fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Kennarinn sagði við Davíð að hann yrði aldrei neitt annað en aumingi

Fókus
Mánudaginn 11. mars 2024 15:00

Davíð Bergmann. Mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Bergmann var á æskuárum sínum utangátta í skólakerfinu og átti erfitt með lestur og nám eins og hann hefur skýrt áður frá í aðsendum greinum á Vísi. Hann hefur á undanförnum árum starfað með unglingum sem eru í sömu stöðu og hann var sjálfur. Í nýrri grein gerir hann grein fyrir því hvernig skortur á lesskilningi getur verið dauðans alvara og rifjar upp á ný sárar minningar frá æskuárum sínum, meðal annars hvernig umsjónarkennari hans lagði hann í einelti og sagði að hann yrði aldrei neitt annað en aumingi.

Kveikjan að þessari tilteknu grein segir Davíð vera andlát föður síns. Hann segir föður sinn hafa verið þjakaðan af samviskubiti yfir því að hafa ekki gert meira í málum Davíðs þegar hann var barn. Davíð segir þá slæmu meðferð sem hann hlaut hjá félagsmála- og skólayfirvöldum hins vegar ekki hafa verið föður hans að kenna og nú vilji hann skila skömminni:

„Ég er einn af þeim sem var rændur barnsæskunni af skóla og félagsmálastofnun Kópavogs. Það verður aldrei bætt upp, hvorki með peningum né með afsökunarbeiðni, hún verður heldur ekki tekin gild að minni hálfu. Ég á mér bara eina ósk að þetta pakk sem tóku þessar geðræðislegu ákvarðanir með mitt líf sem barn og minnar fjölskyldu á sínum tíma, fái sinn stað niðri í helvíti.“

Davíð segir að í lok áttunda áratugar síðustu aldar hafi félagsmála- og skólayfirvöld í Kópavogi stillt foreldrum hans upp við vegg. Annaðhvort færi hann til vistar í sveit eða yrði tekinn af þeim. Þessir kostir hafi verið settir af því hann gat ekki lesið sér til gagns.

Fylgdust ekki með honum og sársauki föðurs

Davíð segir vistina í sveitinni hafa verið skelfilega og fólkið sem hafi sent hann þangað hafi ekkert eftirlit haft með því að vel væri hlúð að honum:

„Í eitt skiptið var mér komið fyrir hjá snarbiluðu fólki sem hafði enga uppeldishæfni og hefðu ekki einu sinni átt að hafa leyfi fyrir því að halda ketti hvað þá meira. Þetta er eitthvað sem mun aldrei nokkurn tímann hverfa úr mínu minni svo lengi sem ég lifi.“

Davíð segir að foreldrum hans hafi verið bannað að hafa samband við hann að sögn til að rugla hann ekki í ríminu.

Davíð segist hafa fullt leyfi til að vera fólkinu reiður sem tók þá ákvörðun að senda hann burt frá foreldrum sínum.

Hann segir að það hafi fengið mikið á föður sinn að hafa ekki getað komið í veg fyrir þetta og hafi faðir hans þó mátt áður þola mikil áföll:

„Pabbi bað mig afsökunar þegar ég sat við dánarbeði hans grátandi rétt áður en hann yfirgaf þessa jarðvist, þá orðinn 90 ára. Að hann hefði ekki getað staðið upp í hárinu á þeim, ég veit í dag að hann átti enga sök á þessu og að foreldrar mínir áttu ekki séns í þetta ógnarvald sem þessi stofnun var á þessum tíma.“

Tíðarandinn hafi einfaldlega verið annar í þá daga og fólk síður í stakk búið til að standa upp í hárinu á stofnunum þjóðfélagsins. Davíð segist síðan þá hafi verið afar tortrygginn gagnvart félagsmálastofnunum og sú reynsla hans að starfa með olnbogabörnum undanfarin 30 ár hafi engu breytt í þeim efnum.

Lagður í einelti af kennara

Í greininni gerir Davíð nánari grein fyrir reynslu sinni sem nemandi í Kópavogsskóla. Hann segir umsjónarkennara sinn í 4. bekk, þegar hann var á tíunda ári, hafa lagt sig í einelti og þar að auki áreitt móður hans, sem starfaði við ræstingar í skólanum, kynferðislega. Eineltið hafi lýst sér einkum í því að í nestistímanum var hann látinn lesa upphátt fyrir allan bekkinn en kennarinn hafi vitað vel hversu erfitt Davíð átti með að lesa. Þetta hafi verið refsing fyrir að geta ekki lesið í tíma. Kennarinn hafi skammað hann fyrir að lesa ekki heima en Davíð segist hafa reynt að lesa bæði heima og í skólanum eins og hann gat en textinn hafi verið fyrir honum „eins og öldur hafsins.“

Davíð er að vinna að bók sem hann titlar „Bókin er minn óvinur.“ Þar segir hann meðal annars svo frá:

„Ég ætlaði að fara að teygja mig eftir nestinu í skólatöskunni minni þegar kennarinn sagði nafnið mitt. Fann hrollinn, eins og ískalt vatn rynni niður milli herðablaðanna, leið eins og tíminn hafi stöðvast. En og aftur kominn í sviðsljósið, drengurinn sem getur ekki lesið. Óttinn gagntók mig.“

Eftir hinn misheppnaða lestur var Davíð sendur aftur í sætið sitt:

„Með þau vel völdu orð frá kennaranum að það yrði aldrei neitt úr mér, ég yrði ekkert annað en aumingi í framtíðinni. Í frímínútunum beið mín að vera strítt að geta ekki lesið og ég var uppnefndur Dabbi stam ásamt mörgum öðrum viðurnöfnum.“

Þegar móðir hans komst að þessu kvartaði hún til æðstu yfirvalda skólamála í Kópavogi. Afleiðingarnar urðu þær að skólastjórinn í Kópavogsskóla, þar sem hún starfaði og Davíð var nemandi, sýndi henni dónaskap og Davíð var í kjölfarið sendur út í sveit.

Grein Davíðs, þar sem hann gerir meðal annars nánari grein fyrir hvernig best sé að takast á við stöðu barna sem eiga í erfiðleikum með lestur og nám og skólagöngu sinni eftir að hann var sendur burt, er hægt að lesa í heild sinni hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 9 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Í gær

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?