Joan Vassos fær annað tækifæri til að finna ástina þar sem hún var valin sem fyrsta Golden Bachelorette eða Gyllta piparmeyjan hjá sjónvarpsstöðinni ABC. Tilkynningin var birt á Instagram í gær þar sem Vassos sést taka upp gyllta rós klædd glitrandi gullkjól.
„Ég er Joan, og ég er fyrsta Golden Bachelorette,“ segir hún í myndbandinu. Segir hún þetta mikinn heiður og hún sé spennt fyrir framhaldinu. Gerry Turner sem var fyrsti Gyllti piparsveinninn skrifaði: „Til hamingju með að hafa verið útnefnd fyrsta Golden Bachelorette. Þú verður stórkostleg sem nýr fulltrúi kynslóðar. Frá einum gylltum til annarrar, slakaðu á, andaðu og njóttu.“
Bæði komu fram í sjónvarpsþáttum ABC, The Golden Bachelor, þar sem sem Turner var piparsveinninn og Vassos ein kvennanna sem barðist um rós og hjarta Turner. Náðu þau góðri tengingu en bæði misstu fyrri maka sína vegna veikinda. Eiginkona Turner lést árið 2017 úr bakteríusýkingu en Vassos missti eiginmann sinn til 32 ára úr briskrabbameini árið 2021.
Vassos ákvað þó að hætta í þáttunum eftir þrjár vikur til að vera með dóttur sinni, sem var nýbúin að eiga og þjáðist af fæðingarþunglyndi.
„Fjölskyldan mín mun alltaf koma fyrst,“ sagði hún við Turner. „Þegar þú ert orðin mamma ertu alltaf mamma, jafnvel þegar börnin þín eru eldri. Ekkert er mikilvægara,“ sagði Vassos sem er 61 árs og skólastjóri í einkaskóla. Hún á fjögur börn og tvö barnabörn.
Vassos ætlaði að koma aftur eftir viku, en dóttirin þurfti meiri aðstoð. Turner gaf síðustu rósina til Theresa Nist og giftu þau sig í beinni sjónvarpsútsendingu í janúar. Þremur mánuðum síðar tilkynntu þau hins vegar um skilnað sinn.
The Golden Bachelorette verður frumsýnd í haust á ABC og hægt er að streyma þáttunum á Hulu degi síðar.