fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

„Fólk verður að vita að það er alltaf von“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 13. maí 2019 20:00

Mynd: Dv/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Ólafsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Píeta samtakanna um síðustu áramót, en þrátt fyrir nám í viðskiptum og lögfræði hefur hún aldrei unnið við þau störf, heldur frekar kosið að vinna störf sem snúa að hinu mannlega, samskiptum og að sköpun. Hún hefur borið fyrir brjósti hag þeirra sem minna mega sín frá unga aldri og á, að eigin sögn, mjög gott með að vinna með fólki, en er á sama tíma óskipulögð og örlítið flippuð og sennilega ekki allra.

Blaðamaður DV settist í sófann með Kristínu á Baldursgötu 7 og fór yfir feril Garðabæjarpíunnar, sem brennur í dag fyrir að þeir sem sjá ekkert annað en myrkur og vonleysi í lífi sínu, finni aftur ljósið og vonina.

„Ég er Garðabæjarpía alveg í húð og hár,“ segir Kristín og hlær aðspurð um bakgrunn sinn. Hún er fædd og uppalin í Garðabæ, gekk þar í grunnskóla, en „villtist“ í tvö ár til Hafnarfjarðar við skilnað foreldra sinna. „Svo eftir grunnskóla þá ætlaði ég auðvitað í Verzló, sem ég var samt ofboðslega lítið spennt fyrir og ákvað að taka mér árs frí og fara að vinna á ljósastofu. Það var alltaf skýrt að foreldrar mínir ætluðu að styðja við mig fjárhagslega ef ég héldi áfram í skóla, en það besta sem fósturfaðir minn gerði var að skrifa miða til mín,“ segir Kristín. Á ljósastofunni ætlaði hún að vinna vaktavinnu: „Ég átti að fá 78.940 krónur útborgaðar og mér fannst ég afskaplega rík.“

Á miðanum frá fósturföður hennar kom hins vegar fram að þar sem hún ætlaði sér að vera vinnandi manneskja þá myndi hún auðvitað greiða sinn hluta af tekjum sínum til heimilisins í afborganir, hita, rafmagn og annað slíkt og „það er ljóst að þú þarft að fá þér aukavinnu til að þú eigir einhvern afgang.“

Kristín var rosalega fúl með þessi skilaboð og hitti síðan skólasystur sína niðri í bæ á 17. júní, sú ætlaði í Menntaskólann á Laugarvatni og Kristín kom heim með þau skilaboð að þangað ætlaði hún líka, en samt bara í eina önn meðan hún ákvæði hvað hún sjálf ætlaði að gera. „Ég sá fyrir mér að þarna yrði fullt af sætum strákum og mikið frelsi á heimavist,“ segir Kristín, sem síðan var nöppuð strax fyrsta kvöldið í tíkallasímanum á gangi skólans, þar sem hún tjáði móður sinni að hún gæti ekki verið þarna, „það eru rosalega ljótir strákir og allir rosalega hallærislegir hérna.“

Þrátt fyrir að hafa fallið í stærðfræði á fyrstu önninni og grátið yfir örlögum sínum í fanginu á skólameistaranum, þar sem hún sá ekki fram á að ná einu sinni fyrstu önninni, útskrifaðist Kristín eftir fjögur ár. „Ég grét líka á útskriftinni, mér fannst svo sorglegt að vera búin með þessi fjögur ár og skólabræður mínir voru bara mjög sætir og eru enn í dag sætustu strákarnir sem ég hef kynnst.“

Brosmild á Baldursgötu Kristín fyrir utan Baldursgötu 7, þar sem tekið er á móti öllum sem á aðstoð þurfa að halda, án endurgjalds.

Ólöglegt vinnuafl og fann eiginmanninn á bar erlendis

„Eftir útskriftina þá fór ég á ferð og flug, fór fyrst til Englands og þaðan til Lúxemborgar þar sem ég réð mig í vinnu á bar og var ólöglegt vinnuafl. Ég man að alltaf þegar löggan kom, þá þurfti ég að fela mig, þetta er rosalegt þegar ég hugsa um það í dag,“ segir Kristín.

Þegar peningarnir voru búnir þá ætlaði Kristín aftur heim. „Ég sat á bar með ferðatöskuna mína, átti engan pening og ekkert heimili. Þá spurði strákur sem ég hafði kynnst þarna og rak bar hvort ég vildi ekki bara vera áfram, bauð mér vinnu og húsnæði, þar til ég fyndi annað. Allavega endaði ég á að giftast þessum manni og eiga með honum eitt barn.“

Parið bjó saman í Lúxemborg í tvö ár, kom svo heim og þá snerust málin við og kærastinn gat ekki unnið hér, þar sem hann var útlendingur. „Við giftum okkur því, fórum svo bæði til Englands í nám, ég að læra Evrópuviðskipti og hann viðskipti og fjármál. Þar áttum við líka son okkar, Stefán, sem er fæddur 1996.

Ég fór í viðskipti af því það var skynsamlegt, ekkert annað, ég ætlaði alltaf í félagsfræði, sálfræði, eitthvað mannlegt,“ svarar Kristín aðspurð hvernig námið hafi nýst henni. „Ég hef þó unnið í markaðsmálum og markaðstengdum störfum og ýmsu tengdu viðskiptum þótt ég sé ekki góð í bisness.“

Gagnrýnd fyrir að Disney-væða flóttabarn

Eftir að Kristín kom heim starfaði hún í mörg ár í breska sendiráðinu sem upplýsingafulltrúi. Árið 2003, stuttu eftir að hún skildi við eiginmann sinn, bauð þáverandi sendiherra Breta, John Culver, henni að fara í námsleyfi í eitt ár. „Þá vorum við að vinna með Barnasáttmálann í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Ég fór til Lancaster á Englandi og lauk LLM í mannúðar- og mannréttindalögfræði, sem ég hef heldur aldrei notað,“ segir Kristín og brosir, „en þarna fékk ég mjög mikinn áhuga á málefnum flóttafólks og hælisleitenda og hef troðið mér í margar nefndir og samtök í kjölfarið.“

Kristín sat meðal annars í stjórn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, sem Sema Erla Serdar stofnaði í byrjun árs árið 2017. „Ég er hætt í stjórninni, en er með nokkrar flóttafjölskyldur sem vini, sem ég aðstoða sem einstaklingur og þau geta leitað til mín þegar þau vantar aðstoð. Ég á líka eina skádóttur, hana Hanye, sem er 14 ára. Henni kynntist ég þegar átti að vísa henni og föður hennar úr landi árið 2017. Ég hitti hana fyrst á Biskupsstofu sem fulltrúi Solaris og þana sat þetta litla barn sem bara grét og grét í fanginu á mér. Það var búið að reyna allt til að halda þeim feðginum hér heima … nema að Disney-væða barnið, sem er orð úr miður fallegum skilaboðum sem ég fékk. Hennar eina ósk var að verða 12 ára á Íslandi og mig langaði að halda afmæli fyrir hana sem var rosalega erfið ákvörðun, og ég fékk á mig gagnrýni og mörg ekki falleg skilaboð um hvað ég væri að gera barninu. Að Disney-væða hana með því að klæða hana í kjól, mynda og setja hana í blöðin og halda veglegt afmæli með gestum og gjöfum til þess eins að senda hana svo í flóttamannabúðir.

Ég skil auðvitað bæði sjónarmið, þarna á að henda henni úr landi og hún er komin í fallegan kjól og í blöðin og kannski var ég að vekja falskar vonir hjá henni. En ég ræddi þetta mjög vel við pabba hennar, að þetta væri bæði til að uppfylla ósk hennar og vekja athygli á málstaðnum. Í kjölfarið var samþykkt frumvarp um málefni flóttafólks og þau feðgin eru hér enn og fleiri börn sem hafa notið góðs af.“

Einstæð móðir á Bifröst og í hótelbransa

Eftir að Kristín lauk störfum hjá breska sendiráðinu árið 2006 fór hún að kenna ensku við Bifröst og eftir að hafa starfað þar í eitt ár bauð Runólfur Ágústsson, þáverandi rektor, henni að sjá um alþjóðamálin. Hún flutti því með Stefán son sinn þangað. „Árin á Bifröst voru æðisleg ár. Ég kynntist frábæru fólki og eru nemendur frumgreinadeildar sem og skiptinemar mitt uppáhaldsfólk. Þegar við fluttum aftur til Reykjavíkur nokkrum árum seinna, varð ég fljótlega ófrísk að Jakobi Friðriki, sem er sjö ára í dag. Þegar hann var eins árs bauðst mér að vera með í skemmtilegu verkefni. Vin vinar míns langaði að búa til hostel og vissi ekkert hvar átti að byrja frekar en ég, en við hittumst nú samt og þetta var upphafið að Bus Hostel í Skógarhlíð, sem var dásamlega fallegt verkefni og mér þykir eiginlega vænst um af öllu því sem ég hef gert,“ segir Kristín.

„Verkefnið var „low budget“ og allt var með sál þar inni, sem dæmi má nefna að myndir á veggjum voru eftir vini og ættingja og gamlir munir héðan og þaðan. Hostelið var byggt og rekið á trausti og heiðarleika, engin verðmæti, eins og tölvur og plötuspilarar, voru læst inni og fyrir matinn sem boðinn var til sölu þurfti fólk bara að skilja eftir pening, það var enginn sem afgreiddi. Hostelið gekk algjörlega á heiðarleikanum.“

Næst tók Kristín þátt í uppbyggingu Oddsson í JL húsinu og segir að þar hafi verið öfgaheimar á milli, en eigi að síður einnig skemmtilegt verkefni með áhugaverðu fólki. „Síðan fór ég á Guldsmeden Hótel Eyja, sem er fjölskyldurekið af dásamlegu pari sem brennur fyrir hótelbransann. Ég hef bara kynnst æðislegu fólki í öllum þessum verkefnum.“

Aðspurð hverju hún hafi sinnt í þessum verkefnum segir Kristín að hún geri bara það sem gera þarf. „Ég er alltaf drottningin, sama hvert ég fer,“ segir hún og hlær. „Mér gengur rosavel að vinna með fólki og ég hef eignast marga af mínum bestu vinum í gegnum vinnu og samstarf. En ég er mjög léleg í mörgu, ég er til dæmis rosalega óskipulögð bæði í vinnu og einkalífi, en þannig er ég bara. Ég hef alltaf átt erfitt með að ramma sjálfa mig inn, ég heyrði einhvern tíma viðtal við Röggu Gísla sem sagði að hún hefði bara áhuga á svo mörgu og ég hef alltaf spilað þessa setningu í hausnum á mér; „ég hef bara áhuga á milljón hlutum“.“

Málefni sem snertir alla Kristín segir mikilvægt að geðheilbrigðismál snerta alla, hvar sem þeir eru staddir í samfélaginu.

„Á erfitt með óréttlæti sama í hvaða mynd það birtist“

Kristín var byrjuð í sjálfboðaliðastörfum löngu áður en það var orðin jafn algengt og það er í dag. „Mamma hefur alltaf sagt að ég sé rosalega aumingjagóð, hennar orð,“ segir Kristin. „Ég ætlaði til dæmis aldrei að eignast börn, ég ætlaði bara að búa í Afríku og hugsa um fullt af börnum og svo ætlaði ég að ættleiða allan heiminn. Þótt ég hafi verið einhver Garðabæjarpía þá var ég í Amnesty International og æddi um allan miðbæinn í „second-hand“ rúskinnsjakka og hermannaklossum að biðja fólk um að skrifa undir lista gegn dauðarefsingum.“

Aðspurð hvaðan sjálfboðaliðaáhuginn sé sprottinn svarar Kristín að það sé líklega bara hjá henni sjálfri. „Þegar ég er að alast upp sem barn og unglingur, þá var Hjálparstarf kirkjunnar að byrja með pappírsbauka með myndum af sveltandi börnum í Afríku, Sameinuðu þjóðirnar með ár barnsins, Live Aid-tónleikarnir voru og maður þroskaðist með þessu. Ég hef átt erfitt með óréttlæti frá því að ég var mjög lítil, sama í hvaða mynd það birtist. Ég er með bráðaofnæmi fyrir óréttlæti.“

Hjá Píeta eru allir með hjartað á réttum stað

Í lok síðasta árs tengdi vinkona Kristínar hana saman við stjórn Píeta samtakanna og átti Kristín nokkra fundi með Björk Jónsdóttur, formanni stjórnar, og Benedikt Guðmundssyni, varaformanni og einum stofnenda. „Við áttum falleg og heiðarleg samskipti frá fyrsta degi og fórum vel yfir tilgang og eðli Píeta. Þau vildu velja einhvern í starfið sem myndi passa vel við það og ég var óviss um hvað mig langaði að gera. Ég féll hins vegar alveg fyrir starfinu og Píeta samtökin eru eitt það fallegasta sem ég hef kynnst. Þetta eru samtök í eigu þjóðarinnar, allur peningur sem kemur hérna inn er framlög frá einstaklingum og félagasamtökum, styrktarsamfélagið er ótrúlegt. Og þetta er mjög jákvæður vinnustaður og hér eru allir með hjartað á réttum stað og að vinna að sama markmiði.“

Kristín segist vera með ólíkan bakgrunn miðað við samstarfsfólk sitt, en segir það engu að síður gott, fjölbreytileikinn sé góður, en allir mætist sem jafningjar. „Áður en ég hóf störf hér, þá hélt ég að ég tengdi lítið við grundvöll Píeta, en þetta er málefni sem snertir svo marga. Það eiga allir sögu, sem tengist málefninu og það finnst mér mjög mikilvægt í umræðunni; að þetta snertir alla á einhvern hátt, það virðist enginn sleppa, en það er mjög mikilvægt að fólk viti að það er hægt að leita sér hjálpar.

Við þurfum öll að tilheyra, við þurfum að vera með tilgang og við þurfum að geta séð fyrir okkur, þetta eru grunnatriðin og ef eitthvert af þeim klikkar eða brotnar, þá getur ýmislegt farið af stað í höfðinu á manni eða taugakerfinu. Einnig geta sjálfsvígshugsanir verið afleiðing vissrar neyslu og einkenni vissra geðsjúkdóma en það má ekki gleyma því að þessar hugsanir eru eðlilegar; eru bara hugsanir, en hvernig bregstu síðan við þeim það er annað mál. Þú þarft ekki að glíma við sjúkdóm til að fá sjálfsvígshugsanir, það eru óþægilega margir sem hafa sagt við mig: „Já ég pældi nú í því 2007 að enda þetta bara“.“

Þörfin fyrir starfsemi Píeta er mikil

Hjá Píeta er boðið upp á gjaldfrjálsa meðferð hjá fagfólki til að vinna á sjálfsvígshugsunum og skaða, og tölurnar sýna að þörfin á aðstoð er mikil. Í apríl árið 2018 voru viðtölin 19 talsins, í apríl í ár eru þau 158. „Það kostar peninga að fara til geðlæknis og sálfræðings, rosalega mikið, sem er kostnaður sem Píeta ber með gleði. Það var eitt af mínum verkefnum að koma tölfræði á hreint og innleiða gagnagrunn. Tölfræðin þarf að vera skýr, því hún er einn grundvöllur þess að fá fjármagn. Þörfin er mikil og núna í mars lentum við í því að hafa hvorki nægan mannafla né viðtalsherbergi til að geta unnið eins og við viljum vinna. Við viljum að fólk komist strax að þegar það hefur samband við okkur. Edda Arndal, forstöðumaður faglega hlutans, og fagfólkið sem vinnur hérna hefur unnið engu að síður unnið kraftaverk.“

Að sögn Kristínar er yfirbyggingin eins lítil og kostur er, húsnæðið er lánað endurgjaldslaust af Alma og húsgögn og aðrir innanstokksmunir, auk vinnu við að koma húsnæðinu í stand, voru gjöf frá fyrirtækjum, verktökum og sjálfboðaliðum. „Starfsfólk vinnur endurgjaldslaust umfram sinn vinnutíma og Ljósberar, sem eru sjálfboðaliðarnir okkar, leggja sitt af mörkum og okkur vantar fleiri góða einstaklinga í þann hóp.“

Öllum gefst kostur á að styrkja Píeta með mánaðarlegu framlagi að eigin vali. „Ég held að fólk geri sér oft ekki grein fyrir hvað það er að hafa góð áhrif með sínu framlagi, 1.000 krónur á mánuði í eitt ár greiða inntökuviðtal hjá sérfræðingi fyrir einstakling sem langar til að deyja. Hversu magnað er það?

Ég held að margir greiði í alls konar félög og hafi ekki hugmynd um í hvað framlag þeirra fer og hvað það skiptir miklu máli. Einnig er fjöldi félagasamtaka eins og Kiwanis, Lions og Oddfellow að gera kraftaverk. Sjálfboðavinna er svo ný af nálinni hér á landi. Árið 1993 þegar ég var að sækja um í skóla á Bretlandi þá var ég alltaf spurð um hvaða sjálfboðastörfum ég hefði sinnt og á námsárunum var ég sjálfboðaliði í dýraathvörfum og fleira,“ segir Kristín. „Árið 2001 þegar ég byrjaði í breska sendiráðinu þá var oft talað um hvað var lítið um sjálfboðaliðastörf hérna, eiginkonur diplómata fundu ekkert að gera og voru því oft mjög einangraðar. Ein leið til að brjóta sig út úr félagslegri einangrun er að gerast sjálfboðaliði og það er hægt hjá okkur og á fleiri stöðum. Félagsleg einangrun er hræðileg, hvernig getur maður tilheyrt. Félagsleg einangrun er æxli sem þarf að taka burt.

Fólk verður að vita að það er alltaf von, það er alltaf hægt að breyta og bæta og það má enginn gleyma því. Svo má ekki gleyma að fólk er misvel búið undir áföll, mitt áfall getur verið lítið í þínum huga en ekki mínum.“

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn.
Nánari upplýsingar hér: https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717
Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar