Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir átti erfiðan mæðradag í gær og opnaði sig um það í Story á Instagram.
„Þessi dagur var erfiðari en ég hélt. Eftir tvo bráðakeisara og mjög erfiðar meðgöngur og fæðingar, get ég varla horft á myndir af mér óléttri,“ sagði hún.
Söngkonan birti mynd af sér frá fæðingu sonar hennar, Arnaldar, árið 2019
„Þarna er ég komin meira en sólahring inn í fæðingu Arnaldar. Ég fékk að fara í göngutúr og fór að uppáhalds styttunni minni – Vernd í listasafni Einars Jónassonar. Í ástarsorg á leiðinni í bráðakeisara,“ sagði hún.
„Ég fékk HELLP meðgöngueitrun í fyrstu meðgöngu sem var lífshættuleg fyrir okkur Freyju, og seinni fæðingunni vorum við Arnaldur einnig í hættu stödd. Ég fæ samviskubit að finna fyrir sorg því ég á heilbrigð börn. Ég finn sorg að upplifa að þegar ég hef þurft sem mest á stuðningi og ást að halda á mínum meðgöngum þá fann ég það ekki, að ganga ein með barn var erfitt, og tók á þegar ég lagði ekki upp í þá ferð.“
Þórunn Antonía sagði að það hefði ekki verið auðvelt að opna sig um þetta en hún gerði það í von um að hjálpa öðrum mæðrum.
„Þetta eru tilfinningar sem ég deili ekki auðveldlega en ég vona að þær veiti öðrum styrk. Öll sorg verður að visku og þakklæti ef við leyfum því að gerast. Ef einhver móðir þarna úti er að upplifa svipaðar tilfinningar og gráta sig í svefn á mæðradag sendi ég ykkur ást. Það má líða alls konar. Ferðalög okkar eru ólík en öll skipta máli,“ segir hún.