fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Erfitt að halda í gleðina í COVID

Fókus
Sunnudaginn 30. ágúst 2020 22:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem vill huga betur að andlegri heilsu.

 

„Ég er ein af þeim sem hafa alltaf bara lifað sínu lífi án þess að hugsa sérstaklega um andlega heilsu og hef haft það alveg ágætt þó maður hafi alveg glímt við ýmsa erfiðleika eins og hver annar. Ég veit að andleg heilsa hangir sama við líkamlega heilsu, það er gott að fara reglulega í göngutúra, borða hollan mat og slíkt. En ég er nú að komast á aldur og veit að andlegri heilsu fer oft að hraka með hækkandi aldri. Mig langar því að fara inn í haustið með fókus á andlegu hliðina. Ég skal líka alveg viðurkenna að þetta COVIDástand er ekki til að hjálpa mér að halda í gleðina, með öllum þessum boðum og bönnum. Nú má maður ekki einu sinni faðma alla sem maður vill faðma.

Sumar vinkonur mínar fara reglulega til sálfræðings, svona eins og aðrir fara til sjúkraþjálfara, en mér finnst það heldur dýrt. Mælirðu með því að ég skrái mig á einhver námskeið, kannski í núvitund sem er svo vinsæl núna? Eru einhver grunnatriði til að huga að þegar kemur að því að efla andlegu hliðina?”

____________

Klapp á bakið

Sæl, fröken mjög meðvituð.

Þú átt hrós skilið fyrir að senda inn spurningu sem snýr að fyrirbyggjandi málum. Fólk er svo oft að senda mér spurningar í örvæntingu eða þegar vandinn er orðinn mikill. Gott hjá þér líka að nýta þetta úrræði sem kostar ekki neitt en getur mögulega komið þér inn á hjálplega braut. Klapp á bakið fyrir þetta allt saman.

Nátengdir þættir

Það er rétt hjá þér að andleg og líkamleg heilsa eru nátengdir þættir. Aftur á móti útilokar eitt ekki hitt. Þú getur hlúð vel að andlegri heilsu þó líkamlega heilsan sé ekki góð og það er til fullt af fólki í góðu líkamlegu formi sem mætti vera við betri andlega heilsu. Þú orðar spurninguna þannig að þú hugsar nú þegar vel um þig líkamlega og nú ætlir þú að setja fókus á andlegu hliðina.

Ég vil þó læða því að þér að þú ert nú þegar að gera fullt og ef þú skerpir aðeins á því eða blandar því við annað þá gætir þú sömuleiðis náð góðum árangri með andlegu hliðina. Getur þú til dæmis samnýtt göngutúra og andlega næringu? Gætir þú hlustað á hljóðvörp um andlega nærandi málefni, núvitund eða sjálfsrækt á meðan þú gengur? Þá eru til dæmis til matreiðslu/næringar-námskeið þar sem tengsl milli andlegrar heilsu og mataræðis eru skoðuð og góð ráð gefin.

Hundfúlt ástand

Ég veit að það er hundfúlt að við getum helst ekki faðmað hvert annað og þurfum að temja okkur nýjar umgengnisreglur en þá er gríðarlega mikilvægt að finna nýjar leiðir, draga ekki úr tengslum við annað fólk og velja okkur félagsskap sem nærir andlega.

Einmanaleiki er orðinn einn alvarlegasti heilsufarsvandi í heimi samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og þar getur COVID haft alvarleg áhrif. Þú virðist meðvituð um þetta allt saman og því hvet ég þig til þess að setja þér markmið sem snúa að tengslum og góðum félagsskap sem lið í því að styrkja andlega heilsu þína.

Birtir bráðum til

Já, sálfræðiþjónusta hefur verið ansi kostnaðarsöm en nýlega voru samþykkt lög á Alþingi um aukna greiðsluþátttöku ríkisins í þeim bransa. Það ætti því fljótlega að vera möguleiki fyrir þig að fara til sálfræðings án þess að greiða nýra og lifur fyrir. Þú hefðir örugglega bæði gagn og gaman af því að prófa slíkt.

Aldrei of gömul

Sterk sjálfsmynd hefur sterkasta forspárgildið um hamingju í framtíðinni. Við erum aldrei of gömul til þess að styrkja sjálfsmynd okkar og hámarka þannig hamingjuna. Við erum gjörn á að ota slíku að unglingunum okkar sem eru á svo miklum mótunarárum en þar sem þú finnur fyrir því að aldurinn er að færast yfir þá ertu á ákveðnu breytingaskeiði sem gæti verið fínasti stökkpallur út í slíka sjálfsvinnu.

Hver ert þú núna? Hverju langar þig að breyta? Hvað lætur þig fá jákvæða sjálfsmynd og hvenær ertu með neikvæða sjálfsmynd? Hvað þarf að breytast svo þér líði oftar vel og sjaldnar illa?

Þetta eru spurningar sem við höfum öll gott af að spyrja okkur reglulega, velta fyrir okkur, setja okkur markmið í kringum og fylgjast með framgangi þeirra. Þetta er vinna sem þú getur unnið sjálf og jafnvel haft gaman af. Að rækta sjálfsmyndina er ekki eitthvað sem við gerum á einni kvöldstund heldur markvisst yfir lengri tíma. Líttu á þetta eins og að stunda reglulega líkamsrækt.

Meira af skemmtilegu

Að lokum, þú vilt fyrirbyggja að þér fari að líða illa. Það merkir að þér líður nokkuð vel og því gæti verið ráð að reyna eftir bestu getu að njóta þess. Ég horfði á heimildarmynd á RÚV fyrir stuttu um 105 ára konu sem sagði að ef hún hætti að gera skemmtilega hluti þá myndi hún örugglega drepast og þá sennilega úr leiðindum. Ég held að það sé margt til í þessu hjá henni. Ef við gerum mikið af því sem okkur finnst skemmtilegt og lítið af því sem er leiðinlegt. Ef við njótum þess góða og leiðum hið vonda hjá okkur þá komumst við ansi langt.

Gangi þér ofsalega vel og góða skemmtun
_____________

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“