fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Börn áhrifavalda orðin að markaðssettri tekjulind

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 7. mars 2021 09:50

Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við lifum á fordæmalausum tímum. Við erum komin á þann stað að það er byrjað að birta myndir af börnum áður en þau fæðast. Sum börn eru meira í sviðsljósinu en önnur, eins og börn áhrifavalda. Hvað um friðhelgi þeirra og er kominn tími á ný lög?

Með tilkomu samfélagsmiðla og aukinnar notkunar þeirra varð starfsgrein áhrifavalda til. Fjöldi Íslendinga starfar sem áhrifavaldar og margir þeirra eiga börn sem fylgjendur þeirra eru farnir að þekkja með nafni og biðja jafnvel um að birtar séu fleiri myndir af börnunum.

Börn áhrifavalda eru fyrsta kynslóð barna sem elst upp á samfélagsmiðlum, bókstaflega, fyrir allra augum. En það eru ekki bara áhrifavaldar sem deila myndum af börnunum sínum á samfélagsmiðlum. Sumir foreldrar deila einnig afar persónulegu efni á netinu, eins og sjúkdóms- og geðrænum greiningum barnanna, hegðunarvandamálum og öðru viðkvæmu. Í vinsælum hópum á síðum svo sem Facebook er eru foreldrar gjarnan að leita ráða – oft undir nafni svo auðvelt er að komst að því um hvaða barn ræðir.

Dæmi eru um að foreldrar fái greitt fyrir færslur sem tengjast börnum sínum svo sem með myndum af barnaafmæli og sýna þá hvaðan veitingar, fatnaður og jafnvel gjöf barnins kom. Færslan er þá merkt sem kostuð færsla svo ekki fer á milli mála að afmæli barnsins er söluvara og mikið lagt upp úr myndatöku í afmælinu. Þá koma gjarnan upp siðferðislegar spurningar á borð við: Á afmælið ekki að snúast um barnið?

Er munur á því að deila mynd af barninu þínu á lokaðri Instagram-síðu með nokkur hundruð fylgjendur, eða á opinni Instagram-síðu með yfir fimmtán þúsund fylgjendur? Ef svo er, hvar liggur línan? Hvers konar myndum og öðru efni má deila?

Mynd/Getty

Ný lög

Þann 19. október 2020 voru ný lög tilkynnt í Frakklandi varðandi börn áhrifavalda. Lögin munu taka gildi í apríl og setja reglur um notkun myndefnis af börnum undir sextán ára í viðskiptalegum tilgangi á myndbandasamfélagsmiðlum eins og YouTube (e. online video sharing platform). Hin nýju lög setja kröfur á foreldra, opinbera aðila sem hafa eftirlit með velferð barna og þá miðla sem um ræðir.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir að það verði mjög fróðlegt að fylgjast með framkvæmd þessara laga og segir að það sé alveg eðlilegt fyrir Íslendinga að skoða slíka möguleika í framhaldinu.

„Það eru ákveðnir hlutir sem foreldrar eiga að huga að varðandi börnin sín og samfélagsmiðla, sama hvort þeir eru áhrifavaldar eða ekki. Auðvitað er það þannig í stöðu áhrifavalda að þá fara myndirnar og textinn mikið lengra heldur en annars,“ segir Salvör og bendir á viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum sem umboðsmaður barna gaf út fyrir tveimur árum ásamt UNICEF, SAFT og fleiri samtökum. Viðmiðin má lesa neðst í greininni.

Samþykki

Eitt af þessum viðmiðum er samþykki. Salvör leggur mikla áherslu á að foreldrar fái samþykki frá börnunum sínum. „Og átti sig á því að mjög ung börn geti haft skoðun á því hvað sé sett inn, og alltaf staldra við áður en ljósmyndir eru settar inn. Ég tala nú ekki um myndir af nöktum eða fáklæddum börnum til dæmis í baði eða á sólarströnd. Alltaf að staldra við og hugsa hvort það sé ástæða til að setja þetta inn,“ segir Salvör

Hún segir að vandamálið sé einnig að foreldrar deili myndefni af börnum í viðkvæmum aðstæðum, sem eru til dæmis að sýna af sér erfiða hegðun eða eru veik. „Svo eiga foreldrar heldur ekki að gera ráð fyrir því að börn vilji alltaf til dæmis að jákvæðar fréttir um þau séu birtar,“ segir Salvör.

„Við höfum fengið fyrirspurn frá barni sem var óánægt með að foreldri hefði deilt einkunnaspjaldi á samfélagsmiðli, þau voru rosalega stolt af barninu en það vildi ekki hafa upplýsingarnar á netinu. Þetta hefði mátt fyrirbyggja með því að fá samþykki frá barninu, áður en til birtingar kom.“

Hvað getum við gert?

Salvör segir að það sé ekki einfalt að móta rammann utan um þetta, það þurfi að fara fram mat hverju sinni, en alltaf eigi að líta til þess sem er viðkomandi barni fyrir bestu. „Við verðum að höfða til dómgreindar foreldra. Hugsið áður en þið birtið og fáið samþykki barnanna. Hugsið um það, veltið því fyrir ykkur hvað þið mynduð vilja. Reynið að setja ykkur í spor barnanna, hvernig þeim mun líða þegar þau verða eldri. Það eru bara ákveðnir hlutir sem þarf að hafa í huga. Frakkland er að fara þá leið að setja lög sem tengjast þessu og er sérstaklega beint að áhrifavöldum. Það er kannski það sem þarf,“ segir hún og bætir við að það sé líka mikilvægt að leita allra leiða til að fræða foreldra og aðra aðstandendur barna um rétt barna til einkalífs og eðli samfélagsmiðla.

