fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

„Ég vil ekki vita af henni einni með þessum manni“

Fókus
Sunnudaginn 17. maí 2020 18:00

Kristín Tómasdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir, hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem á vinkonu í ofbeldissambandi og veit ekki hvað hún á til bragðs að taka.

_ _ _ _ _ _

Hæhæ. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera, eða hvort ég geti gert eitthvað en ég á mjög góða vinkonu sem er í ofbeldissambandi. Hún hefur sagt okkur vinkonunum frá ofbeldinu og gert margar tilraunir til að komast út úr sambandinu en sogast alltaf aftur inn og þá vill hún ekkert lengur tala um ofbeldið og þá er bara allt í gúddí og við vinkonurnar eigum bara að láta eins og við vitum ekki neitt og umgangast ofbeldismanninn eins og ekkert hafi í skorist. Ég vil ekki missa vinkonuna frá mér og vita af henni einni með þessum manni.

_ _ _ _ _

Sæl, kæra vinkona

Þetta er snúin staða og því miður ekki nein einföld lausn til. Það gæti verið farsælt að aðgreina annars vegar vinkonuhlutverkið og hins vegar stöðuna sem vinkona þín er í.

Sennilega hefur hún aldrei þurft jafn mikið á þér að halda svo þú gerir líklega mest með því að vera til staðar fyrir hana og grípa hana þegar hún hrasar.

Óbærilegar aðstæður

Varðandi hennar stöðu þá er mikilvægt að vita að ef einhver er í hættu þá hringjum við í lögregluna. Þó svo að þú vitir ekki hvort það sé eitthvert atvik í gangi þá getur þú tilkynnt um að þig gruni að á þessu heimili eigi sér stað viðvarandi ofbeldi. Ef börn eru á heimilinu ber þér skylda til að tilkynna um það til barnaverndarnefndar.

Hvort tveggja er gert með því að hringja í 112. Þetta gildir ekki bara ef börnin eru sjálf í hættu á að verða fyrir ofbeldi heldur er ofbeldi gagnvart móður skilgreint sem ofbeldi gagnvart barni. Það eru óbærilegar aðstæður fyrir börn að lifa við ótta og hræðslu við foreldri, en því miður gleymast stundum börnin við svona aðstæður.

Skaðaminnkandi nálgun

Þá er ofboðslega mikilvægt að reyna að halda í trúnað vinkonu þinnar þegar hún segir frá, þakka henni traustið. Þannig nærð þú mikilvægum upplýsingum, getur metið hættuna og tilkynnt nafnlaust til lögreglu um leið og þú telur ástandið hættulegt.

Annað varðandi hættuna, hefur vinkona þín skipulagðar flóttaleiðir? Er hún alltaf með símann á sér? Þetta eru öryggisatriði sem geta bjargað mannslífum og með því að koma þeim upplýsingum á framfæri til vinkonu þinnar, gætir þú verið að beita verulega skaðaminnkandi nálgun við sorglegar aðstæður.

Ég skil vel að þig langi til að segja vinkonu þinni að fara frá honum, en því miður skilar það sjaldnast árangri. Við getum aldrei sagt neinum að skilja, heldur þarf fólk að finna kraft og löngun hjá sjálfu sér.

Eitt af því sem gerir heimilisofbeldismál flókin er að sá sem verður fyrir ofbeldinu verður ódómbær á aðstæður sínar, sér ekki ofbeldið eða finnst jafnvel eins og það sé verðskuldað. Í slíkum tilfellum skiptir ekki máli hvað þér finnst, eða hvernig þú vilt að hún bregðist við, heldur að hennar innsæi og upplifun er önnur og því er erfitt fyrir þig að breyta.

Aldrei rétt að þegja

Það er aldrei rétt að þegja yfir ofbeldi, en ef vinkona þín lokar á alla umræðu er mikilvægt að nota glufurnar þegar þær skapast. Þá skiptir máli að vera ekki dæmandi eða ásakandi „ætlarðu ekki að fara að koma þér frá honum?“ eða „hvað ætlarðu að láta þennan fávita bjóða þér þetta lengi?“. Slíkur ásökunartónn kallar á varnarviðbrögð hjá vinkonu þinni og þannig myndast stærri gjá á milli ykkar.

Segðu henni heldur hvað þér þyki vænt um hana og að þú sért til staðar. Þú getur nálgast hana með litla fræðslumola um einkenni heimilisofbeldis, ofbeldishringinn og hvernig ofbeldið getur stigmagnast. Eins gæti verið gott að skapa hjá henni von, með því að nefna dæmi þar sem aðrir hafa komist út úr svona aðstæðum. Á Youtube má finna slíkt efni sem nefnist „Þekktu rauðu ljósin“.

Þá gætir þú bent henni á að það er alltaf hægt að sækja aðstoð í bæði Kvennaathvarfinu og Bjarkarhlíð.

Þess á milli væri farsælt að eiga með henni ánægjulegar stundir þar sem umræðuefnið er ekki stöðugt aðstæður hennar. Það skapar trú á að hún geti átt innihaldsríkt líf og það gefur henni samanburð sem mögulega hjálpar henni að meta aðstæður sínar.

Þú getur alltaf sett mörk

Þú getur alltaf sett mörk og ef þú vilt ekki umgangast mann vinkonu þinnar, þá er það þitt val. Það getur enginn neytt þig til þess að vera í samneyti við ofbeldismann og þar mátt þú alveg vera skýr. Það skiptir þó alltaf máli hvernig við orðum líðan okkar og þú þarft að vanda orðavalið svo þú fælir ekki vinkonu þína frá þér.

Við þurfum svo alltaf að vega og meta hagsmuni, ef þú ert ekki hrædd við að hann geri þér eitthvað og vinkona þín vill að þið hittist öll saman, þá er spurning hvort vegur þyngra, þín andstyggð á manninum eða vilji vinkonu þinnar? Getur verið að með samveru þinni sé hún að hlífa sjálfri sér við ofbeldi mannsins?

Ég er að sjálfsögðu ekki að setja ábyrgðina á þig varðandi ofbeldið, en mögulega varpar þetta ljósi á aðstæður sem þú hafðir ekki velt fyrir þér.

Vinkonur eru gulls ígildi og í erfiðum aðstæðum geta vinkonur komið til bjargar. Ég heyri að vinkona þín á gott bakland í ykkur vinkonum sínum og þegar á reynir verður það skýrara. Haldið áfram að skapa von, trú og góðar stundir, vera til staðar og sýna henni stuðning. Með kærleika ykkar vinnst þetta vonandi á endanum.

___________

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar