fbpx
Miðvikudagur 28.október 2020
Fókus

Föst í vítahring rifrilda

Fókus
Sunnudaginn 11. október 2020 21:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem er fastur í vítahring rifrilda.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Sæl. Ég og kærastinn minn höfum verið saman í sex ár. Ég elska hann mjög mikið og stundum finnst mér eins og við gætum sprungið úr ástríðu en svo koma tímabil þar sem allt dettur í dúnalogn á augabragði og í kjölfarið byggist upp spenna sem endar með sprengingu. Ég á erfitt með að segja til um hversu oft þetta gerist, stundum líða bara klukkutímar á milli en oftast 3-4 vikur. Yfirleitt ekki mikið meira. Stundum hef ég reynt að setja puttann á það hvað orsakar helst sprengingarnar, en það er ekkert sem ég finn þar. Mér líður eins og við séum föst í mynstri saem við komumst ekki út úr. Geturðu hjálpað mér? Kveðja, Ein að springa úr ást en samt í vanda

_ _ _ _ __ _ _ _ _ _ _ _

Grípið tímanlega inn í

Sæl, ástarsprengja. Takk fyrir góða spurningu. Það er margt þarna sem rímar við vanda hjá öðrum pörum sem leitað hafa til mín. Aðallega er það vítahringurinn sem er kunnuglegur en svo getur það verið pínu fyndið að enginn man um hvað „sprengingarnar“ snérust. Því miður á ég ekki til skyndilausnir en ég get fullvissað þig um að það er fullt af fólki sem hefur fundið lausnir á sambærilegu. Það mikilvægasta er að það sé vilji fyrir hendi til þess að reyna að laga og ræða saman.

Þegar unnið er með vítahringi getur verið hjálplegt að reyna að grípa inn í áður en allt er komið í háaloft og fyrirbyggja þannig þessa klassísku þróun. Þú nefnir að þú áttir þig ekki nákvæmlega á það hvað orsakar helst sprengjur en það gæti verið gott að skoða hvað það er sem einkennir hækkandi spennustig hjá ykkur.

Hækkandi spennustig

Mér dettur í hug að ástandið sem þú nefnir „dúnalogn“ geti verið upphafið að ykkar vítahring? Ef svo er, þá gæti verið ráð að þið mynduð merkja ykkur það, ræða saman þegar þið finnið fyrir logninu og prófa ykkur áfram með nýjar leiðir sem gætu komið í veg fyrir storminn?

Hækkandi spennustig verður líffræðilegt og þegar við náum ákveðnum hæðum setur líkaminn af stað varnarkerfi sitt. Í slíkum aðstæðum grípur fólk til varnarviðbragða og oftast eru þau með þrenns konar sniði, það er barningur (fight), flótti (flight) eða frost (freeze). Sennilega hafið þið bæði sýnt allt framangreint en þegar annar frýs þá er algengt að hinn fari í barning. Ef annar aðilinn leggur á flótta þá berst hinn með kjafti og klóm. Í mikilli hættu kallar líkaminn fram sömu varnarviðbrögð, sumir hlaupa, aðrir frjósa. Þetta segir okkur hvað sterk tilfinningatengsl geta framkallað hjá okkur sterk viðbrögð. Rifrildi við kærastann þinn geta haft sambærileg áhrif á taugakerfi þitt og mikil hætta og jafnvel stríðsástand.

Kortleggið vítahringinn

Þessi vitneskja getur hjálpað ykkur sem einstaklingum að kortleggja hvar í vítahringnum þið eruð stödd. Þú finnur spennustigið hækka og það fer eitthvað að ólga innra með þér. Ekki leyfa því að stigmagnast, stingdu heldur á kýlið og reyndu að fá maka þinn til þess að hjálpa þér að ná þér niður áður en sprengjan verður til. Á þessu stigi nýtist sumum að eiga „leyniorð“ sem gæti verið: pass, kæling eða knúspása (svo eitthvað sé nefnt). Knús er ekkert vitlaus hugmynd því faðmlag framkallar framleiðslu vellíðunarhormóna sem gætu unnið gegn hækkandi spennustigi.

Það mikilvægasta í þessu gæti þó verið að þið séuð ekki að reyna að ræða saman eða komast að niðurstöðu í miðjum hvirfilbyl. Þegar taugaspennan í líkama ykkar er í hámarki heyrið þið bara 10% af því sem sagt er við ykkur og afar líklegt má teljast að það séu bara fúkyrðin fremur en góðu lausnirnar. Margir ná þessu stigi rétt fyrir svefninn, þegar taugakerfið er sem viðkvæmast og allir eru þreyttir. Þá getur „við sofnum aldrei ósátt“ háð fólki verulega, en sumum finnst gott í þessari stöðu að vera sammála um að vera ósammála og klára umræðuna með skýrari koll daginn eftir.

Greina erfiðar stundir

Þó að þú vitir ekki alveg hvað það er sem þið rífist aðallega um eða framkallar hjá ykkur sprengingar þá getur verið nytsamlegt að greina erfiðar stundir og skoða hvort þið finnið eitthvert mynstur. Tengjast sprengjurnar álagspunktum í tengslum við fjölskyldulífið? Sum pör rífast oftast milli 17-19 vegna þess að þá eru þau svöng. Koma sprengjur í kjölfar erfiðisdaga í vinnunni? Ef þið rýnið þetta saman í rólegheitunum þá getur vel verið að þið finnið vísbendingar til þess að vinna út frá.

Að lokum mæli ég alltaf með því að fá aðstoð frá þriðja aðila. Slíkt þarf ekki að kalla á margra mánaða meðferð, einn tími getur gert kraftaverk. Bara það að horfast í augu við vandann, leita hjálpar og eiga smá samtal getur einmitt verið skrefið sem þið þyrftuð til þess að brjóta upp vítahringinn. Það er til mikils að vinna, rífast minna og njóta meira. Þið getið þetta!

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Barnið mitt er bústið – Er það endilega vandamál?

Barnið mitt er bústið – Er það endilega vandamál?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Blaðamaður fórnar sér – „Þetta er það allra versta sem ég hef gert“

Blaðamaður fórnar sér – „Þetta er það allra versta sem ég hef gert“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einhleypar athafnakonur – Eldklárar og æðislegar

Einhleypar athafnakonur – Eldklárar og æðislegar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kórdrengur í Kaupmannahöfn: Tíminn frá því í kringum 1970 lifnar við í nýrri bók eftir Jón Óskar Sólnes

Kórdrengur í Kaupmannahöfn: Tíminn frá því í kringum 1970 lifnar við í nýrri bók eftir Jón Óskar Sólnes
Fókus
Fyrir 4 dögum

Auddi Blö á von á sínu öðru barni – Deilir sónarmynd

Auddi Blö á von á sínu öðru barni – Deilir sónarmynd
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hugrún Britta samdi plötu og áttaði sig á að hún væri flæðigerva – Gefur út nýtt tónlistarmyndband

Hugrún Britta samdi plötu og áttaði sig á að hún væri flæðigerva – Gefur út nýtt tónlistarmyndband