fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Ástin náði yfir gröf og dauða – Sat í grafhýsi við kistu látinnar konu sinnar í í tólf ár

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Þriðjudaginn 20. september 2022 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jonathan lofaði Mary, eiginkonu sinni, að hann myndi aldrei yfirgefa hana svo lengi sem hann lifði. Og hann stóð við loforð sitt, þó á afar óvenjulegan hátt.

Jonathan og Mary Reed á brúðkaupsdaginn.

Jonathan Reed var vel efnaður kaupsýslumaður í New York og var altalað hversu ástfangin þau hjónin væru. Jafnvel eftir 35 ára hjónaband bar ekki skugga á hamingju þeirra og þegar að Mary lést árið 1893 var Jonathan óhuggandi.

Blátt bann við heimsóknum

Mary var lögð til hvíldar í grafhvelfingu í eigu föðurfjölskyldu sinnar og dvaldi Jonathan í hvelfingunni við hlið kistu Mary daglega eftir andlátið. Að því kom að tengdafaðir hann fékk nóg og lagði blátt bann við að Jonathan fengi inngöngu í hvelfinguna.

Ekki var um að ræða neinn illvilja heldur hafði faðir Mary miklar áhyggjur af andlegri heilsu tengdasonar síns og hvatti hann til að halda áfram með líf sitt.

Nýja ,,heimilið“

En Jonathan var bugaður af sorg og þegar að tengdafaðir hans lést tæpur tveimur árum síðar keypti Jonathan sitt eigið grafhýsi á kyrrlátum og fallegum stað við stöðuvatn í Evergreens kirkjugarði New York borgar.

Grafhýsið kostaði Jonathan drjúgan skilding enda sagt eitt það fallegasta sinnar tegundar sem nokkur hafði augum litið.

Jonathan lét flytja kistu Mary í nýja grafhýsið og lét setja tóma kistu, ætlaðan honum sjálfum, við hlið hennar. Því næst hófst strax handa við að fylla grafhýsið húsgögnum og listaverkum. Hann og Mary höfðu á hjónabandsárum sínum ferðast um heim allan og flutti Jonathan mikin fjölda minjagripa úr ferðum þeirra í grafhýsið. Ljósmyndir, skrautmunir, kerastjakar og vasar, alls staðar að úr heiminum, fylltu grafhýsi Mary.

Hann setti ný blóm daglega á kistu Mary og lá þar við hlið ókláruð flík sem Mary hefði verið að prjóna við andlátið.

Jonathan lét meira að segja koma fyrir ofni í grafhýsinu og hreinlega flutti inn.

Sama um álit annarra 

Jonathan sneri aðeins heim yfir blánóttina til að sofa en var aftur kominn í kirkjugarðinn eldsnemma á morgnana og þá með páfagauk þeirra hjóna með sér í búri. Hann snæddi í grafhýsinu, las, sinnti vinnu en oftar en ekki spjallaði hann við látna eiginkonu sína um heima og geyma.

Jonathan hafði engar ranghugmyndir, hann vissi vel að Mary var látin, hann gerði aldrei tilraun til að opna kistuna og var fullljóst að hegðun hans þótti vægast sagt óvenjuleg.

Grafhýsið er á gullfallegum stað við tjörn í kirkjugarðinum.

En honum var alveg sama. Hann hafði lofað að vera alltaf hjá Mary og það ætlaði hann að standa við.

Hann kvað heimili sitt vera við hlið eiginkonu sinnar, sama hvar það væri.

Að því kom að páfagaukurinn drapst og lét Jonathan stoppa hann upp setja við hlið kistunnar enda hafði gauksi verið í miklu uppáhaldi hjá Mary.

Þúsundir gesta

Sagan af ástfangna eiginmanninum í grafhýsinu barst hratt út og flykktist fólk í heimsókn. Jonathan tók öllum vel og spjallaði við hvern þann sem það kaus.

Talið er að um sjö þúsund manns hafi bankað upp á hjá Jonathan í grafhýsinu, bara á fyrsta árinu, og fleiri tugir þúsunda allt í allt næstu árin.

Hópur munka gerði sér meira að segja ferð alla leið frá Tíbet til að heimsækja Jonathan til að sjá með eigin augum hvort að sagan af hinni miklu ást bandaríska mannsins til konu sinnar væri sönn. Þeir sneru heim þess fullvissir að svo væri.

Grafhýsið.

Innblástur minn og leiðarljós

Blaðamenn föluðust reglulega eftir viðtölum sem Jonathan tók vel í. Í einu þeirra sagði hann Mary hafa verið einstaka konu, sálufélaga sinn og lífsförunaut.

,,Við lát hennar missti ég löngun til alls nema að heiðra minningu hennar. Mín eina gleði er að sitja við hlið kistunnar sem varðveitir það sem eftir er af Mary. Hvað sem það er veit ég að það er fallegt. Það var allt fallegt við hana. Hún var ástrík og elskuverð, innblástur minn og leiðarljós í lífinu.”

Jonathan hafði verið trúlaus fram að andláti Mary en hóf að biðja í grafhýsinu. Bað hann allar andans verur um að fá að hitta Mary í framhaldslífinu.

,,Það eina sem ég bið um er að fá að fara á sama stað og hún dvelur nú á þegar að ég dey. Ég bið ekki um neitt annað. Það eina sem ég vil er að fá að vera þar sem mér er ætlað, við hlið eiginkonu minnar.”

Verðum að vona

Tólf árum eftir dauða Mary, í mars 1905, fannst Jonathan meðvitundarlaus við hlið kistu konu sinnar.

Jonathan og Mary hvíla saman í grafhýsinu.

Talið er að hann hafi fengið hjartaáfall og lést hann skömmu síðar á sjúkrahúsi þrátt fyrir að grátbiðja sjúkraflutningamenn að taka hann ekki frá konu sinni. Jonathan var sjötugur þegar hann lést.

Jonathan Reed var lagður til hinstu hvíldar við hlið eiginkonu sinnar. Í kistunni sem hafði beðið hans við hlið Mary í rúman áratug í grafhýsinu.

Innst inni hljótum við flest að vona að Jonathan og Mary Reed hafi sameinast á endanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst
Fókus
Í gær

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu
Fókus
Fyrir 2 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 3 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða