fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Kristel vaknaði með mikla áverka – „Ég fékk að heyra að fólk hafi séð einhvern mann drösla mér heim“

Fókus
Mánudaginn 6. maí 2024 08:17

Kristel Ben Jónsdóttir og Tinna Barkardóttir, umsjónarmaður Sterk saman.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristel Ben Jónsdóttir er 39 ára móðir og eiginkona frá Stöðvarfirði. Fjölskyldan flutti aðeins um fyrstu árin en alltaf segist hún vera stoltur Stöðfirðingur. Hún er gestur í hundraðasta þætti hlaðvarpsins Sterk saman.

Kristel ólst upp við alkóhólisma en bæði faðir hennar og amma og afi, föðurmegin voru mikið drykkju fólk.

„Pabbi fór að drekka með ömmu og afa þegar við fluttum aftur austur. Hann var samt alltaf góður, aldrei vesen eða leiðindi. Hann sofnaði kannski í sófanum og við grínuðumst með að hann væri að lesa biblíuna inni í augnlokunum,“ segir Kristel og bætir við að eðlilega hafi hún samt sem áður þróað með sér meðvirkni, eins og börn alkóhólista gera.

„Ég faldi drykkjuna fyrir mömmu til dæmis ef hún fór eitthvað, þá sagði ég að hann væri í lagi þó svo hann væri að drekka og svona.“

Minningar um misnotkun komu upp þegar hún var ólétt

Aðeins fimm ára gömul lenti Kristel í misnotkun af hendi nákomins ættingja sem hún svo lokaði á og minningarnar komu ekki upp á yfirborðið fyrr en hún var ólétt 19 ára gömul.

„Ég sýndi alls kyns hegðun, var frökk sem barn, til í allt og mikið að flýta mér að verða fullorðin en hafði engum sagt frá og blokkerað það sem hafði gerst,“ segir hún.

Á unglingsárunum fiktaði hún við vímuefni og drakk en 19 ára varð hún móðir.

„Ég byrjaði að fá svo sterkar minningar frá barnæskunni þegar ég var ólétt, fyrst hélt ég að ég væri að verða geðveik en talaði við sálfræðing og þá er þetta víst algengt þegar maður hefur lent í svona, að minningarnar komi aftur þegar maður er sjálfur að verða mamma. Ég sagði systur minni þetta og hún gat ekki setið með þetta svo hún sagði foreldrum okkar. Þá varð bara „intervention“ og málin rædd,“ segir Kristel.

Vaknaði nakin og með mikla áverka

Þegar dóttir hennar var orðin nógu gömul fór hún að stunda skemmtanalífið. Hún djammaði þegar tækifæri gafst og nýtti tækifærin vel.

Eitt skiptið var ball fyrir austan sem flestir í bænum mættu á.

„Það var fyrirpartý hjá mér, ég bjó bakvið Valaskjálf. Ég var ekki orðin drukkin þegar við mættum. Það kom útlendingur og bauð mér í glas, sem ég þáði, ég sneri mér undan og talaði við frænda minn og fékk svo glasið og drakk. Eftir það man ég lítið sem ekkert.“

Kristel var með mikla áverka þegar hún vaknaði.

„Ég fékk að heyra að fólk hafi séð einhvern mann drösla mér heim. Vinur minn kom að mér inni á baðherbergi þar sem ég lá nakin og hélt að ég hafi drepist áfengisdauða. Hann fékk vinkonu okkar til að koma mér inn í rúm, þar sem ég vaknaði,“ segir Kristel.

Var byrlað lyfi sem er notað til að deyfa hross

Kristel leitaði til lögreglu og fór í blóðprufu þar sem í ljós kom að henni hafði verið byrlað lyfi sem notað er til að deyfa hross.

„Ég man ekkert en var öll marin og illt alls staðar og vont að pissa. Ég veit ekkert hver gerði mér þetta,“ segir Kristel.

Hún sagði engum frá þessu fyrr en hún fór til Reykjavíkur að hitta vin sinn sem hún hafði kynnst þegar hún var 18 ára. Hann fór með henni í Stígamót og var mikill stuðningur.

„Ég treysti honum fyrir þessu og hann hjálpaði mér mikið. Ég og þessi vinur minn, eignuðumst svo barn saman,“  segir hún.

Barnsfaðir Kristelar lést þegar sonur þeirra var þriggja ára

Meðgangan var erfið, fæðingin erfið og barnsfaðir Kristelar í neyslu en hann lést þegar sonur þeirra var aðeins þriggja ára.

„Ég syrgi mikið að sonur minn hafi ekki fengið að kynnast pabba sínum, hann átti góða spretti edrú en á endanum syrgi ég það sem hefði geta orðið,“ segir hún.

Kristel var ung, einstæð móðir og upplifði að hafa ekki efni á að eiga börnin sín, stundum var ekki til matur í ísskápnum og í eitt skipti átti að taka rafmagnið og hitann af því hún gat ekki borgað reikninginn.

„Ég vann og gerði mitt allra besta en náði aldrei endum saman. Ég fékk oft aðstoð frá mömmu og pabba en af því að ég var að vinna þá fékk ég ekki aðstoð frá kerfinu.“

„Það er öndunarstopp og það er pabbi“

Í dag er hún gift og búin að vera í sambandi í tæp tíu ár með manni sem hún setti skýr mörk í upphafi. „Hann var í neyslu þegar hann heyrði í mér fyrst svo ég sagði honum að tala við mig eftir meðferð. Hann gerði það og við erum búin að vera saman síðan.“

Þau eignuðust saman son sem greindur hefur verið með einhverfuröskun og er það verkefni út af fyrir sig, eins og hún orðar það. „Hann talaði sitt tungumál til að byrja með en er farinn að tala meira núna. Hann er dásamlegt barn.“

Árið 2021 var hún að spila með vinkonu sinni þegar það komu skilaboð á alla sem vinna við sjúkraflutninga fyrir austan, þar sem hún vinnur. Hún leit á símann og segir við vinkonu sína: „Þetta er pabbi. Það er öndunarstopp og það er pabbi.“ Svo brunar hún af stað og fer í hlutverk þar sem hún þarf að hnoða og blása í pabba sinn.

Kristel segir sögu sína í spilaranum hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 20 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?