fbpx
Miðvikudagur 04.október 2023
Fókus

Eins og hryllingsmynd: Eltihrellir með tengsl inn í dómskerfið ofsótti Ástu og Valgeir – „Ég er með eldspýtur og kveiki í hárinu á þér“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 9. mars 2019 14:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og fjölskylda hennar máttu þola alvarlegar hótanir og ofsóknir frá nafnlausum einstaklingi í tvö ár. Ásta er gift tónlistarmanninum Valgeiri Guðjónssyni og eiga þau saman þrjú börn. Lögreglan upplýsti málið á sínum tíma en saksóknari neitaði að gefa út ákæru, enda var eiginmaður geranda vel tengdur inn í dómskerfið. DV ræddi við Ástu, sem áður hefur rætt málið við Vikuna. Valgeir hefur einnig rætt þetta áður við DV.“

Þetta er brot úr umfjöllun úr helgarblaði DV þar sem fjallað er um fræga Íslendinga sem hafa lent í eltihrellum og verið ofsótt.

Átján bréf á tveimur árum

Nafnlaus hótunarbréf tóku að berast laust fyrir aldamótin. Ásta hafði áður starfað sem forstöðumaður við Námsráðgjöf Háskóla Íslands í átján ár. Hún lenti þar í átökum við þrjá starfsmenn sína vegna persónulegra vandamála í einkalífi þeirra og áfengisvanda.

Tveir þessara starfsmanna höfðu til margra ára verið samferða henni í námi og nánir heimilisvinir að auki áður en ósköpin skullu yfir.  Á þeim tíma hafði einnig nýr rektor tekið við sem tók á málum með þeim hætti að Ásta lét af störfum. Ásta hafði í gegnum árin verið ötull málsvari nemenda og náð að rétta hlut þeirra. Í hugskotum þeirra sem bíða lægri hlut í málum getur blundað undir yfirborðinu reiði sem brýst stundum út á mismunandi vegu þegar tækifæri gefst.

Skort á stuðningi við Ástu rekur hún til slíkra viðbragða. Þessi viðsnúningur leiddi til þess að Ásta hætti hún störfum í háskólanum og hóf eigin ráðgjafarstofu. Rétt eftir starfslokin fóru bréfin að berast og Ástu grunaði í fyrstu að þau kæmu frá einni af fyrrverandi samstarfskonum hennar enda voru fyrstu bréfin uppfull af faglegu níði.

Alls bárust þeim átján bréf á tveimur árum. Þau innihéldu hótanir um líkamsmeiðingar af margvíslegum toga, íkveikju og rætinn róg af ýmsu tagi. Bréfið sem hratt rannsókn lögreglunnar af stað af fullum þunga var metið mjög alvarlegt en það innihélt hvítt duft. Átta ára dóttir þeirra opnaði bréfið. Ofsóknirnar höfðu mikil áhrif á alla fjölskylduna, ekki síst Ástu sjálfa.

„Þetta var morð, tilfinningalegt morð. Þetta gerði það að verkum að ég hrundi. Ég gat ekki verið ein, gat ekki keyrt bíl og hætti að mæta á mannamót. Hvar sem ég var þurfti ég alltaf að hafa varann á mér og hafa útleið. Börnin okkar voru aldrei látin ganga heim úr skóla. „Það að vita ekki hver gerandinn var, var sérstaklega erfitt,“ segir Ásta og það tekur mikið á hana að rifja upp þennan tíma.

„Þetta eru ör sem aldrei gróa.“

Flokkaði og greindi hótanirnar

Ásta þurfti að leita sér læknisaðstoðar og hún segir það hafa tekið hana mörg ár að geta orðið virk í samfélaginu á nýjan leik. Bakgrunnur hennar í fræðunum hafi þó hjálpað við að takast á við þetta.

„Þegar ég hugsa til baka stendur upp úr sú mikla sorg að missa af stórum hluta lífs barnanna. Ég fór í veikindafasa og gat ekki veitt þeim það sem móðir ætti að geta veitt börnum og ótti minn smitaðist yfir á þau. Þessi ógn er svo djúpstæð. Þú veist ekki hver er þarna úti í myrkrinu og þú veist ekki hvenær gerandinn ætlar í raun að láta til skarar skríða og láta verða að hótununum.“

Var hvert bréf jafn hræðilegt eða vandist þetta?

„Nei, þetta vandist aldrei. Bréfin fóru í raun hríðversnandi.“ En ég notaði minn faglega bakgrunn til að rannsaka og flokka óhugnaðinn sem stóð í bréfunum. Mér fór að takast að greina í þeim megin hótunarflokka. Einn þeirra laut að grófum misþyrmingum, þá alltaf faglegt níð, einn um manninn minn þar sem spilað var inn á afbrýðisemi og svo framvegis. Þegar ég var byrjuð á að lesa bréfin og greina efnið á þennan hátt náði ég betri stjórn á óttanum og reyndi að virkja hugann á rökrænum forsendum. Þannig vann ég með rannsóknarlögreglunni og með hennar hjálp fikraði ég mig fram veginn í leitinni að mögulegum geranda. Tímaþáttur atburða sem nýttir voru til að lýsa og tæta niður persónu mína var líka mikilvægur í greiningarferlinu. Það reyndist mér mikill styrkur að geta tekist á við tilfinningarnar rökrænt og rætt og beitt skipulagðri hugsun. Rannsóknarlögreglumaður sem stýrði málinu reyndist mér ómetanlega vel og hann sýndi aðstæðum okkar allra einstakan skilning og virðingu.“

Í einu bréfinu stóð: „Ég fylgist með ykkur daglega. Ég sit hérna á kaffihúsi og sé ykkur þegar þið komið og farið. Ég sé mig í anda þegar ég er með eldspýtur og kveiki í hárinu á þér.“

Hvítt duft

Ásta er þakklát lögreglunni fyrir það hvernig þessu máli var sinnt og fylgt eftir. En lögreglan á jafnan erfitt með að takast á við mál á borð við þetta sökum fjárskorts. Rannsóknarlögreglan fylgdist með þeim og vissi af þeirra máli. Alvarlegasta atvikið var þegar bréfið með duftinu barst á Ægissíðuna, þar sem fjölskyldan bjó á þeim tíma. Þá var miltisbrandsógnin í hámæli.

„Dóttir mín, þá átta ára, tók bréfabunka upp og setti hann á borðið í forstofunni. Þá fór duft út um allt og hana fór að svíða í augun og eldroðnaði í framan. Lögreglan og sjúkrabílar komu undir eins og ég fékk algjört taugaáfall. Það var verið að hræða okkur og láta okkur halda að þetta væri miltisbrandur, en við efnagreiningu kom í ljós að þetta var sódi, hjartarsalt og eitthvað fleira.“

Málið upplýstist en saksóknari neitaði að taka það

Eftir tveggja ára ógn fengu þau loks orðsendingu sem gat beint leitinni á rétta braut. Barst þá óhugnanlegur tölvupóstur, frá Hotmail-netfangi, sem var látið líta út eins og hann kæmi frá bróður Ástu. Í honum stóð að fylgst væri með þeim í hverju horni.

„Við vorum með yndislega au-pair stúlku sem fór þá upp á sitt einsdæmi og tilkynnti póstinn til „einelti á Hotmail“. Í fyrstu hafði verið talið að ekki yrði unnt að rekja sendinguna og til þess þyrfti dómsúrskurð í Bandaríkjunum. En sem betur fer brást Hotmail skjótt við og því var hægt að rekja IP-töluna. Við þá rakningu staðfestist grunur minn sem ég hafði rætt við lögregluna um. Viðkomandi hafði vitaskuld neitað. Slóðin var sem sagt sem rakin og viðkomandi þá tekin nauðug í DNA-prufu sem sýndi samsvörun gagnvart lífsýnum á tveimur bréfanna.“

Þannig var að viðkomandi  kona, sem er nú látin, var doktor í sálfræði, en ekki ein af þeim sem höfðu orsakað að Ásta hætti í starfi forstöðumanns, heldur kona sem átti harma að hefna frá því fimmtán árum áður, þegar Ásta hafði betur í faglegu máli sem háskólarektor studdi Ástu í. Rannsóknarlögreglan undirbjó málið mjög vel og sendi til saksóknara, en saksóknari vísaði málinu frá.

Eiginmaður geranda var hæstaréttarlögmaður, og annar af starfsmönnum Námsráðgjafar sem Ásta hafði bent á í upphafi, var stjúpdóttir fyrrverandi ríkissaksóknara sem blandaði sér í málið þegar sú ábending kom upp.

Það var mikið áfall fyrir Ástu og fjölskyldu hennar og augljós sönnun á frændhygli og spillingu í íslensku samfélagi þar sem nánd og krosstengsl hafa mikil áhrif á niðurstöður.

Nú var þetta augljóst hegningarlagabrot, hvaða svör fenguð þið frá saksóknara?

„Að það væri ekki hægt að staðfesta að verstu bréfin, sem ekki fannst DNA á, væru frá sama aðila. Þessi tvö bréf sem voru með sýnunum á voru ekki með beinum líflátshótunum, en engu að síður mjög ógnandi og viðbjóðsleg. Þótt IP-tala tölvunnar sem Hotmail-tölvupósturinn hefði verið rakin til tölvu eiginmanns gerandans á heimili þeirra hjóna, dugði það ekki til að ríkissaksóknari teldi það nægar sannanir til að ákæra í málinu.“

Áfall að mæta dóttur geranda

Ásta segist ekki í neinum vafa um að gerandinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða, auk þess að vera haldinn alvarlegum áfengisvanda. Ásta hitti gerandann aldrei eftir að þetta kom upp, en vegir fjölskyldnanna áttu eftir að skarast engu að síður.

„Tvö barna okkar völdu sálarfræði sem háskólanám og dóttir okkar, sem fékk duftið úr bréfinu á sig, er nú í framhaldinu í doktorsnámi í taugavísindum. Önnur dóttir gerandans er í sama fagi og samleið óhjákvæmileg. Sem betur fer er ekki samasemmerki á milli gjörða foreldra og barna þeirra og í þessu tilfelli eru líkindin sem dagur og nótt.“

Ásta segist hafa smám saman náð að byggja sig upp með hjálp góðs geðlæknis sem hún leitaði til snemma í hótunarferlinu. „Læknirinn er kona og mikill fagmaður og enn í dag nýt ég hennar liðsinnis. Málið allt hefur markað djúp spor hjá allri fjölskyldunni. Ég er ekki ekki jafn illa á mig komin í dag, en ég hef aldrei náð mér að fullu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

J.Lo og Ben Affleck virtust rífast eftir að hann sást í faðmlögum með fyrrverandi

J.Lo og Ben Affleck virtust rífast eftir að hann sást í faðmlögum með fyrrverandi
Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – „Klikkaðslega ástfangin“

Vikan á Instagram – „Klikkaðslega ástfangin“
Fókus
Fyrir 2 dögum

5 algeng einkenni ADHD sem fáir vita um

5 algeng einkenni ADHD sem fáir vita um
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þess vegna er talið að lögregla hafi beðið í tvö áratugi áður en meintur morðingi Tupac var handtekinn

Þess vegna er talið að lögregla hafi beðið í tvö áratugi áður en meintur morðingi Tupac var handtekinn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hliðarspor fór úr böndunum – „Hún er kröfuhörð og óútreiknanleg“

Hliðarspor fór úr böndunum – „Hún er kröfuhörð og óútreiknanleg“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Grunaður morðingi Tupac Shakur handtekinn 27 árum eftir ódæðið

Grunaður morðingi Tupac Shakur handtekinn 27 árum eftir ódæðið