Salvör rifjar upp áhugavert dómsmál í Noregi þar sem móðir var dæmd fyrir að hafa brotið með refsiverðum hætti gegn friðhelgi einkalífs sjö ára dóttur sinnar með því að deila myndum af henni á Facebook. Í dómnum kom fram að ekki væri heimilt að deila hvaða myndum sem er af börnum á samfélagsmiðlum. Móðirin hafði deilt myndum og myndböndum af dóttur sinni til að vekja athygli á baráttu sinni við barnaverndarnefnd vegna barnsins.

„Börn hafa rétt á friðhelgi einkalífsins eins og við hin og það er alvarlegt að það sé verið að setja allar þessar upplýsingar um börn, oft mjög viðkvæmar, eins og um líðan þeirra og greiningar. Þó að nöfn barnanna komi ekki fram, eins og þegar foreldri deilir einhverjum viðkvæmum upplýsingum í lokuðum Facebook-hóp, þá er foreldrið að tala um þessa hluti undir nafni og auðvelt að rekja það til barnsins. Við þurfum að fara að fara miklu varlegar en við gerum. Það er búin að vera heilmikil umræða um þetta á síðustu árum, en það er meiri ástæða til þess núna en áður,“ segir Salvör.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Mynd/Valli

Markaðssett tekjulind

Talið berst að því þegar börn eru notuð af foreldrum sínum í markaðslegum tilgangi. Eins og þegar foreldri fer í samstarf með barnavörufyrirtæki og birtir myndir eða myndbönd af barninu með vörunum gegn greiðslu. Salvör segir að henni þykir það óviðeigandi. „Spurningin er þá, ef það er ekki hægt að höfða til dómgreindar fólks og skilnings á réttindum barna, þá er mögulegt að það þurfi að grípa til aðgerða eins og að setja lög,“ segir hún.

„Foreldrar hafa rétt á að taka ákvarðanir hvað varðar hag barna, en það þýðir ekki að þeir hafi ótakmarkaðan rétt vegna þess að börnin eiga líka sjálfstæð réttindi. Þetta snýst um það. Þau hafa rétt á að friðhelgi þeirra sé virt. Með tilkomu samfélagsmiðla hafa komið upp ný álitaefni og foreldrar verða að axla ábyrgð sína og vernda börnin sín,“ segir Salvör og bætir við:

„Svo má ekki gleyma að allar þessar myndir sem við erum að deila á Facebook og Instagram, þær eru í eigu erlendra fyrirtækja. Þú átt ekkert þessar myndir eftir að þú setur þær þarna inn og það hafa jafnvel allir aðgang að þeim. Barnið verður berskjaldað. Núna er að vaxa upp kynslóð sem hefur alist upp við þetta frá blautu barnsbeini og það er alveg gríðarlegt magn af myndum af börnum á samfélagsmiðlum, og margar þeirra eiga ekkert erindi þangað. Það eru ekki bara foreldrar sem deila myndum af börnum á samfélagsmiðlum, heldur líka ömmur og afar, og oft án nokkurrar umhugsunar og því þarf að breyta.“

Mynd/Getty

Viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum

Viðmiðin eru hugsuð sem heilræði fyrir foreldra og aðra aðstandendur barna, vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum. Í þeim er fjallað um sjónarmið sem gott er að hafa í huga þegar myndum og öðrum persónuupplýsingum um börn er deilt á samfélagsmiðlum.

Foreldrar og aðrir aðstandendur barna eru sérstaklega hvattir til að hugsa sig um áður en færslum um börn er deilt á samfélagsmiðlum, með friðhelgi barnsins að leiðarljósi. Viðmiðin byggja á grunngildum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.

Friðhelgi

Öll börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs, samkvæmt Barnasáttmálanum og stjórnarskrá Íslands, rétt eins og fullorðnir – bæði innan heimilis og utan. Börn eiga rétt á að njóta friðhelgi um lífshætti sína og einkahagi. Það sama gildir um tilfinningalíf barna, tilfinningasambönd þeirra og trúnaðarsamskipti.

Samþykki

Mikilvægt er að fá samþykki hjá börnum áður en talað er um þau á samfélagsmiðlum eða birtar af þeim myndir, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Hafa þarf í huga að börn kunna að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða myndbirtingum af þeim, þrátt fyrir að vera ung að aldri og að taka ber tillit til skoðana þeirra.

Ábyrgð

Foreldrar, forsjáraðilar og aðrir sem annast börn bera ábyrgð á velferð þeirra og eiga að vera meðvitaðir um mannréttindi barna. Allt sem birt er á netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barnsins með ýmsum hætti. Er því mikilvægt að setja sig í spor barnsins og hugsa um hvaða áhrif myndir eða umfjallanir geta haft á barnið síðar.

Öryggi

Hafa ber í huga að öryggi mynda á netinu verður aldrei fulltryggt. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að myndum eða umfjöllun verði dreift, jafnvel af lokuðum síðum. Einnig er áríðandi að upplýsingar um staðsetningu og GPS-hnit fylgi ekki myndum sem deilt er af börnum á samfélagsmiðlum þannig að óviðkomandi aðilum verði ekki kunnugt um staðsetningu þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar