fbpx
Þriðjudagur 09.ágúst 2022
Fókus

Ritdómur um Dyr opnast: Skrifað inn í áreitið og út úr því

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 14. júní 2019 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hermann Stefánsson: Dyr opnast

Smásagnasafn

Útgefandi: Sæmundur

195 bls.

 

Fyrir 20 árum hefði ég getað sagt að nútímamaðurinn yrði fyrir mörgu og margvíslegu áreiti. Líklega hefði ég getað sagt það sama fyrir 30, jafnvel 40 árum, og fólk hefði kinkað kolli. En áreiti samfélagsmiðla og snjallsímaforrita samtímans, margbreytileiki og hraði samfélagsumræðunnar, falsfréttir og raunfréttir, heiftarleg pólarísering, rafræn fjandsemi og ofstopi, endalaus skrásetning daglegrar tilveru – þetta og fleira til hefur gert tilveru margra nútímamanna að lífi undir stanslausu áreiti sem ekki er sambærilegt við nýliðna fortíð.

Sumir hafa fengið nóg og aftengt sig netheimum. Rithöfundar loka Facebook-reikningnum sínum, dusta rykið af gömlu ritvélinni, hreiðra um sig í bókaherbergi með gömlum skræðum, tékka kannski á tölvupósti einu sinni í viku en láta netið annars í friði. Fjölskyldufólk fer í sumarbústaðinn og skilur snjallsímana eftir heima. Tengir sig við náttúruna og spreytir sig á uppbyggilegum samræðum – í eina helgi – ja, eða að minnsta kosti í nokkrar klukkustundir.

Sumir vilja losa sig úr netheimum og tengja sig aftur við „raunveruleikann“. En það er ekki lausn. Því hvað er raunveruleiki? Raunveruleikinn og lífið sjálft er að sjálfsögðu líka á netinu og samfélagsmiðlunum, þar er lífi okkar líka lifað.

Nýtt smásagnasafn eftir Hermann Stefánsson, Dyr opnast, er bók sem má nálgast á margan hátt. Ég upplifi hana sem vel heppnaða tilraun til að takast við þennan ofannefnda nýja veruleika. Hún gerir það á vissan hátt með því að vera „eins og“ þessi veruleiki: óendanlega margbreytileg, stútfull af áreiti sem þó ekki ærir mann né rænir sálarrónni heldur er róandi og sefandi. Þessar tæplega tvö hundruð blaðsíður af stuttum sögum, athugunum og pælingum er merkileg og margbrotin kvika. Sögurnar eru afar ófyrirsjáanlegar, sumar einkennast af heimspekilegri nálgun, aðrar eru í senn gróteskar og afskaplega fyndnar.

Það virðist betra og skemmtilegra að lesa bókina frá upphafi til enda en að tína út eina og eina sögu. Lesandinn fær tilfinningu fyrir heild sem hver getur túlkað með sínum hætti. Upphafssagan er titilsagan Dyr opnast og fjallar um dreng sem virðist ekki vera til og sagan vekur skemmtilegar spurningar um eðli tilvistarinnar. Lokasagan heitir Dyr liggja norður og er fantasía sem býður upp á flótta úr okkar menningarheimi ofgnóttarinnar, tækninnar og áreitisins og inn í menningu 18. aldar. Víða fær lesandinn tilfinningu fyrir einhvers konar samhengi eða samfellu. Það er til dæmis væntanlega engin tilviljun að sögurnar Óumflýjanlega, Póstsending og Vitaverðir rjúfa þögnina, eru hver á eftir annarri. Sú fyrstnefnda minnir á gamanþættina Klovn og lýsir óendanlega seinheppnum manni sem er við það að verða sterklega grunaður um barnaníð, alsaklaus. Póstsending lýsir hins vegar siðblindu hugarfari raunverulegs barnaníðings. Vitaverðir rjúfa þögnina hefur hins vegar vakið áhuga æsifréttamanna því túlka má hana sem hæðnisádeilu á #metoo byltinguna, sem hún vissulega er, en að lesa hana í samhengi allrar bókarinnar er samt öðruvísi en að lesa hana eina og þá virðist hún ekki eins ögrandi, vegna þess að tónninn í allri bókinni er svo fullkomlega laus við skoðanir, eða siðferðismat. Engu er hlíft án þess að þó að reynt sé að gera sér far um að hjóla í einhverja. Tónn bókarinnar virkar blindur á móðgunargirni, en kannar, gaumgæfir, lýsir og afhjúpar án tillitssemi, án þess að vita hvað tillitssemi er.

Dyr opnast er afsakplega skemmtileg upplifun fyrir lesanda með opinn huga. Djúp, margræð og margbrotin, bráðfyndin og flugbeitt. Bók sem er skrifuð beint inn í okkar skrýtna og margbrotna samtíma og tekst á við hann á fádæma frumlegan hátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

Sigrún Gyðja á von á barni

Sigrún Gyðja á von á barni
Fókus
Fyrir 6 dögum

Frægar bíómyndir sem aldrei yrðu gerðar í dag

Frægar bíómyndir sem aldrei yrðu gerðar í dag