fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Kynbomban Oddný: „Ég er með alveg rosalega stór brjóst“

Oddný Ingólfsdóttir er 180 sentimetrar á hæð og er með 124.000 fylgjendur á Instagram

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 22. janúar 2018 15:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin íturvaxna undirfatafyrirsæta Oddný Ingólfsdóttir er með 124 þúsund fylgjendur á Instagram en á síðasta hálfa ári hefur hún eignast tugþúsundir aðdáenda sem sumir bjóða henni gull og græna skóga í skiptum fyrir vinskap, eða jafnvel hjónaband.

Oddný er engin písl. Hún er boldangskvenmaður, heilir 180 sentimetrar á hæð og notar brjóstahaldara í stærðinni 34 HH en það má segja að þessi gjöfula brjóstastærð, í bland við áhuga hennar á undirfötum, ávalar línur og einkar fagra andlitsdrætti séu ástæðan fyrir vinsældunum.

Þegar hún opnaði reikning sinn á Instagram fyrir fjórum árum hafði Oddný enga sérstaka stefnu aðra en að skrifa myndatexta á ensku og reyna að nota viðeigandi myllumerki. Fyrsta myndin sem hún birti var til dæmis af kokteilsósubrúsa, svona til að prófa myndavélina. Að loknu förðunarnámi fjölgaði hún sjálfunum og fékk fyrir vikið fleiri „like“, en þegar fyrsta brjóstahaldaramyndin birtist fjölgaði aðdáendum hennar svo um munaði.

„Sko, ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að útskýra þetta – en ég er með alveg rosalega stór brjóst, nota stærðina 34 HH og í mörg ár hef ég því þurft að panta mér brjóstahaldara af netinu, einfaldlega af því ég fæ ekkert sem passar á mig hérna heima,“ segir hún.

„Svo hef ég alveg svakalega mikinn áhuga á undirfötum, les nærfatablogg og fylgi alls konar undirfatafyrirtækjum á netinu. Í gegnum tíðina hef ég safnað fullt af fallegum undirfatnaði og einn daginn langaði mig bara geðveikt mikið að taka mynd af sjálfri mér á nærfötunum og birta á Instagram,“ útskýrir Oddný og bætir við að hún hafi aldrei haft mikið sjálfstraust en jákvæð viðbrögð við fyrstu undirfatamyndinni hafi blásið henni hugrekki í brjóst og hvatt hana til að halda áfram.

Hún segir að til að byrja með hafi hún ekki haft nema um tvö hundruð fylgjendur á þessum vinsæla samfélagsmiðli en síðustu mánuði hafi þeim fjölgað verulega.

„Á síðustu sex mánuðum hefur þessi fjöldi tekið svakalegt stökk. Fyrst voru þetta bara nokkur hundruð, svo nokkur þúsund en undanfarið hálft ára hafa að meðaltali ellefu þúsund fylgjendur bæst við í hverjum mánuði,“ segir hún og vísar í greiningarforritið Socialblade.com.

„Ætli sjálfstraustið haldi ekki aðeins aftur af manni?“

Instagram gengur að mörgu leyti út á afmörkuð áhugasvið notendanna en vinsælustu reikningarnir snúast til dæmis um förðun, líkamsrækt, ferðalög, matargerð, gæludýr og annað í þeim dúr. Kynþokkinn nýtur einnig mikilla vinsælda hjá notendum og hér gildir hið fornkveðna að „hver maður spilar sinn leik“.

Hvort sem fólk kann að meta mikla eða litla vöðva, stór eða lítil brjóst, breiðar eða grannar mjaðmir, allir fá eitthvað fyrir sinn snúð á Instagram svo lengi sem leitað er eftir réttum myllumerkjum.

Eins og áður segir hefur Oddný frá upphafi skrifað alla myndatexta á ensku og verið dugleg að nota viðeigandi myllumerki en þetta hefur meðal annars orðið til þess að aðdáendur ávalra lína hafa verið ötulir að endurbirta myndirnar hennar sem og áhugafólk um líkamsvirðingu.

Daglega magnast snjóboltaáhrifin og fáar jafnöldrur standa henni á sporði hvað vinsældir varðar en aðeins örfáir Íslendingar hafa svo marga fylgjendur að þeir hlaupi á tugum þúsunda.

Fjallið svokallaða, Hafþór Júlíus Björnsson, er með rúmlega eina milljón, Annie Mist með 742 þúsund og Margrét Gnarr um 95 þúsund eða aðeins færri en Oddný sem segist aldrei hafa keypt sér fylgjendur heldur skrifar hún velgengnina aðallega á áðurnefndar endurbirtingar (shout outs) og myllumerkin góðu.

Vinsældirnar hafa meðal annars gert það að verkum að Oddný þarf ekki að borga fyrir undirfötin sín lengur enda komin í samstarf við nokkra af sínum eftirlætis framleiðendum.

„Þetta fór eiginlega almennilega af stað fyrir svona hálfu ári en þá ákvað ég að reyna að gera bara eitthvað almennilegt með þennan reikning. Vandaði myndatökurnar og hafði svolítið meira fyrir þeim. Upp úr því fóru hlutirnir að gerast mjög hratt og nú er ég komin í samstarf við nokkur stór tískufyrirtæki. Til dæmis Curvy Kate, sem ég hef elskað frá því ég var sautján ára, Dear Scamtilly, BrasDot og Fashion Nova. Enn sem komið er hef ég þó ekki fengið greitt fyrir fyrirsætustörfin í peningum enda er þetta bara hobbí hjá mér enn sem komið er. Ætli sjálfstraustið haldi ekki aðeins aftur af manni,“ segir hún.

Er hvött áfram af kærastanum

„Ég hef líka verið svolítið smeyk við íslenska markaðinn, óttast aðeins dómhörku sem er kannski óþarfi af því að ég hef aðallega fengið góð viðbrögð og hvatningu frá Íslendingum,“ segir Oddný sem hefur líka fengið bónorð og alls konar misjöfn tilboð.

„Stundum fær maður svakalega ógeðsleg skilaboð og þeim svara ég auðvitað ekki en stundum finnst mér líka gaman að rugla í fólki. Bónorðin koma aðallega frá mönnum sem búa í Mið-Austurlöndum en þeir virðast vera með brúðkaup á heilanum. Einn bisnessmaður frá Dúbaí bauð mér að koma og gerast yfirkokkur á veitingastað sem hann rekur þar og hann var ekkert að grínast með það. Sumir þessara manna eru í marga mánuði að reyna að ná athygli en ég kippi mér ekkert upp við það,“ segir hún og hlær.

Spurð að því hvort kærastinn hennar sé sáttur við samkeppnina segir hún hann of fullorðinn til þess að vera að stressa sig á þess háttar smáræði, en þau hafa verið saman í fjögur ár og hafa bæði verið í kokkanámi.

„Birkir Freyr er aðallega í því að hvetja mig og styðja í þessu áhugamáli mínu. Hann hjálpar mér að taka flottar myndir, rekur á eftir mér að setja inn nýjar myndir og þess háttar. Þegar ég segi að hann sé of fullorðinn til að stressa sig á samkeppninni þá á ég bara við að hann er of andlega þroskaður til þess. Hann er kannski með 27 ára líkama en andlega er hann 75 ára,“ segir hún og skellir upp úr.

Fékk brjóstin úr föðurættinni

Spurð að því hvort stóru brjóstin séu ættareinkenni segir Oddný þau beint úr föðurættinni en hæðina fékk hún úr móðurætt.

„Amma mín er með svona stór brjóst líka en mjaðmirnar og rassinn koma úr fjölskyldu mömmu. Það eru allir eins og perur í laginu þar. Undanfarið hef ég reyndar bætt á mig aukakílóum svo vaxtarlagið hefur kannski orðið aðeins ýktara. Það var erfitt að halda reglu þegar maður var undir stöðugri pressu í kokkanáminu. Þá kom maður örmagna heim á kvöldin og langaði bara í pítsu,“ segir Oddný sem mætir nú reglulega í World Class í Laugum og Smáralind og reynir að passa upp á mataræðið.

„Núna er ég aðallega að fókusera á brennsluæfingar en eftir svona tvo til þrjá mánuði ætla ég að byrja að lyfta aftur og verða eins sterk og ég get. Ég hef mikinn líkamlegan styrk og hef mjög gaman af því að lyfta. Við systkinin erum reyndar öll svona. Eldri bróðir minn er alveg risastór, tveir metrar, og sá yngri er sirka 182 sentimetrar en hann er aðeins fjórtán ára. Þetta er svolítið fyndið af því báðir foreldrar okkar eru pínulitlir, mamma er bara rétt rúmlega 160 sentimetrar en svo var aftur gríðarlegur hæðarmunur á ömmu hennar og afa. Langafi minn, Kjartan Bjarnason frá Siglufirði, var 210 sentimetrar en langamma mín var bara 150,“ segir Oddný og flissar.

Krafin um fullorðinsgjald í strætó og fékk ekki fara í Boltaland

Um fermingu var Oddný orðin fullvaxta, eða 180 sentimetrar á hæð eins og fyrr segir. Henni þótti tilveran stundum svolítið erfið frá þessu sjónarhorni en þó aðallega þegar hún var krakki.

„Ég var til dæmis alltaf krafin um fullorðinsgjald í strætó og var jafnvel vísað út þegar bílstjórarnir trúðu því ekki að ég
væri enn á barnafargjaldi. Svo var mér oft vísað frá Boltalandi í IKEA sem mér fannst alveg ömurlegt og sérstaklega þótti mér það ósanngjarnt þegar vinir mínir héldu áfram að lauma sér inn, alveg tveimur árum eftir að þau voru orðin of gömul. Kannski hefði það verið kostur fyrir mig að komast í Ríkið fyrir tvítugt en ég drekk bara eiginlega aldrei áfengi svo ég keypti ekkert þar fyrr en ég varð 21 árs og þá var það fyrir pabba,“ segir Oddný og hlær.

Mynd: Brynja

“Ég geri mér til dæmis grein fyrir því að ég er of feit“

Spurð að því hvað henni þyki um „líkamsvirðingar“-átök svokölluð segir hún að henni finnist margir taka þær hugmyndir aðeins of langt.

„Á endanum snýst þetta um að ef maður er ekki ánægður með sig þá er nauðsynlegt að gera eitthvað í því til að líða betur, alveg burtséð frá útlitinu. Fyrir sumum virðist lífið svolítið svart eða hvítt og margir túlka líkamsvirðingu sem svo að maður eigi að vera sáttur við líkamann á sér í mikilli yfirþyngd. Það er fjöldi flotts fólks að predika þetta á netinu og það fer stundum alveg svakalega í taugarnar á mér. Auðvitað er alveg hægt að vera 130 kíló og halda heilsu í því ástandi í einhvern tíma en á endanum er eitthvað að fara að gefa sig ef fólk gerir ekkert til að huga að heilsunni. Ef mjög feitt fólk er sátt í eigin skinni þá er það hið besta mál, enda er ekkert að því að vera feit eða feitur, en það er ekki í lagi að halda því fram að heilsan sé í toppstandi þegar fólk er í mikilli yfirþyngd. Það gengur einfaldlega ekki upp. Ég geri mér til dæmis grein fyrir því að ég er of feit þessa dagana en ég er samt sátt við sjálfa mig. Ég er ánægð með mig á meðan ég fer vel með sjálfa mig og passa hvernig ég tala til sjálfrar mín í kollinum,“ segir hún og bætir að lokum við að vel heppnuð sjálfa á Instagram geti líka gert góða hluti fyrir sjálfsmyndina.

„Þetta er kannski svolítið eins og að kaupa sér nýja fallega flík sem maður nýtur þess að klæðast. Ég get alltaf skoðað vel heppnaðar sjálfsmyndir og rifjað upp að einmitt þegar myndin var tekin hafi mér liðið vel og verið sátt í eigin skinni. Það leynist ákveðin styrkur í því,“ segir þessi flotta fyrirsæta að lokum.

Smellið hér til að fylgja Oddnýju á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar