fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Fókus

Tarrare var hungraðasti maður sögunnar – Maðurinn sem át steina jafnt sem lifandi dýr

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 11. júní 2022 20:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tarrare er aðeins þekktur undir eftirnafni sínu. Hann var franskur hermaður, fæddur á sjöunda áratug sautjándu aldar. Hann skapaði sér nafn í sögubókunum sem maðurinn sem gat borðað allt. Nákvæmlega allt. 

Tarrare er lýst með með afar stóran munn, án vara, sem gat teygst allt upp að eyrum. Kinnarnar á honum voru þvílíkar að hann gat verið með 12 egg upp í sér í einu og héngu þær niður á kjálkabein. Hann gat borðað heila körfu af eplum í einu en Tarrare borðaði einnig grjót og kork.  Hann lét sér það þó ekki nægja og át reglulega lifandi dýr. Uppáhald hans voru snákar. Þeir sem fylgdust með áti hans fylltust yfirleitt óhugnaði en gátu ekki annað en fylgst með þegar að Tarrare skoraði þá á að koma með eitthvað, hvað sem er, sem hann myndi ekki borða. Það gekk aldrei eftir. Tarrare át allt. 

Jafnvel dýrin flúðu

Tarrare var aftur á móti bæði léttur og lágvaxinn, vart meira en 50 kíló. Þrátt fyrir átið fitnaði hann aldrei og leit reyndar út fyrir að vera vannærður. Þegar hann aftur móti var nýbúinn að borða bólgnaði maginn á honum svo út að helst minnti hann ófríska konu á lokametrum meðgöngu. Eftir átið minnkaði maginn á honum hratt en húðin var það laus að hann gat vafið honum um mitti sér, líkt og belti. Hann skilaði öllu jafnóðum, skeit gríðarlegu magni sem læknar vildu rannsaka nánar en gátu ekki komið nálægt vegna yfirgengilegs ódauns. 

Orðspor Tarrare braust út á ógnarhraða og sagt var að jafnvel dýrin vissu af stjórnlausri matarfíkn hans. Að hundar og kettir hafi flúið á ógnarhraða er Tarrare var á ferð nálægt þeim. Vildu sumir meina að dýrin þekktu hann á lyktinni. 

Franski herinn var í stökustu vandræðum með Tarrare, hann fékk fjórfalt meiri mat en aðrir hermenn en samt var hann ávallt að hnýsast í matarvagninn í þeirri von að matarleyfum yrði hent. Sem hann át jafnóðum. 

Félagar Tarrare í hernum vildu ólmir losna við hann, ekki aðeins reyndi hann að stela mat þeirra, heldur var fnykurinn af honum óbærilegur. 

En tveir herlæknar, dr. Courville og barón Percy tóku slíkt ekki í mál, þeirra voru heillaðir af þessu furðulega manni og vildu ólmir vita hvað olli botnlausri matarlyst hans. Þeir töluðu við hermálayfirvöld sem voru guðslifandi fegin að losna við Tarrare og settu hann tafarlaust í hendur læknanna sem hófu að kanna ástand hans. 

Reif úr ketti innyflin

Tarrare hafði verið óseðjandi allt frá barnæsku og þegar hann var unglingur vísuðu foreldrar hans honum á dyr þar sem hann var að éta þau út á guð og gaddinn. Hann komst í kynni við hóp vændiskvenna og þjófa og í sameiningu ferðaðist hópurinn um Frakkland þar sem Tarrare át fyrir framan heillaða áhorfendur á meðan að þjófarnir hreinsuðu vasa þeirra. 

Einn áhorfandi skrifaði um reynslu sína af áhorfi á Tarrare á eftirfarandi hátt:

„Hann greip lifandi kött með munninum, reif úr honum innyflin, drakk úr honum blóðið og át svo að ekkert varð eftir nema beinagrindin. Hann gleypt einnig ál í einum bita meðan á sýningu stóð.” 

Læknarnir voru ráðþrota. Tarrare var 17 ára gamall, innan við 50 kíló, og virtist algjörlega heilbrigður á geði á allan hátt. 

Það eina sem var óvenjulegt við hann var að hann át allt sem fyrir varð. 

Hugmynd vaknar

Tarrare var ekki fallegur á líta. Húð hans var teygð og toguð í allar áttir. Húðin á maganum lak niður á hné og kinnarnar minntu helst á fílseyru. Lyktin var skelfileg. Líkami hans var alltaf sjóðheitur og skráðu læknar að lyktin af svitanum minnti einna helst á holræsi.  

Frakkland átti í stríði og þurfti á hverjum manni að halda, jafnvel Tarrare. Dr. Courvile velti fyrir sér hvernig unnt væri að nýta hann í þágu hernaðarins og í samvinnu við hershöfðingja nokkurn, Alexandre de Beauharnais, var gerð nýstárleg tilraun á Tarrare. Þeir settu skjal inn í viðarbox og létu Tarrare éta boxið. Svo biðu þeir eftir að Tarrare skilaði því.

Þeir fundu þá einhvern vesalings óbreyttan hermann í verkið og var sá látinn sækja, hreinsa og opna öskjuna. Þar var skjalið ósnert. 

Hinn fullkomni sendiboði á stríðstímum var fundinn. 

Handtaka og pyntingar

Tarrare var dubbaður sem prússneskur bóndi og skipað að læðast yfir á óvinasvæðið til að koma skilaboðum til fransks ofursta sem var i haldi Prússa. Skilaboðin voru að sjálfsögðu í boxi í maga hans. En Tarrare komst ekki langt og sennilega hefur það verið gríðarleg bjartsýni að halda að Tarrare, jafnvel á tímum án tannlækna eða nútíma hreinlætisvenja, kæmist langt. 

Tarrare var handtekinn og pyntaður þar til hann gaf upp söguna að baki för sinni. Hann var þá hlekkjaður við kamar og beðið eftir að hann myndi, í orðisins fyllst, skíta út úr sér hernaðarleyndarmálum. 

En þegar að kassinn loksins skilaði sér var þar ekkert að finna nema autt blað. Herforingjar Frakka höfðu ekki treyst Tarrare til verkefnisins og um prófraun hafði verið að ræða. Þegar að Prússarnir sáu hversu lítið var að hafa upp úr ,,ofurnjósnaranum” nenntu þeir ekki einu sinni að hengja hann heldur sögðu Tarrare að hunskast heim til sín. 

Tarrare hélt aftur til sjúkrahússins með skottið á milli lappanna og grátbað læknana um að gera sig eðlilegan. Og Percy læknir vissulega gerði sitt besta. Hann gaf Tarrare edik, tóbakstöflur, morfín og reyndar hvert það lyf sem sjúkrahúsið hafði upp á að bjóða í von um að minnka stanslausa matarlyst kappans. Án árangurs.

Matarlyst Tarrare bara jókst ef eitthvað var og að því kom að komið var að Tarrare japlandi á látnu fólki í líkhúsi spítalans. 

Grunur um barnsát

Þegar að 14 mánaða gamalt barn hvarf af sjúkrahúsinu byrjuðu sögur að ganga um að Tarrare hefði étið barnið.

Og Percy, sem hafði gert sitt besta til að halda verndarhendi yfir Tarrare, vissi vel að það var hreint ekki útilokað að sú saga væri sönn. Annað eins hafði hann horft upp á. Hann vísaði Tarrare á dyr og kvaðst aldrei vilja sjá né heyra af honum framar.

Það liðu fjögur ár þar til Percy frétti af því að Tarrare hefði bankað upp á dyrum sjúkrahúss í Versölum, þá deyjandi. Hann vissi að þetta var hans síðasta tækifæri til að hitta Tarrare á lífi og rauk til fundar við hann, vongóður um að geta hugsanlega bjargað honum. En svo var ekki og Percy var við hlið Tarrare þegar hann gaf upp öndina af völdum berkla árið 1789. 

Hafi ólyktin af Tarrare í lifanda lífi verið slæm mun hún þó ekkert hafa verið í samanburði við lyktina af honum látnum. Og skrifleg lýsing af krufningunni er ekki fyrir viðkvæma. Innyflin voru rotin og umvafin greftri. Lifur og gallblaðra stærri en nokkurn tíma áður hafi sést auk þess sem magi Tarrare var gríðarmikill að ummáli, blóðugur og sýktur. Og eins mikið og læknar þráðu að finna svörin við ástandi Tarrare urðu þeir að gefast upp fyrir lyktinni þegar leið yfir doktorana, hvern á fætur öðrum. Jafnvel Percy gafst upp á endanum og var Tarrare lokað saman áður en krufning var hálfnuð. 

En eitt gátu þó læknarnir sammælst um. Ástand Tarrare hafði án nokkurs vafa verið líkamlegt, svo mikið hafði þó krufningin náð að leiða í ljós. Ekki var unnt að skella skuldinni á andlega vankanta. 

Ýmsar kenningar hafa komið fram í gegnum tíðina um hvað hafi hrjáð vesalings Tarrare en þær munu seint verða annað en getgátur. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fær annað tækifæri til að finna ástina

Fær annað tækifæri til að finna ástina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí

Haukur Morthens 100 ára – Heiðurstónleikar í Hörpu sunnudaginn 26. maí
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þórhildur kynntist kærastanum þegar hún var á Spáni með eiginmanninum – „Ég man eftir nokkrum notalegum augnablikum á ströndinni“

Þórhildur kynntist kærastanum þegar hún var á Spáni með eiginmanninum – „Ég man eftir nokkrum notalegum augnablikum á ströndinni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kári útskýrir af hverju hann er ekki í stjórnmálum – „Ertu vitlaus drengur?“

Kári útskýrir af hverju hann er ekki í stjórnmálum – „Ertu vitlaus drengur?“