dag sé ég enn skýrara að hver dagur er mikilvægur og ég hef ljóslifandi dæmi um það að hann getur breyst á augabragði, einu augnabliki. Það er því verkefni hvers dags að þakka fyrir þann sem líður og halda áfram göngunni. Grýtt er leiðin til stjarnanna.

Marta María ritstjóri Smartlands

Óvirðing við hinn látna náði hámarki

2017 var magnað ár á margan hátt. Auðvitað var það alveg snúið á köflum en gleðistundirnar voru líka margar. Á árinu fann ég óþægilega fyrir því hvað skiptir mig mestu máli í lífinu. Bestu stundirnar átti ég með manninum mínum og börnum og svo átti ég líka mjög gott sumar með foreldrum mínum og systkinum. Það besta er líklega ferðalag sem við maðurinn minn fórum í þegar við laumuðum okkur á síðustu stundu í ferð sem skipulögð var fyrir útskriftarnema úr MS til Búlgaríu. Við vorum reyndar á öðru hóteli en þetta land er ævintýri líkast. Búlgaría er afbragð.

Það versta var líklega að keyra fram á dauðaslys í Marokkó síðasta vor. Þegar við keyrðum framhjá lá látinn unglingur í blóði sínu eftir vélhjólaslys. Það sem var óhugnanlegt, fyrir utan að sjá líkið liggja á götunni, var að í kringum líkið hópuðust unglingar með snjallsíma og voru að taka upp myndskeið. Óvirðing við hinn látna náði þarna hámarki.

Þór Jónsson fjölmiðlamaður og laganemi

Búslóðin farin með skipi

Þetta hefur verið gott ár. Það veit ég meðal annars vegna þess hvað ég þurfti að hugsa vel og lengi um hvernig ég myndi svara spurningunni um hvað hefði verið mér mótdrægt á árinu. Best var áreiðanlega að ég fékk stöðu sem ég sótti um hjá Norrænu ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn. Búslóðin er farin með skipi og ég fylgi á eftir í janúar.

Verst var ábyggilega að prófin í HR fyrir jól gengu verr en ætlað var, en þar hef ég stundað laganám undanfarin ár. Eitthvað varð þó undan að láta, því að prófin voru í flutningunum miðjum, auk þess sem nóg hefur verið að gera á lögmannsstofunni sem ég hef vinn hjá. En – flýtur á meðan ekki sekkur.

Hallgrímur Helgason rithöfundur

Jól haldin í skýjunum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Vonbrigðin með kosningarnar, baráttuna og úrslitin. Hvernig þetta fór að snúast um allt annað en það mikilvæga mál sem felldi stjórnina. Og svo vonbrigðin með VG, að þau skuli hafa kosið þetta kompaní í stað þess að reyna til þrautar að mynda stjórn með flokkum sem eru þó allavega stjórnmálaflokkar en ekki hagsmunabjörg. Það breytir enginn bjargi, sama hversu bjartsýnt fólk er. Þetta svar á víst að vera á persónulegum nótum en ekki pólitískum, en þetta með VG snertir mann samt persónulega því margt af þessu fólki er manni svo kært og margir góðir kunningjar þarna. Því eru vonbrigðin sár.

Skemmtilegt ár að baki, fullt af fjöri, ferðalögum innri og ytri, skrifum, sýningum, verðlaunum, útgáfum og frábæru ljóðabókaflóði. Áttum góðar stundir í Hollandi í sumar, með krökkunum á EM kvenna, þar sem við villtumst til dæmis alls óvart inn á Michelin-stað í miðjum hjólatúr um uppsveitir Brabant-sýslu með skondnum afleiðingum. „Merkja þetta betur, Skúli minn,“ var setning sem átti þar vel við með öfugum formerkjum, en þjónarnir sögðu staðinn „ekki vilja monta sig“ af stjörnunum frægu. Það sem toppar þó allt er að okkur Öglu tókst loks að verða ólétt á þessu ári og meðgöngunni lauk með þvílíkum glæsibrag nú rétt fyrir jól: Laust eftir miðnætti þann 18. desember kom lítil stúlka í heiminn, fögur, spræk og sérlega hárprúð (!). Þessi jól verða því haldin í skýjunum og maður er alveg búinn að gleyma því hvaða fólk er í ríkisstjórn.

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og þingmaður

Endaði á óvæntum stað

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Til allrar hamingju henti mig ekkert slæmt á þessu ári. Hins vegar fylgdu því margvíslegar tilfinningar og margs konar vafstur, að taka niður bernskuheimilið í Karfavogi, „afbyggja“ það eins og bróðir minn kallaði það og kveðja þá tilveru fyrir fullt og allt þannig að nú er það heimili bara til í minningum okkar. Þá var maður loksins „farinn að heiman“ fyrir fullt og allt. Svo endaði maður á alveg nýjum og óvæntum stað í tilverunni, kosinn á þing á afmælisdegi mömmu.

Um leið og því fylgdi söknuður að kveðja vini á Forlaginu þá var mjög gaman að kynnast nýju fólki í kosningabaráttunni þar sem okkur jafnaðarmönnum tókst að endurheimta þingsæti í okkar gamla vígi í Kraganum. Þannig að nú er ég næstum sextugur að læra nýtt og krefjandi starf þar sem ég á vonandi eftir að gera gagn. Hver dagur er fullur af spennandi verkefnum í þessari nýju tilveru en best líður mér alltaf þó heima við eldhúsborðið þegar við sitjum þar fjölskyldan öll.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður og formaður Viðreisnar

Verst að upplifa ótímabæran missi

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar kemur að stjórnmálunum eða þeim vettvangi sem ég lifi og starfa á er auðvelt að svara því hverjar voru hæðir og lægðir þessa árs sem nú er á enda. Ég mun hins vegar halda mig við það sem spurt er um og það er það persónulega. Það besta – fyrsta sem ég leiddi hugann að var ferming dóttur minnar og myndin sem kemur upp í hugann þegar hún var full tilhlökkunar að telja niður dagana þar til hún myndi fermast. Hún brosti allan hringinn og var eins og sólin ein. Katrín Erla er reyndar eina barnið mitt sem ekki fermist í kaþólsku kirkjunni, það er pínu skrýtið, en séra Sigríður og séra Einar í Fríkirkjunni í Hafnarfirði tóku henni opnum örmum eins og þeim einum er lagið. Mikil vellíðan.

Tilhlökkun dótturinnar beindist fyrst og fremst að því hverjir kæmu til hennar á fermingardaginn en henni líður sjaldan jafn vel og þegar fjölskyldan og vinir eru í heimsókn. Svolítið út á það sem jólahátíðin gengur út á – fjölskyldutengsl, gleði og kærleika. Það besta er líka fólkið sem ég kynntist betur á árinu. Langflestir þessara einstaklinga eru topp eintök. Margbreytileiki persóna reynir á mann sjálfan og er ákveðið lærdómsferli. Skemmtilegt og ögrandi í senn. Miskunnarlaust og heillandi.

Ég gæti auðveldlega sagt að það hafi verið glatað að spila sjaldan, og frekar ömurlegt, golf á árinu og vonbrigði með litla viðveru í sveitinni minni. Geri gangskör að því að auka tímann í Ölfusinu á nýju ári og setja niður plöntur. En það versta á árinu var að upplifa ótímabæran missi góðrar vinkonu. Þegar of margt er eftir órætt.

Björk Eiðsdóttir ritstjóri MAN

Draumahúsið fannst

Mynd: © DV / Kristinn Magnússon

Þegar ég lít til baka yfir árið 2017 stendur klárlega upp úr að ég og maðurinn minn fundum loksins húsið okkar. Eftir að hafa skoðað fleiri hús en má ætla að ég hafi komið inn í æviferlinum fannst loks rétta niðurstaðan. Fasteignamarkaðurinn á síðasta ári var þannig að það hefði auðveldlega mátt æra óstöðugan með tilraun til fasteignakaupa. Hver getur skoðað húsnæði seinnipartinn og vitað fyrir víst að hann vilji setja aleiguna í það um kvöldmatarleyti? Ég gleðst klárlega yfir því að þessu tímabili sé lokið og hafi verið leyst farsællega og uni sátt á nýjum stað.

Það er kannski ekkert sanngjarnt gagnvart ævintýraþyrstum og sjálfstæðum dætrum mínum að nefna þá staðreynd að þær hafi flutt af landi brott með nokkurra mánaða millibili sem það versta sem gerðist á árinu. En ég segi þetta nú bara í bullandi eigingirni. Vá, hvað ég er stolt af þeim að takast á við heiminn stóra sem svo nauðsynlegt er fyrir ungt, fólk alið upp í míkrósamfélagi, að skoða en mikið ofboðslega sakna ég þeirra. Vistarverur þeirra í téðu húsi eru þó talsvert snyrtilegri þessa dagana, það er viss huggun harmi gegn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Veikindi móður mikil áskorun

Það besta á árinu er án efa að ná kjöri sem formaður VR og sá mikli meðbyr sem ég hef fengið í þann stutta tíma sem ég hef verið í starfi. Stuðningur frá félagsmönnum, fjölskyldu og vinum skiptir þar mestu um en starfsfólk félagsins hefur einnig reynst mér afar vel og staðið með niðurstöðu kosninganna. Svo ber að fagna því að vinur minn Hjörvar Hjörleifsson útskrifaðist sem húsasmíðameistari.

Alvarleg veikindi móður minnar hafa reynst fjölskyldunni mikil áskorun þótt hún takist á við þau af miklu æðruleysi. Það er einhvern vegin ekki hægt að finna eitthvað neikvætt við lífið í samanburði við það nema kannski húmorinn hans Hjörvars. Þó þótti mér miður að standa ekki við þær skuldbindingar sem ég hafði gert gagnvart vinnuveitenda mínum þegar ég náði óvænt kjöri og ljóst var að ég þyrfti að skipta um starfsvettvang en sem betur fer var mikill skilningur fyrir því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 19 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?