fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Sigurbjörn rifjar upp erfiða tíma: „Eitt símtal sumarið 2013 og veröldin hrundi“

Fókus
Fimmtudaginn 7. nóvember 2019 09:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það olli nettri geðshræringu að koma aftur til Krítar í haust, sex árum eftir að ég fékk heldur óþægilegt símtal þangað,“ segir Sigurbjörn Þorkelsson, ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Sigurbjörn skrifar reglulega pistla um hin ýmsu málefni, en í dag skrifar hann um persónulega reynslu, erfiða tíma sem hann upplifði fyrir nokkrum árum og uppgjörið sem hann fór í fyrir skemmstu.

Féllust í faðma og grétu

Símtalið sem Sigurbjörn talar um hér að framan var frá lækni á Íslandi sem tjáði Sigurbirni að hann væri með krabbamein. „Þá féllumst við hjónin ástfangin upp fyrir haus í faðma og fórum að gráta. Það sem eftir lifði þeirrar ferðar fannst mér gott að leggjast á sólbekk á víðavangi þar sem enginn þekkti mig og mér var sama um hvað fólki fannst. Lesa mín eigin ljóð, hlusta á tónlist og fara bara að gráta,“ segir Sigurbjörn.

Hann segir að ýmsar hugsanir hafi farið í gegnum huga hans á þessum augnablikum. „Til dæmis þær að ég ætti ef til vill aldrei eftir að upplifa það að vera afi. „Hvað verður? Hvað ef? Á ég aldrei eftir að… Ég sem ætlaði… Skilaðu kveðju minni til okkar ófæddu barnabarna… Viltu segja þeim frá mér …Að ég hafi …myndi og hefði …“ Eitt símtal sumarið 2013 og veröldin hrundi.“

Tilfinningarnar báru hann ofurliði

Þegar Sigurbjörn sneri heim til Íslands tóku við rannsóknir, uppskurður, biðtímar, löng geislameðferð og ævilöng lyfjameðferð með tilheyrandi aukaverkunum.

„Tilfinningarnar báru mig ofurliði strax fyrsta kvöldið eftir að við hjónin komum svo aftur til Krítar í síðasta mánuði eftir sex tíma flug. Enda ég orðinn afi fjögurra dásamlegra gleðigjafa sem hafa komið sem englar inn í líf okkar hjóna frá þeim tíma. Tvö þeirra voru þarna einmitt með í för. Gildin komin í sögulegt hámark og ég í sneiðmyndatöku á sex vikna fresti,“ segir Sigurbjörn í grein sinni.

Hann segir að þau hjónin hafi ákveðið að fara daginn eftir þangað sem þau voru stödd þegar símtalið barst fyrir sex árum til að skila því og þar með krabbameininu. „Og jafnframt til að leita að símanum mínum sem ég henti í laugina af því tilefni á sínum tíma, eða svona næstum því. Og til að þakka fyrir lífið. Þakka Guði fyrir allt. Þá meina ég allt. Tókum við atburðinn upp á myndband þar sem ég sagði frá og sýndi sundlaugagarðinn, húsið sem við dvöldum í á þeim tíma, standandi við sólbekk á nákvæmlega sama stað og þá. Að því búnu gengum við berfætt á ströndinni með notalegar sjógusurnar flæðandi yfir fæturna á okkur og héldum út í kapellu eina sem staðsett er á skaga við strandlengjuna; sömu kapellu og við héldum út í daginn eftir að símtalið barst á sínum tíma.“

Gott að geta gert hlutina upp

Sigurbjörn segir gott að geta gert hlutina upp, sættast við sjálfan sig og breyttar aðstæður og geta svo bara haldið áfram.

„Án þess að festast í sársauka fortíðarinnar og því sem var. Ég er Guði svo endalaust þakklátur fyrir lífið og gjafir þess. Það er nefnilega svo gott að þakka og gera upp. Njóta þess svo að fá að halda áfram og gefa af sér, þótt af veikum mætti kunni að vera.

Sigurbjörn rifjar svo upp það sem fjögurra ára afabarnið hans sagði við hann nokkrum dögum síðar.

„Afi, komdu aðeins, ég ætla að sýna þér svolítið.“ Ég stend upp og fer með henni inn. Þá segir hún: „Afi, ég ætla að sýna þér hvar ég geymi fjársjóðinn minn.“ Hún opnar því næst skúffu í hillusamstæðu í herberginu þeirra. Þar hafði hún komið fyrir ýmsu smádóti og leikföngunum sínum. Um leið og hún opnaði skúffuna blasti við mér eintak af Nýja testamentinu merkt Gídeonfélaginu á þremur tungumálum, þýsku, ensku og frönsku,“ segir Sigurbjörn en hann starfaði einmitt sem framkvæmdastjóri Gídeonfélagsins á Íslandi frá 1986- 1998 og var forseti landsstjórnar félagsins 2001-2004. Félagið fjármagnaði kaup á nákvæmlega svona útbúnum Nýjatestamentisbókum til dreifingar á hótelherbergi á Íslandi og víðar um heim á þeim tíma.

Sigurbjörn heldur áfram:

„Afi, þetta er bókin þín.“ Ég hafði að vísu sent frá mér allnokkrar bækur og eru myndir af henni í tveimur þeirra. En þetta snerti hjarta mitt í þessu samhengi öllu. Ég sem hafði varið öllum þessum árum í að útbreiða og vekja athygli á hinum himnesku og lífgefandi kærleiks- og friðarorðum frelsarans Jesú í Nasaret. Að þá skuli þetta gerast þarna með þessum hætti á þessum merka stað, sem talaði sannarlega sterkt til mín í heildarsamhenginu. Á slóðum sem Páll postuli fór um fyrir tæpum tvö þúsundum árum ásamt Títusi vini sínum. Þarna var ég svo hressilega minntur á upprunann og nærveru og handleiðslu heilags anda Guðs, höfundar og fullkomnara lífsins, sem vakir okkur yfir, leiðir, uppörvar, styður og blessar.“

Hann endar greinina svo á þessum orðum:

„Já, krakkar mínir. Hann er sko ekki aldeilis dauður enn. Dýrð sé Guði fyrir lífið og hans nærandi nærveru sem aldrei klikkar eða bregst. Og fyrir dýrmæta þjónustu og trúfesti allra hans jarðnesku engla, alla tíð. Með kærleiks- og friðarkveðju. Lifi lífið!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta