fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fókus

Ritdómur: Óljós eftir Geir Sigurðsson

Fókus
Sunnudaginn 24. nóvember 2024 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Börkur Gunnarsson skrifar

Mun hann nenna að draga andann eða ekki? Og á hvorn veginn sem það fer, hverju mun það skipta? Sama hvort vel gangi í lífinu eða illa þá þurfa flestir að komast í gegnum mannleg samskipti og allir að geta dregið andann og að nenna því. Hver sem leið fólks í lífinu er þá er þessi hversdagsleiki þrúgandi allan sólarhringinn og maður fær ekki pásu frá honum nema í svefni.

Skáldsaga Geirs Sigurðssonar, Óljós, fjallar um þetta þykkildi sem hversdagsleikinn er. Bókin fjallar um Leif sem er á tímamótum í lífi sínu. Hann hefur misst eiginkonu sína, Petru, er fjarlægur börnunum sínum þeim Hans Jörgen og Sölku, er lítið í sambandi við bróður sinn og er að fara á ellilífeyri. Leifur er gamall og óvinsæll prófessor sem er að pakka niður akademíska lífinu sínu. Honum hefur aldrei fundist hann fitta inn. Ekki vera eins og hin.

Hann ætlar að aflesa allar þær bækur sem hann hefur lesið og fara til Kína. Aðalpersónan virðist lítil tengsl hafa við nokkurn mann og engin plön með nokkurn skapaðann hlut í sínu lífi. Þessu handriti yrði trúlega hafnað hjá flestum bókaforlögum en ekki hjá Bjarna Harðarsyni sem stýrir forlaginu Sæmundi. Trúlega afþví að hann hefur nennt að lesa hana. Því þótt Geir brjóti flestar reglur frásagnarlistarinnar þá eru töfrar á hverri síðu. Þjáning aðalpersónunnar í upplifun allra daga og sérhverjum samtölum er átakanleg og lesandinn þarf ekki að láta draga sig áfram með frásagnartrikkum. Kemst Leifur í gegnum þessa átakanlegu stund, þennan hallærislega fund, þessa niðurlægjandi uppákomu eða hættir hann bara að nenna að draga andann og þessu lýkur loksins?

Er hægt að taka ljósmynd af sársauka?

Leifur fyrirgefur eiginkonu sinni nánast allt því návist hennar er honum það mikilvæg. Framhjáhald hennar, fantaskap og allt það sem sambönd fólks býður uppá. Nístandi að finna sár hans vegna fráfalls hennar eða eins og segir í bókinni: „Já, hann saknaði Petru og honum fannst skyndilega óhugsandi að hún skyldi ekki lengur vera til, að heimurinn væri nú án hennar. Hvað merkir þetta án? Hvað er þetta án? Hann gat ekki tekið mynd af því?“

Samband hins lífsleiða Leifs við annað fólk er alltaf vingjarnlegt og þessvegna getur karakteruppbyggingin gengið upp. Lesandinn gæti ekki fundið til með Leifi nema afþví að hann er að reyna að vera eins og hinir en bara getur það ekki. Hann upplifir sig allstaðar utangátta. Lýsingin á starfslokaveislunni sem er haldin honum til heiðurs í háskólanum er afhjúpandi. Hann hrekkur í kút þegar allir klappa fyrir honum og í eitt andartak líður honum eins og hann hafi afrekað eitthvað en áttar sig svo á því að „afrekið“ væri það að hafa tekið ákvörðun um að hætta störfum. Lófatakið er þannig ekki ætlað honum heldur samstarfsfólkinu sem væri nú loksins laust við hann. Vandræðalega ræðan í veislunni og yfirborðsmennskan í samræðunum er æpandi. Sem dæmi um hversu slakur hann er í samfélagsleiknum að þá eru fyrstu viðbrögð hans við því þegar Máni og kínverska konan Hongmin segja honum að þau ætli að giftast er að svara: „Jahá, gott hjá ykkur…dugleg.“

Hversdagsleiki hins ómerkilega og ómerkileiki hins hversdagslega

Leifur er á því að hann sé ekki vel heppnaður. Síðri en allir í kringum hann og varla til annars gagns í ævilöngu sambandinu við Petru en að á nokkurra ára fresti að taka af stíf krukkulok eða færa til gangstéttarhellu. Hann sér ókunnugt fólk á öðru borði á veitingastað í kínversku borginni Wúhú og þar er faðirinn svo fyndinn og skemmtilegur, ekki eins og hann. Bróðir hans er svo heillandi og flottur, gerir svo magnaða samninga útum allan heim á meðan hann er bara að leika sér að leggi og skel.

Þegar Leifur uppgötvar að konan hans er búin að eiga elskhuga í langan tíma og er að fara að skilja við hann þá er það fyrir honum nánast eins og „ópersónuleg uppgötvun“ og hann þarf að róa vin sinn sem tekur tíðindunum miklu verr en hann sjálfur.

