

Þið kannist við jólaköttinn en hafið þið heyrt um jólabókaorminn? Hann er nefnilega alveg jafnslæmur nema hvað hann étur bara þá sem fá ekki bók í jólagjöf!
Hafdís og Tómas þekkja söguna vel. Þau hafa engar áhyggjur, því í þorpinu gefa allir bækur um jólin. En hefur nokkur séð jólabókaorminn? Er hann til í alvörunni? Er þetta ekki bara þjóðsaga?
Systkinin ákveða að sannreyna málið en með því hætta þau á að vekja upp reiði jólabókaormsins …
Hvað gerist ef hann nær manni?
Hvað gerist ef hann étur mann?
Er sagan þá á enda … eða kannski bara rétt að byrja?
Hjónin Gunnar Theodór Eggertsson og Yrsa Þöll Gylfadóttir hafa verið afkastamikil í skrifum barnabóka síðustu ár. Gunnar gefur út Álfareiðina ungmennabók nú fyrir jólin og Yrsa Þöll skrifar bókaflokkinn Bekkurinn minn. Jólabókaormurinn er fyrsta bók þeirra saman í myndlýsingu Hafsteins Hafsteinssonar.

Jólabókaormurinn segir frá systkinunum Hafdísi og Tomma sem hlusta á sögur ömmu sinnar um drungalegt hús fyrir ofan bæinn þeirra. Húsið hýsti áður bókasafn þar sem margt var um manninn á þeim tíma sem fólk las enn þá bækur. Núna nýtast bækur best sem stólfætur, hilluberar eða húsgögn. Kennaranum þeirra þykir þó besta ð brenna bara bækur. Nauðsynlegt er samt fyrir alla að fá minnst eina bók í jólagjöf til að fara ekki í jólabókaorminn.
Systkinin trúa sögunni mátulega en ákveða að láta á hana reyna, henda bókunum sem bíða þeirra í pakka undir jólatrénu og nóttina á eftir krafsar jólabókaormurinn í glugga þeirra með óvæntum afleiðingum.
Jólaormurinn er nútímaævintýri sem nýtir sér þjóðsöguna um ný föt á jólum svo maður lendi ekki í jólakettinum og færir hana í nútímabúning þar sem lestur bóka og kaup á bókum eru á undanhaldi hjá íslensku bókaþjóðinni. Um leið og sagan er skemmtileg og myndrík fyrir börn er hún nett ádeila til okkar fullorðna fólksins sem þusum yfir afbökun íslenskunnar og minni bókalestri hjá yngri kynslóðinni um leið og við hömrum á snjallsímann og opnum nýjasta myndbandið á samfélagsmiðlum.
Frábærlega vel gert hjá þeim hjónum og myndlýsing Hafsteins færir söguna og boðskapinn á hærra stig. Bók sem ætti að rata í jólapakka sem flestra barna. Minni svo á að bókasafnið er opið alla daga!