Hann telur að hann hafi loksins fundið tilgang lífsins þegar það er of seint að tjá það. Hann er ýmist ekki á staðnum, mættur of seint eða of snemma. Samt eru miklar tilfinningar þarna undir niðri. Maður finnur djúpan sársauka þegar Máni bróðir hans heimtar föðurtitilinn af honum út á sæðið sitt og maður finnur saltbragðið af tárum þegar sagt er við hann :„Þið eruð svo falleg fjölskylda!“ Um mynd sem Leifur er ekki á, bara Petra og börnin. Aðdáun Leifs í lífinu er helst á Eleanor Niemand eða Eleanor Engin. Uppí þennan uppdiktaða höfund eru magnaðar setningar skrifaðar. Eins og annað boðorð hennar: „Ekki kætast of mikið, allt getur breyst,“ eða „Wenn du mich kaufst, ist die Vergewaltigung nicht mehr umsonst,“ „sjálfhverfuvítahringur“ og fleira.

Konan sem hann síðan hittir í Kína, Komala (ekki Kamala) eða Lala, er síðan á einhvern hátt Engin og á engan að.

Nafn og neisti

Það er um margt áhugavert að lesa viðtöl við rithöfunda um starfsaðferðir þeirra. Þegar maður hefur lesið mjög mörg þeirra áttar maður sig á því að þeir eiga eiginlega ekki neitt sameiginlegt, nema eitt. Alltaf virðast þeir hugsa mikið um hvað sé rétta nafn aðalpersónunnar. Yfirleitt er það úthugsað þótt það þurfi ekki endilega að vera þrungið merkingu. Þessvegna er áhugavert að aðalpersóna þessarar skáldsögu beri nafn sæfarans Leifs heppna sem fann Vínland. Ferðalag prófessorsins er um margt ólíkt þess heppna og sigldu þeir í sitthvora áttina, sá sem fór til Ameríku fór í vestur en þessi í austur. Annar til hins nýja heims og hinn til þess gamla. Hugsanlega eru þeir andstæður þótt báðir séu leitandi karakterar. Leifur fann skipbrotsmenn og bjargaði þeim en nútíma Leifur þessarar bókar er meira eins og skipbrotsmaður sem er bjargað af öðru fólki í Kína.

Persónusköpun Leifs er í andstöðu við flestar formúlur og reglur í fræðunum um hvernig eigi að skapa áhugaverðan karakter. Samt virkar hann. Tómhyggjan sem í honum býr er hættuleg. Hún hefur oft verið tjáð af höfundum eins og Jean Paul Sartre, Albert Camus, Heidegger, Schopenhauer, Kirkegaard og Hans Henny Jahnn. En yfirleitt er einhver hroki í verkum fyrrgreindra höfunda. En í bók Geirs Sigurðssonar er þessu öfugt farið. Tómhyggjan er eins og samþykkt en Leifi þykir það leitt. Hann langar líka til að reyna að fúnkera á meðan hann tekur þátt í þessu lífi en nær því ekki. Það eru mikil næsheit í þessari bók, húmor og væntumþykja þrátt fyrir tómhyggjuna og tilgangsleysið.

Rómantík og ógleði

Í bókinni er rómantík vandfundin en samt vottar fyrir henni inná milli línanna víðast hvar söguna á enda. En eymdin er allstaðar og stundum eins og Leifur orðar það sjálfur hellist hún yfir eins og hitaskúr. Stóráhugaverðar samræður eiga sér stað í bókinni milli fráleitrar fígúru að nafni Branko og Leifs á hugsun, heimspeki og stjórnmálasögu Kína á alþýðumáli, pakkað saman á nokkrum síðum. Verandi ekki sérfræðingur í þessu efni var ég þakklátur fyrir þessa skyndibita útgáfu á kínverskri hugsun.

Maður hefur það á tilfinningunni að maður komist hvað næst merkingu bókarinnar þegar Leifur skoðar safn Niemand og fer að athuga drög að nóvellu sem hún hafði skrifað og hann er undrandi hvað sagan er einstaklega óáhugaverð. Þráðurinn í sögu Niemand er óáhugaverður og samræðurnar heimskulegar. Leifur kemst að þeirri niðurstöðu að Niemand sé að spegla raunveruleika sinn. Svona sé þetta. Merkingarlaust, óspennandi og leiðinlegt. Niemand hafi fært okkur „…sannleikann, einangraðan og aflokaðan merkingarveruleika sem vísar ekkert út fyrir sig.“ Ekki frá því að Geir sé að skrifa það til okkar en tekst ekki að gera það eins leiðinlega og Niemand hefði gert, sem betur fer.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Sorgin getur hellst yfir okkur upp úr þurru, eins og risastór alda eða fljóðbylgja“

„Sorgin getur hellst yfir okkur upp úr þurru, eins og risastór alda eða fljóðbylgja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Guðrún Svava um frægðina: „Nennirðu að byrja á OnlyFans?“

Guðrún Svava um frægðina: „Nennirðu að byrja á OnlyFans?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý Ármanns spáði fyrir falli ríkisstjórnarinnar og uppgangi Kristrúnar fyrir ári síðan – Sjáðu myndbandið

Ellý Ármanns spáði fyrir falli ríkisstjórnarinnar og uppgangi Kristrúnar fyrir ári síðan – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu